Ef þú vilt fá brennheitustu íkveikjuefni samfélagsins beint í æð, farðu þá í Kúluna, (í kjallaranum við Sölvhólsgötu). Það er þarna allt saman og vel útilátið. Árekstrar menningarheima (Huntington: Clash of Civilisations). Flóttamannavandamálið. Innflytjendavandamálið. Gyðingavandamálið. Múhameðstrúarvandamálið. Kynþáttavandamálið. Aðlögunarvandamáið. Allt saman serverað við kvöldverðarborðið á venjulegu millistéttarheimili í New York. Eiginlega er þetta uppvakningur af Ibsen gamla. Þjóðfélagið inni á gafli við stofuborðið.
Amir er Pakistani frá Punjab, sem hefur villt á sér heimildir. Segist vera Indverji og hefur skipt um nafn í Ameríku. Gott ef hann heitir ekki Jensen! Svo hefur hann líka gengið af trúnni. Allt í nafni aðlögunar. Hann hefur Kóraninn að háði og spotti. „Þetta er handbók handa hirðingjum í eyðimörk Arabíuskagans, ætluð til að auðvelda lífsbaráttuna í eyðimörkinni“, segir hann. Hvaða erindi á þetta við okkur nú til dags? Þetta var ofbeldisfullt samfélag. Konan var undirdánug eign karlmannsins. Ef hún hlýddi ekki duttlungum hans og skipunum, þótti sjálfsagt að berja hana eins og blautan fisk – rétt eins og hvert annað húsdýr.
Amir „Jensen“ hefur sagt skilið við allan þennan fordæðuskap. Hann er nútímamaður. Hann gerir sér grein fyrir því, að böl Arabaheimsins (Islams) er, að trú og ríki (pólitíkin) eru eitt. Einræðisherrarnir ríkja í nafni Alla (Guðs). Rísir þú gegn þeim, ertu um leið orðinn trúvillingur.(Andlegt) frelsi og lýðræði þrífst ekki í þessari eyðimörk.
Amír er orðinn framagjarn lögfræðiuppi á lögfræðingakontór í skýjakljúfaborginni. Það er allt á uppleið. Konan hans, hún Emilía, er listaspíra, sem er við það að slá í gegn, ef New York gyðingarnir – sem eiga galleríið – taka hana upp á sína arma. Það er broddur í þessu. Allir vita, að gyðingarnir eiga Wall Street og Hollywood. Emilía notar Amír sinn sem fyrirsætu í eftirlíkingu af mynd Velasques af þrælnum (1650). Það boðar ekki gott. Það leynist ýmislegt undir yfirborðinu.
Svo gerist það, að íman Múslimasamfélagsins er kærður, grunaður um hryðjuverk. Trúbræðurnir leita á náðir hins trúlausa lögfræðings. Fyrir þrábeiðni frænda og Emilíu – sem hefur rómantískar hugmyndir um menningarsamfélag Mára í Andalúsíu forðum daga – lætur Amír tilleiðast, sér þvert um geð.
Það reynist vera upphafið að endalokunum. Lögfræðistofan bendluð við málsvörn hryðjuverkamanns. Ekki gott. Það er farið að rannsaka fortíð Amírs. Grunsemdirnar vakna. Fordómarnir magnast. Að lokum fer allt í bál og brand. Sýrlandsstríðið brýst út við kvöldverðarboðið.
Þar eru þau öll samankomin: Trúvillingur Múhameðs, Amír. Hinn vellauðugi New York gyðingur, Ísak. Hin þeldökka Jory, samstarfskona á lögfræðistofunni, en afkomandi þrælanna á bómullarekrum Suðurríkjanna. Og Emilía, vestræna hóran (samkvæmt kokkabókum múslima) – sem hafði reyndar boðið Ísak blíðu sína fyrir greiðvikni hans að opna henni framabraut í myndlistinni.
Þarna birtist okkur heimurinn í hnotskurn. Draugar fortíðarinnar vakna til lífsins. Undir sléttu og felldu yfirborðinu kraumar hatrið, sem nærist á gagnkvæmum ásökunum um misgjörðir í aldanna rás. Það kemur á daginn, að „frjálslyndi“ Amirs ristir grunnt. Niðurlæging Islams af völdum vestrænnar nýlendustefnu brennur honum í blóði. Hann er meira að segja stoltur af „nineleven“ – það var þó alla vega tilraun til að fá uppreisn æru, segir hann.
