Þeir sem þora

ÓVINUR FÓLKSINS
eftir Henrik Ibsen
Í þýðingu og leikgerð Grétu Kristínar Ómarsdóttur og Unu Þorleifsdóttur

Leikstjórn: Una Þorleifsdóttir
Leikmynd og búningar: Eva Signý Berger
Tónlist: Gísli Galdur Þorgeirsson
Hljóðmynd: Gísli Galdur Þorgeirsson
Lýsing: Ólafur Ágúst Stefánsson
Aðstoðarleikstjóri og dramatúrg: Gréta Kristín Ómarsdóttir

Ég er soldið farin að ryðga í Ibsen – þessum skelmi borgaralegs samfélags í Noregi – og síðar um allan hinn „upplýsta heim“. Var hann ekki hinn mikli afhjúpari, rannsóknarblaðamaður – eins og það heitir nú til dags – sem notaði leiksviðið sem miðil?

Hvað segir um þetta í leikskránni:

Óvinur fólksins er sagt vera um „valdabaráttu, græðgi, þöggun, rödd samviskunnar, rétt náttúrunnar og samfélagslega ábyrgð“. Svo er meira að segja feitletrað mottó, sem á að lýsa kjarna málsins:

Lýðræðið snýst ekki um upplýstar ákvarðanir, heldur vinsælar skoðanir.

Þessi gegnumlýsing Ibsens á rangupplýstu lýðræði (borgarafundurinn) er reyndar komin til ára sinna. Þetta er skrifað fyrir daga lýðræðis, eða eigum við að segja á gelgjuskeiði þess á ofanverðri 19du öld. Kosningaréttur var takmarkaður við feðraveldi og eignastéttir. Konur og þurfalingar voru ekki talin með. Gáfnaljósum hraus meira að segja hugur við tilhugsuninni um, hvað mundi að lokum leiða af lýðræðinu, þegar hinn óupplýsti lýður tæki völdin, í nafni meirihlutans, af hinni upplýstu og menntuðu elítu. Hvað þýddi það? Alræði fáfræðinnar, heimskunnar, fordómanna – sem sagt fláræði?

Stundum hefur maður á tilfinningunni, að Ibsen sé að rífast við Nietsche sjálfan.

En þetta frumsýningarkvöld í Þjóðleikhúsinu, innan um hinn „þögla meirihluta“, eða hina upplýstu millistétt, fannst mér, eftir því sem leið á sýninguna, að ekkert hefði breyst. Við værum að horfa á nútímaverk, sem byði upp á beitta ádeilu á sýndarmennsku lýðræðisins í aðdraganda kosninga.

Þar með hefur Þjóðleikhúsið hafið kosningabaráttuna á undan stjórnmálaflokkunum. Það er allt þarna: varðstaða um sérhagsmuni, leyndarhyggja, þöggun, spuni og fjölmiðlar, mýldir og keyptir.

Ef við setjum Bláa lónið í staðinn fyrir heilsuböðin og Helguvíkursilikonið í staðinn fyrir norsku fabrikkuna, þá er það fullkomnað. Rétt eins og á borgarafundinum hjá Ibsen heyrðu frumsýningargestir Þjóðleikhússins sömu rökin. „Við þurfum að varðveita festu og stöðugleika og varast glundroða og upplausn“.

Stundum þarf að vísu bara litla þúfu til að velta þessu hlassi – en bara stundum.

Hræðsluáróðurinn gegn róttækum breytingum hefur löngum reynst umbótamönnum skæður viðureignar.

Þetta snýst sumsé um það, að í þorpinu er gullöld og góssentíð. Víðfræg heilsuböð laða að sér túrista í stórum stíl. Hlutabréfavísitalan er á uppleið. Allir (sem máli skipta) eru að gera það gott. Læknirinn er mikils metinn í samfélaginu, enda frumkvöðull að byggingu heilsubaðanna.

En það reynist vera maðkur í mysunni. Samkvæmt efnagreiningu rannsóknarstofu háskólans er vatnið í heilsulindinni hættulegt heilsu manna. Heilsulindin er orðin háskaleg lýðheilsunni. Læknirinn ráðgast við sína nánustu um, hvað sé til ráða. Almannahagsmunir krefjast þess, að lýst sé yfir neyðarástandi. Þessi ótíðindi leka út. Þeir sem eiga mestra hagsmuna að gæta, bregðast harkalega við.

