Hinn slavneski lífsháski

Mig hafði aldrei órað fyrir því, að ég mundi einn góðan veðurdag standa á Maidan, þessu sögulega torgi í Kyiv, höfuðborg Úkraínu, þar sem óþreyjufullir borgarar komu saman fyrir rétt rúmu ári í uppreisn gegn spillingu stjórnvalda – heimtaði réttlæti og sanngirni, betra líf, bjartari framtíð – á torginu, þar sem byltingin breyttist í blóðbað og hinir hugdjörfu féllu fyrir byssukúlum leigumorðingja, forsetinn flúði land, boxarinn, Klitschko, varð borgarstjóri, og súkkulaðikóngurinn, Poroschenko forseti.

Hvítar steinhellurnar bera enn lit blóðsins, fánarnir standa uppi og myndir af hinum föllnu blasa við forvitnum ferðalöngum. “En hvar eru öll blómin”, spurði ég leiðsögukonuna. “ Þú átt við blómin, sem fólk bar að til að heiðra minningu hinna föllnu? Hér var mikið blómahaf, alveg rétt, en í skjóli nætur voru blómin hirt og seld aftur sem ný daginn eftir”, sagði hún og glotti. Ég horfði á hana undrandi og hrygg – jafnvel á örlagastundu er maðurinn samur við sig.

Sólin var komin hátt á loft. Samt andaði köldu, miður apríl. Það var hrollur í mér.

Að vísu höfðum við haft einhvern pata af því, að gestgjafar okkar væru bankamenn með einhver umsvif í Eistlandi. Þess vegna spurðum við eistneska vini frá fornu fari, hvort þetta væru fjárplógsmenn? Þeir fullvissuðu okkur um, að þessi náungar væru O.K. Engin furða. Það sem vakti fyrir ólígarkanum, sem átti bankann, var að koma því til skila til hinna ofurríku – og hinna næstum því ríku í Úkraínu – að peningarnir þeirra væru í öruggu skattaskjóli í Eistlandi. Eistland væri hið nýja Sviss norðursins. Bara öruggara!

Við tókum orð vina okkar í Eistlandi trúanleg og létum slag standa. Við tímdum ekki missa af þeirri lífsreynslu að sjá með eigin augum – og eiga orðastað – við fólk, sem lifði við stanslausar hótanir Vladimirs Putin og vissi í raun ekkert, hvað morgundagurinn bæri í skauti sér. Enda kom á daginn, að ræða JB var ágætur inngangur að aðalefni ráðstefnunnar – Hvað getum við lært af Eystrasaltsþjóðum?

Kyiv er ógnvekjandi borg, greinilega byggð á tímum rússnesku keisaranna – víðáttumikil stræti og risavaxnar hallir – hallir, sem hefðu rúmað alla rússnesku hirðina, á meðan hún var og hét, og eitthvað mikið stóð til. Champs Élysees bliknar í samanburði. Alla vega er ekki nokkur leið að arka yfir breiðgöturnar á sínum eigin fótum eins og í París, heldur er manni vísað á óralöng göng neðan jarðar, þar sem iðar önnur veröld, upptendruð af neonljósum og líflegri smákaupmennsku. Búð við búð, lífsþreytt andlit, sem draga að sér athygli og ota að manni vörum, allt frá smábarnaskóm upp í rúmdýnur. Tíminn leyfði ekki langan stans, og ég þráði að komast út til að draga að mér ferskt loft.

Við vorum alltaf með lífvörð á hælunum og ofurnettar leiðsögukonur, sem túlkuðu hvert orð, sem við sögðum, yfir á rússnesku! Þær viku ekki frá okkur, vildu allt fyrir okkur gera. Svo fínar í tauinu og svo vel snyrtar með slegið hár á tíu sentimetra háum hælum, að ég fór hjá mér í hversdagsleik mínum. Þar að auki með ólakkaðar neglur í gömlum bandaskóm, (sem ég sá, að þær skoðuðu grant, þegar þær héldu, að ég tæki ekki eftir!). Ég var alltaf að reyna að fela tærnar og líka töskuna –þessa svörtu tuðru, sem er komin til ára sinna, úr sér gengin og gamaldags. Mér fannst það óréttlátt af gestgjöfunum að klæða leiðsögukonur okkar í fatnað frá Boss og Armani og Gucci – nema þeir hafi haldið, sem er auðvitað ekki ólíklegt, að ég gerði það líka – og þess vegna þessir lífverðir. Stelpur sem hafa efni á Armani þurfa greinilega lífvörð í höfuðborg Úkraínu – og þótt víðar væri leitað.