Allt í einu birtist Amír gyðingnum sem ógnvekjand hryðjuverkamaður.
Málsvörn Amírs fyrir ímaninn þýðir, að honum eru öll sund lokuð á framabrautinni. Honum verður úthýst. Meira að segja hin svarta Jory er tekin fram yfir hann, án verðleika. Það fer allt í bál og brand. Sjálfur Amír umhverfist í sefasjúkan ofbeldissegg, sem að lokum gengur í skrokk á hinni hvítu hóru. Boðskapur Spámannsins reynist ná út fyrir gröf og dauða. Sandfokið úr eyðimörkinni blindar sýn. Það sem átti bara að vera notalegt kvöldverðarboð til að fagna frama Emilíu á listabrautinni, snýst að lokum upp í total stríð við stofuborðið um það, hver svaf hjá hverjum, hver var að ljúga, svíkja og pretta – og endar á gólfinu, þar sem Amír fær útrás fyrir niðurbælt hatur sitt og gerir árangurslausar tilraunir til að brjóta hvert bein í hinni lauslátu eiginkonu sinni.
Í upphafi matarboðsins var boðið upp á viskí í fordrykk. Það boðaði ekki gott. Viskídrykkja endar alltaf illa – það dregur fram allt það versta í manninum. Sú eina, sem hafði vit á því að hafna viskíinu var Emilía – hún drakk bara portvín – eða var það sjerrí? Og hún hélt líka ró sinni þokkalega, meðan spennan jókst orð af orði.
Í þessu borðhaldi nær sýningin hámarki. Fjórar manneskjur sitja saman við borð, tvær þeirra snúa baki við áhorfendum. En það vefst ekkert fyrir Þorsteini Bachmann, sem leikstýrir verkinu. Hann fléttar samtalið á snilldarlegan hátt, þannig að hreyfingarnar fá mál og svipbrigðin speglast í augum viðmælenda, þó svo að við sjáum bara baksvipinn. Við erum ekki lengur áhorfendur, heldur þátttakendur í þessu borðhaldi – sem lýkur, áður en eftirrétturinn er borinn fram. En þetta er svo vel gert, svo raunverulegt og kraftmikið, að unun er á að horfa – og heyra.
Öll spjót beinast að Emilíu (Salóme Gunnarsdóttir). Ísak (Magnús Jónsson) elskar hana, Jory (Tinna Björt Guðjónsdóttir) hatar hana og Amir (Jónmundur Grétarsson) bæði hatar hana og elskar.
Allir þessir fjórir leikarar – að viðbættum Hafsteini Vilhelmssyni, sem var ótrúlega krúttlegur í hlutverki frænda – eru sem fædd í hlutverk sín: Salóme undurfögur , með talandi handahreyfingar og daðrandi augnaráð, Jónmundur, sannfærandi, einlægur og framandi, Tinna Björt, kankvís, frökk og skýrmælt og loks hann Magnús, hinn fjölhæfi listamaður, söngvari (GusGus), málari og leikari, sem hefur ekki sést á sviði árum saman.
Við þetta má svo bæta – og hefði átt að gerast fyrr – að þýðing þeirra hjónaleysa, Auðar og Þórarins, er bæði safarík og leikandi létt. Hin skáldlega æð leynir sér ekki í hrynjandi málsins. Leikmynd og búningar féllu vel að hugmyndum okkar um amrískt þjóðfélag, „upper class“. Smart – en stundum absurde! Og ekki má gleyma því, að tónlist Borgars skapar verkinu svo sannarlega hina réttu umgjörð. Djúpur bassinn tekur undir hina miklu alvöru í þessu verki , sem var tímaótaverk í bandarískri leikritun. Að lokum er þetta allt svo orðið að fréttaauka í Speglinum, þar sem Arnheiður Hálfdanardóttir tíundar samviskusamlega það sem farið hefur úrskeiðis seinustu aldirnar.
Mitt er að yrkja, ykkar að skilja, sagði skáldið. Leikhúsinu ber engin skylda til að bjóða upp á lausnir, enda er engin lausn, nema þessi gamla góða: Lýður bíð ei lausnarans, leys þig sjálfur.