Ekkert breytist

Fyrir næstum tuttugu árum tók ég viðtal fyrir útvarpið (Rás 1), við kunnan athafnamann í Reykjavík, sem hafði alist upp í “Pólunum” svokölluðum. Pólarnir voru stórt og fremur hrörlegt hús í eigu Reykjavíkurborgar, sem stóð ofanvert við flugvöllinn í Vatnsmýrinni langt fram eftir síðustu öld. Það hýsti fátækt fólk – aðallega barnmargar fjölskyldur, sem voru eigna- og atvinnulausar. Á þessum árum, snemma á fjórða áratugnum, ríkti kreppa á Íslandi sem og annars staðar í heiminum, og áttu margir um sárt að binda.

Lög í okkar landi á þessum tíma mæltu svo fyrir, að þeir sem þæðu af sveit, þ.e.a.s fengju framfærslustyrk frá bæjaryfirvöldum, – væru sviptir kosningarétti, nytu sem sagt ekki sömu réttinda og þeir, sem áttu eignir eða voru með örugga atvinnu.

Þessi ágæti maður, sem sat fyrir svörum hjá mér í útvarpinu þennan sunnudag, rifjaði það upp, að einmitt þegar hann var drengur – pabbinn atvinnulaus með marga tóma maga fyrir að sjá – hefði legið fyrir Alþingi tillaga frá Alþýðuflokknum þess efnis, að allir þegnar þessa lands, sem komnir væru af barnsaldri, burtséð frá því, hvort þeir hefðu atvinnu eður ei, skyldu njóta sömu mannréttinda og aðrir – þar á meðal að fá að fara á kjörstað og kjósa.

Þessi tillaga Alþýðuflokksins þótti mikil ósvinna. Hún þótti eiginlega svívirðileg heimtufrekja í hugum þeirra sem réðu í landinu. Íhaldið gerði allt, sem í þess valdi stóð til að hindra framgang hennar á Alþingi. Eftir margra mánaða baráttu og málþóf tókst þó að lokum að koma henni í gegnum þingið og fá hana samþykkta.

Það ríkti því mikill fögnuður í Pólunum næst, þegar kosið var. Menn hlökkuðu til að klæðast sparifötunum, fara gangandi niður í miðbæ, með börnin uppáklædd sér við hlið, upplitsdjarfir, stoltir, frjálsir menn í frjálsu landi. Í þá daga var bara kosið í Miðbæjarskólanum.

En svo kemur endirinn á sögunni – og hlustið nú.

“En hvað heldur þú að þetta fólk hafi kosið, Bryndís?” spyr maðurinn – viðmælandi minn – og horfir djúpt í augu mér.

Ég sagði ekki orð, horfði bara óttaslegin á hann. Ég fann til í hjartanu. Ég óttaðist svarið.

“Íhaldið, Bryndís – það kaus Íhaldið”.

Svo þagnaði hann.

Og þögnin getur verið óþægileg – sérstaklega í útvarpi.

Mér var orða vant, en gat þó stunið upp:

“En – hvers vegna?”

Enn horfðumst við í augu. Það brá fyrir sorg í svip hans.

“Af því að fólkið vildi ekki tilheyra alþýðunni lengur.” Svo lækkaði hann róminn. “Það vildi upp – upp til fína fólksins!

Gleyma uppruna sínum, gleyma fortíðinni.

Þannig launaði fólkið velgjörðina,” sagði hann.

Og þannig er það enn í dag.

Ekkert hefur breyst. Sagan endurtekur sig.