Sannleiksvitni aldarinnar

1984 eftir George Orwell í þýðingu Eiríks Arnar Norðdahl í Borgarleikhúsinu.

Leikgerð: Robert Icke og Duncan Macmillan
Leikstjóri:Bergur Þór Ingólfsson
Leikmynd: Sigríður Sunna Reynisdóttir og Elísabet Alma Svendsen
Lýsing: Björn Bergsteinn Guðmundsson
Leikgervi: Margrét Benediktsdóttir
Tónlist og hljóð: Garðar Borgþórsson
Myndband: Ingi Beck

Það verður ekki annað sagt, en að reykvískur leikhúsvetur fari af stað með látum að þessu sinni og setji markið hátt. Það eru gerðar kröfur til áhorfenda sem aldrei fyrr, og engum er hlíft – vaknaðu maður!

Það er varla liðinn mánuður af leikárinu, en samt er þegar búið að taka á sumum stærstu vandamálum samtímans – umhverfismálum og framtíð jarðar (Tjarnarbíó), kynþáttahatri og trúarbragðaofstæki (Þjóðleikhúsinu) og nú síðast ógnarstjórninni, þar sem sjálfstæð hugsun er dauðasök og fáfræði okkar mesti styrkur (Borgarleikhúsinu).

Og það verður eflaust þjarmað að okkur enn frekar í „Gleðileiknum um Hrunið og partýin og þynnkuna“, sem verður frumsýnt eftir nokkrar vikur í sama leikhúsi. Þar erum við að auki komin á heimavöll, og þekkjum á eigin skinni, hvernig svik og prettir rústuðu lífi ungra og aldinna og skildu eftir sig sviðna jörð.

En meira um það seinna.

Orwell hefur verið nefndur „sannleiksvitni aldarinnar“. Sem blaðamaður lét hann sér ekki nægja að lýsa kjörum hinna snauðu og atvinnulausu í Bretlandi kreppuáranna. Hann gerðist einn af þeim – setti sjálfan sig í þeirra eigin spor. Hann var rammur andstæðingur fasismans, sem var að leggja undir sig Evrópu á millistríðsárunum: fasistar á Ítalíu, falangistar á Spáni og nasistar í þýska heiminum. Aftur lét hann sér ekki nægja bara að mótmæla. Hann gerðist sjálfboðaliði í Spænsku borgarastyrjöldinni, gekk í lið með lýðveldissinnum og skrifaði um þá reynslu sína fræga bók, „Homage to Catalonia“.

Og Orwell lét ekki blekkjast – eins og svo margir menntamenn á hans tíð – af áróðursmaskínu Stalíns: Hann afhjúpaði ógnarstjórnina og tók málstað fórnarlambanna, hver sem í hlut áttu. Hann gerðist aldrei handbendi harðstjóranna, eins og henti svo marga á hans tíð.

Þegar hann fletti ofan af glæpaverkum fasistanna, neitaði hægri pressan að birta verk hans. Þegar hann sagði sannleikann um sýndarréttarhöldin í Moskvu og um gúlag Stalíns, lýstu kommúnistar hann svikara, og m.a.s. BBC skrúfaði fyrir hann.

Orwell gekk aldrei á mála hjá neinum. Hann bar sannleikanum vitni, hver sem í hlut átti. Þess vegna hafa hin sígildu verk hans „Animal Farm“ og „1984“ haldið áfram að vaxa í vitund seinni kynslóða. Orwell var ekki bara að lýsa samtíma sínum. Hann sá fyrir hið óorðna og varaði okkur við. Stóri bróðir var ekki bara þar – hann er hér og nú – mitt á meðal okkar. Vegsummerkin blasa við í samtímanum.

Það getur vafist fyrir áhorfendum að skilja þetta magnaða leikhúsverk, hafi þeir ekki lesið meistaraverkið sjálft. En nú vill svo vel til, að „1984“ kom nýlega út á íslensku í frábærri þýðingu Þórdísar Bachmann. Lesið hana fyrir sýningu, þeim tíma er vel varið. Næstbest er að lesa hana eftir á – til að dýpka skilning sinn á eigin samtíð.