Nú reynir á mátt upplýsingarinnar frammi fyrir tengslaneti valdsins. Það reynir á lýðræðið (borgarafundurinn).

Et voilá!

Viðhorf valdhafans er að stinga skýrslunni undir stól (Kannist þið við það?) Þagga málið niður. Véfengja sannleiksgildi vísindalegra rannsókna, vara við afleiðingum – lokun heilsubaðanna. Óheyrilegur kostnaður, skattahækkanir. Viljið þið það?

Svo kemur snotur smjörklípa. Hlutabréfin í heilsuböðunum snarféllu í verði. Fengust fyrir slikk. Tengdapabbi læknisins (sem átti hlut að máli) kaupir öll bréf, sem eru föl á þessari brunaútsölu. Svo stillir hann lækninum upp við vegg: Almannahagsmunir eða fjölskylduhagsmunir? Þar með er reynt að sannfæra almenning um, að læknirinn sé enginn hugsjónamaður í reynd. Hann sé bara rétt eins og við öll hin, láti stjórnast af eigin hagsmunum. Hann hafi plottað verðfallið til þess að koma hinum gömlu valdhöfum frá, en sjálfum sér að.

Hugsjónamaðurinn er þar með sviptur ærunni: sannleiksvitnið er orðið að venjulegri peningahóru.

Flestir ábyrgir fjölskyldufeður mundu hugsa sig um í þessum sporum, ekki satt?

En hugsjónamaðurinn lætur ekki bugast í þessu tilviki. Hann segir valdhöfunum – og almenningi, sem er á þeirra bandi – stríð á hendur.

Sá einn er sterkur, sem þorir að standa einn. Að lokum er þetta spurning um hugrekki eða heigulshátt.

Sama sagan enn í dag. Allt óbreytt. Frá Ibsen til Orwells – til okkar daga.

Ritstjórinn (fjölmiðlavaldið) fær sérlega snautlega útreið í þessari dæmisögu Ibsens. Til að byrja með er hann fullur af róttæku froðusnakki gegn valdhöfunum (Hvort við könnumst við það!). Og hvetur lækninn til dáða. Þegar á reynir, er hann sá fyrsti sem svíkur. Er veginn og léttvægur fundinn. Eignarhaldið og auglýsingatekjurnar ráða.

Kannist þið við það?

Allt er óbreytt, sagði ég. Sígilt verk og þá um leið samtímaverk. Það var vel til fundið hjá Evu Signýju Berger (leikmynd og búningar) að vísa þessu sígilda drama út úr stássstofum borgaranna á tíð Ibsens. Í staðinn vorum við löngum á berangri með hráslagalega táknmynd iðnbyltingarinnar allt um kring. Var þetta járnbrautarstöðin, þar sem áhrif umheimsins komu og fóru? Eða norska fabrikkan – hið íslenska silikon?

Glæsileg umgjörð! Enginn tepruskapur, enginn realismi, veggir né sófar né borð.
Það er augljóst, að Una Þorleifsdóttir (leikstjóri) og Gréta Kristín Ómarsdóttir (leikgerð og þýðing) hafa unnið mikið þrekvirki við þýðingu og uppsetningu þessa volduga verks Ibsens. Bara það að þora að leggja til atlögu við einn þekktasta og áhrifamesta rithöfund allra tíma, sýnir, að þessar ungu konur eru ekkert blávatn – heldur konur sem skynja sinn vitjunartíma, fullar af sjáfstrausti og byltingarkenndum hugmyndum – og vita nákvæmlega, hvað þær eru að gera.