Nema hvað – við bjuggum á nosturslegu nýuppgerðu hóteli í elsta hluta borgarinnar. Herbergið okkar var rósrautt, og okkur var fagnað við komuna um miðja nótt með rósum í sama lit. Ráðstefnan var líka á hótelinu, svo að við komumst ekkert út fyrstu tvo dagana. Eftir ráðstefnuna var dottið í það, mikið skrafað og skeggrætt – vodka og Kyiv kjúklingar á borðum.

Ég komst að því, að sæta leiðsögukonan okkar var systurdóttir eiganda bankans – þess sem stóð fyrir ráðstefnunni. Hún hafði verið send í skóla á Englandi á áttunda ári, og farið víða um Evrópu. Regluleg heimsdama af rússneskum Gyðingaættum, og var greinilega vön að gefa skipanir og að vera hlýtt. Lífvörðurinn stóð sína plikt í bakherberginu allt kvöldið. Pabbi hennar er hins vegar – eða var, áður en Putin fór ránshendi um héraðið – einn ríkasti vínframleiðandi á Krímskaganum. Um þessar mundir var hann, ásamt mömmu, að reyna að jafna sig eftir áfallið á jóganámskeiði í Indlandi. Allt þetta tókst henni að segja mér undir borðum, á meðan hún dreypti á vatninu – en ég naut vínsins.

Á öðrum degi var JB kallaður í blaðaviðtöl. Á meðan fór ég í gönguferð um nágrennið og skoðaði mannlífið. Það voru ekki margir á ferli, en allir brostu til mín, glaðlegir og vingjarnlegir – fólk sem bar af sér góðan þokka. En Kyivbúar líkjast Spánverjum að því leyti, að þeir sem ekki kunna þeirra stórkostlega tungumál, hafa greinilega ekkert að segja. En hvað um það, misskiptingin blasti við á hverju götuhorni. Fátækir ganga þungum skrefum með hokið bak og pokasjatta í fanginu – á meðan lúxuslímósínur þeysa hjá og gefa skít í hyskið.

Loksins á þriðja degi gafst okkur tækifæri til að fara í skoðunarferð um borgina. Við ókum í tveimum Mercedes bensum, því að leiðsögukonurnar höfðu sín hvorn lífvörðinn, og því dugði ekki einn bíll. Þar með sluppu þær við að svara spurningum okkar um land og þjóð. Það var svona kæruleysislegur vonbrigða- og uppgjafartónn í orðum þeirra. “Ekki gefa betlurunum peninga, því að þetta er fólk, sem ekki nennir að vinna!” Hver kannast ekki við svona viðhorf?

Kyiv er byggð á sjö hæðum eins og Rómaborg, og ef að Hitler hefði ekki sprengt upp annað hvert hús í upphafi seinni heimstyrjaldarinnar – og ef að Stalín hefði ekki byggt þúsundir blokka í anda Sovéttrúboðsins í staðinn, þá væri hún kannski enn jafn fögur og Róm. En í áranna rás hefur hún látið á sjá, og peningarnir sem hugsanlega hefðu getað farið í viðgerðir og endurnýjun og fegrun, eru allir horfnir inn í skattaskjól hinna ofurríku, þaðan sem þeir koma aldrei til baka inn í hagkerfið.

Á fjórða degi flugum við áfram til Malaga í gegnum München. Svei mér þá, ef það var ekki ljúf tilfinning að virða fyrir sér blómleg býli og græna akra ofan úr háloftunum og vita, að framundan biði vel skipulagður, bavarískur flugvöllur, þar sem ekkert gæti klikkað. Allt undir kontról – þýsk Ordnung eftir hinn slavneska lífsháska.