Ég hafði einhvern veginn ímyndað mér, að leikstjórinn, Bergur Þór Ingólfsson, mundi leggja sig fram um að tengja verk Orwells við það sem við upplifum í núinu – sýna fram á, að margt af því sem Orwell óttaðist, er í rauninni komið á daginn. Við vitum núna, að það er njósnað um okkur. Við upplifum það með eigin augum á netinu. Um leið og við sýnum áhuga á einhverjum hlut – fatnað, húsgagni eða bara fjarlægu landi – er óðar komið svar frá þeim, sem selja fatnað, húsgögn eða ferðalög. Maður á ekkert einkalíf lengur, getur ekkert falið. Og við horfum upp á það, hvernig fólk er látið gjalda skoðana sinna. Sett í bann – Berufsverbot. Bara fyrir það eitt að vera á móti valdhöfum – og tjá sig um það. Jafnvel hér í okkar eigin litla landi.

Og hvað með Assange, Manning eða Snowden? Einhverja áhrifamestu hakkara okkar tíma, gæja sem hafa afhjúpað óhugnanleg leyndarmál stórveldanna og komið upp um njósnir og heimatilbúin stríð þvert á lönd og skoðanir? Af nægu er að taka.

Stóri bróðir fylgist með þér – stríð er friður – frelsi er þrældómur – fáfræði er styrkur. Mottó alræðisríkisins (totalitarianism)! Þetta hljómar allt kunnuglega, jafnvel fyrir okkur Íslendingum. Dag hvern er verið að hagræða staðreyndum, breyta sögunni, deyfa samkenndina – hver er sjálfum sér næstur, segja þeir. Fáfræði er styrkur! Hugsið ykkur. Lygi er sannleikur. Helsi er frelsi. Meira að segja tungumálið er misnotað í þágu valdstjórnarinnar. Kannist þið ekki við þetta í okkar eigin samtíð?

1984 Orwells hittir beint í mark, jafnvel þótt það sé sjötíu árum seinna. En skilaboð hans hefðu – að mínu mati – vakið meiri umræðu og meiri áhuga, ef þau hefðu fengið skýrari og miskunnarlausari tengingu við upplifun okkar í núinu. Því er við að bæta, að þýðing Eiríks Arnar Norðdahl á leikverkinu er ísmeygilega sérviskuleg, eins og honum er einum lagið.

Það sem mér er efst í huga að lokinni frumsýningu er í fyrsta lagi kaldhömruð sviðsmyndin, litlausir steinveggir allt um kring, mjóar hurðir, sem opnast og lokast, hljóðalaust, brattir stigar, sem enda hvergi, og ýmist leiftrandi eða daufleg birta, sem hefur þann pólitíska tilgang að gefa eitthvað í skyn, magna upp ótta við lífið og hið ókomna. Skerandi rödd konunnar á skerminum, sem hefur augun alls staðar og fylgist með hverjum og einum, veldur manni andvöku og kvíða. Engin fegurð, engin mýkt. Jú, að vísu – rúmið góða, ástarhreiðrið. Enda var það antique, eins konar minjagripur – til minningar um eitthvað sem einu sinni var – en enginn man lengur – eða má ekki muna.

Þökk sé öllum þeim listamönnum, sem að komu og eru þegar upptaldir.

Hitt sem stendur upp úr, er leikurinn sjálfur og þar er þáttur leikstjórans hvað mikilvægastur. Frábær hópvinna, hvergi veikur hlekkur, allir sannir í túlkun sinni, samkvæmir sjálfum sér og tæknilega ásættanlegir. Það reynir auðvitað mest á þau þrjú, sem eru í aðalhlutverkunum, Þorvald Davíð Kristjánsson, Þuríði Blæ Jóhannsdóttur og Val Frey Einarsson. Þau klikka heldur hvergi, og hápunkti nær leikur þeirra í lokasenunni, þegar Winston (Þorvaldur Davíð) situr í pyntingastólnum og tapar fyrir sjálfum sér, vísar pyntingameistaranum á Júlíu (Þuríði Blæ) í örvæntingu sinni og hræðslu við rotturnar, sem bíða átekta í búri sínu. Ósigurinn er alger, niðurlægingin fullkomnuð. Enda fær hann skot í hnakkann til staðfestingar á því, að hann hefur að lokum gengið flokknum á vald – alræðisklíkunni. Þetta er ógleymanlegt atriði og nístir inn í merg og bein. Engum var hlíft, hvorki leikendum né áhorfendum.

En nú er bara spurningin, hvort sýningin heldur, hvort hún nái að vekja umræður og áhuga, fái aðsókn – eða hvort fólk segi bara: „Já, já, svona var þetta í gamla daga eða svona var þetta í Sovétríkjunum“ og nenni ekki að taka þátt í umræðunni – sem er þó svo brýn. Við erum ekki hér að tala um sagnfræði , heldur samtímann. Hvernig væri að bjóða áhorfendum upp á umræður að lokinnni sýningu?