Erindi bréfsins til Braga var að láta hann vita, hvað bókin hefði glatt okkur, og hve margt hefði rifjast upp frá liðnum árum við lestur hennar. Í þessari bók er Bragi í essinu sínu. Hin alræmda frásagnargleði hans nýtur sín vel – engin látalæti, engin tilgerð, engin sjálfsvorkunn þrátt fyrir nokkurt mótlæti framan af. Hún lýsir sönnum manni, lífsreyndum – og lífsglöðum. Hún er falleg umgjörð um verk, sem munu lifa með þjóðinni um ókomin ár.
Og nú er Bragi allur. Það mátti ekki tæpara standa. Þökk sé Þóroddi Bjarnasyni.
Þegar ég hugsa til baka, sé ég, að líf mitt skiptist í kafla, sem eru gerólíkir hver öðrum – til dæmis árin fyrir og eftir Ísafjörð. Við bjuggum á Vesturgötunni, sem þá var nafli alheimsins í okkar tilveru. Bragi var einn af þessum litríku íbúum götunnar. Hann gekk daglega fram hjá húsinu okkar, veifaði glaðlega og spjallaði eins og enginn væri morgundagurinn. Stundum, þegar sólin skein, settumst við öll undir reynitréð í garðinum á bak við húsið – einkum ef Kolbrún og fallegi barnahópurinn var með í för. Þá kom fyrir, að Bragi byði upp á rauðvín. Á þessum árum átti ekkert okkar bíl, svo að það var engin ástæða til að fara neitt lengra. Allur heimurinn rúmaðist í garðinum við Vesturgötuna.
Þegar við snerum til baka frá Ísafirði mörgum árum seinna, voru flestir nágrannarnir flognir, þar á meðal Bragi og Kolla – gott ef þau voru ekki líka skilin að skiptum. Allt var gerbreytt – Vesturgatan líka. Ég missti af Braga og fann hann ekki aftur, fyrr en ég skrifaði honum þetta bréf fyrir þremur árum. Í svarbréfi hans, sem ég geymi á góðum stað, þakkar hann okkur fyrir þessi fallegu ár, sem við áttum saman á Vesturgötunni.
Hann segir líka, að hann hefði viljað þróa grafiklistina betur, og að hann hefði átt að þiggja boð um vinnuaðstöðu á bestu verkstæðum Parísarborgar i den – en „það fórst fyrir, fari það kolað“. Enginn veit sína ævina fyrr en öll er.
Og með þau orð í huga, fylgjum við vini okkar, listamanninum. seinasta spölinn.