Til marks um það má segja, að verkið sé næstum óþekkjanlegt frá uppfærslum eins og þær tíðkuðust á hinni öldinni (Þjóðleikhúsið, 1975, muniði?). Við erum komin langt út fyrir þann hefðbundna ramma, sem tíðkaðist á þeim árum. Verkið hefur verið stytt til muna, einblínt er á aðalpersónuna, sannleiksvitnið sjálft og málstað þess. Öllu öðru er ýtt til hliðar. Þannig verður Katrín, eiginkona læknisins, eins og skugginn af sjálfri sér, sviplaus vera, sem aldrei fær líf á sviðinu. Sama má segja um börnin – þau eru þarna, en skipta ekki máli – eins konar props. Jafnvel þessi fallega stelpa, hún Petra yngri (Snæfríður Ingvarsdóttir) fær aldrei almennilega tækifæri til að láta ljós sitt skína.

Hins vegar skipta fleiri en einn – og fleiri en tveir – um kyn: „Það eru ekki lengur bara kallar, sem eru að tala saman“, eins og Gréta Kristín segir sjálf í viðtali. Konur eru komnar í karla stað, þær hafa tekið yfir. Ein er orðin bæjarstjóri (áður bróðir læknisins), önnur formaður í Félagi atvinnurekenda (áður hr.Aslaksen) og sú þriðja blaðamaður (hr. Billing). Svona eru tímarnir breyttir. Konur hafa fengið rödd. Við erum stödd í nútímanum. Fólk er frjálslega klætt og fylgist með tískunni – í dag. Allt í anda Evu Signýjar – up to date!

Tónlistin (Gísli Galdur Þorgeirsson) og lýsingin (Ólafur Ágúst Stefánsson) ófust saman í eina órjúfanlega heild, sem sveiflaðist í takt við hið andlega stríð í sálum fórnarlambanna.

Það eru eiginlega bara tvö hlutverk, sem standa upp úr. Það eru þau stystkinin, Tómas og Petra Stokkmann.

Björn Hlynur Haraldsson vinnur leiksigur með túlkun sinni á þessum vinsæla lækni og fjölskyldumanni, sem endanlega stendur uppi aleinn sem rödd samviskunnar – eins konar sannleiksvitni. Hann birtist okkur í upphafi sem aðlaðandi persóna, hamingjusamur, einlægur og heiðarlegur. Styrkur hans er sá, að hann efast aldrei, ekki eitt augnablik. Þetta er spurning um hugrekki eða heigulshátt.“Sá einn er sterkur, sem þorir að standa einn“, segir hann sjálfur. Aldrei að gefast upp – sannleikurinn mun koma í ljós.Og varnarræða hans í lokin er svo áhrifamikil, að ósjálfrátt var ég farin að sjá hann fyrir mér sem óskaframbjóðanda minn í kosningunum hér heima í haust. Slíkur var sannfæringarkrafturinn og eldmóðurinn!

Sólveig Arnarsdóttir á líka frábært „come-back“ í þessari glæsilegu sýningu. Petra bæjarstjóri hefur þennan kankvísa augnsvip, sem alla heillar, en undir niðri er hún flagð undir fögru skinni, miskunnarlaus tækifærissinni, sem svífst einskis, þegar eitthvað bjátar á. Framkoma hennar við bróðurinn er ótrúlega grimm – henni er augljóslega ekkert heilagt. Sólveig kemur þessu öllu til skila á sinn ísmeygilega hátt, lævis og lipur, með það besta frá báðum foreldrum í farteskinu.

Svo langar mig líka til að nefna Snorra Engilbertsson í hlutverki Hovstads, róttæka ritstjórans, sem hefur hvorki bein í nefinu né hugrekki til að standa með fórnarlambinu, þegar á reynir. Snorra tekst vel að túlka hugarvíl og angur sturlaðs manns, sem gefst upp fyrir hagsmunum valdhafanna.

Guðrún Gísladóttir átti líka góða spretti, en fékk einhvern veginn aldrei að njóta sín verulega. Og það verður líka sagt um flesta aðra, sem allir skiluðu góðum leik, án þess þó, að það reyndi nokkurn tíma á það. Ef þið skiljið, hvað ég er að meina! Ljósið beindist allt að fórnalambinu, Dr. Stokkmann, lækni, og örlögum hans. Hinir stóðu allir í skugganum.

Að lokum: Þetta er glæsileg sýning, frumleg, djörf og einbeitt.

Ég gef henni hæstu einkunn.