Við þurfum að hugsa allt upp á nýtt

Þetta viðtal tók Kolbrún Bergþórsdóttir árið 2017. Það birtist í DV.

Þegar Bryndís samþykkti að koma í viðtal tók hún fram að hún nennti ekki að endurtaka sig og tala um hluti sem hún hefði margoft rætt um: „Mér finnst ég alltaf vera spurð sömu spurninganna“.

Viðtalið hefst því á spurningu um lífið í dag og hvers vegna þau hjón kjósi að búa hluta árs í litlu þorpi á Spáni.

„Þetta var gamall draumur,“ segir Bryndís. Ég hafði mikinn áhuga á latínu í menntaskóla og stóð mig vel í frönsku líka, sem er latneskt mál. Seinna tók ég háskólapróf í báðum þessum tungumálum. Ítölsku lærði ég af því að vinna í fimm sumur sem leiðsögumaður fyrir Ingólf í Útsýn á Ítalíu.

Svo kom að því, mörgum árum seinna, að maðurinn minn varð sendiherra í Bandaríkjunum, þar sem við áttum fimm góð ár. Vegna starfa hans kynntumst við Suður-Ameríku. Það var í fyrsta sinn, sem ég var í löndum, þar sem ég gat ekki tjáð mig á máli heimamanna. Fannst það óþægilegt. Svo að ég ákvað að gera eitthvað í málinu. Fann mér argentínskan kennara, unga kvikmyndagerðarkonu, Andreu, sem kenndi mér málfræði í stofunni sinni, og þegar ég útskrifaðist frá henni, gat ég sótt tíma í George Washington háskólanum.


Bryndís Schram

Þegar við fluttum svo til Helsinki hélt ég náminu áfram í háskólanum þar. Sat með táningsstelpum í tímum og reyndi hvað ég gat að verða unglingur á ný. Gaman.

Eftir átta ár í útlöndum urðum við Jón Baldvin frjáls á ný – og þá var komið að því að láta draum minn rætast og kynnast Spáni – ég hafði eiginlega aldrei komið þangað áður – ekki til langdvalar.

Svo átti ég líka annað erindi til Spánar. Það var ekki bara tungumálið. Mig langaði alltaf til að læra flamenco. Þorði ekki, þegar ég var ung, of bundin átthögunum. En nú var loksins tækifæri. Ég var að byrja nýtt líf.

Við lögðum það á okkur að aka alla strandlengju Spánar, allt frá landamærum Frakklands suður til Cadiz. Vissum ekki alveg, hverju við vorum að leita að, en fyrst og fremst kyrrð og næði, stað til að einbeita sér á, stað þar sem við gætum blandað geði við heimamenn, kynnst þjóðarsálinni. Lært bæði spænsku og flamenco. Og þar kom, að við fundum slíkan stað, sem heitir því skrítna nafni Salobrena – hinn salti klettur. Og það vill svo til, að efst á þessum kletti er kastali, sem er kenndur við Hannibal Púnverjakappa. Og af því að Jón Baldvin er sonur Hannibals og því óskilgetinn afkomandi Púnverjakappans, trúði hann því, að hann væri bara kominn heim – og beit á agnið.

Salobrena er í Andalusíu – Litlu Afríku, eins og sumir segja, því að þarna ríktu Márar í sjö hundruð ár og lögðu grunninn að því lífi, sem enn þrífst í þessu vogskorna landi, sem minnir um margt á Vestfirði, ógnvekjandi í hrikalegri fegurð sinni.

Salobrena er Máraþorp, sem þýðir, að öll húsin eru hvít og göturnar þröngar. Bílar geta ekki mæst, en börn og hundar og kettir – jafnvel geitur – þvælast fyrir manni á heimleið upp klettinn. Í lok árs og í byrjun janúar er kalt og rakt, enginn hiti á ofnum, aðeins glóð frá kolamolum í vaskafati til að ylja sér við. Þá er gott að snúa heim og njóta hitaveitunnar okkar. Hitaveitan – það er okkar íslenska guðsgjöf.

Bryndís talar spænskuna, en viðurkennir, að Jón Baldvin gerir það ekki: „Honum finnst líklega, að það taki því ekki að læra málið, hann er alltaf á heimleið, þannig að ég hef jafnan orð fyrir okkur, og það er alveg nýtt fyrir mér – og honum líka!“.

Hver er munurinn á því að vera í þorpi á Spáni og í Mosfellsbænum?

„Munurinn er sá, að hér bý ég í afskekktum dal, Reykjadal, svo að ég á ekki marga nágranna – en góða granna. Í Máraþorpinu búa allir mjög þétt, og allir vita allt um alla. Oní hvers manns koppi. Þeir vita, þegar við förum og þeir fylgjast með, þegar við komum aftur. Okkur er fagnað með kossum og faðmlögum. Jafnvel á þorpskránni lyfta menn glasi og segja „bien venidos“, og ég fæ koss. Það er mjög notalegt, eins og þú getur ímyndað þér! Mér hlýnar um hjartarætur, því að mér þykir vænt um fólk og vil hafa góð samskipti við alla. Ég vildi óska þess, að landar mínir væru ögn opnari og hreinskiptnari“.

Ertu mjög félagslynd?

„Nei, líklega er ég ekki mjög félagslynd. Þegar ég lít til baka, þá sé ég, að ég hef aldrei tilheyrt neinum hópi og ekki unað mér í hópi – fyrir utan í Alþýðuflokknum, auðvitað! Ég er þakklát, þegar fólk leitar til mín, en ég hef aldrei leitað til annarra. Veit ekki af hverju. Kannski sjálfri mér næg.

En ég viðurkenni, að ég hef mjög gaman af því að gleðja aðra. Eitt sumar endur fyrir löngu var ég flugfreyja, og ég man, hvað ég hafði gaman af því að þjóna fólki, gera því til geðs. Það kom mér á óvart.

Og þannig er ég enn. Mín besta skemmtun er að bjóða góðum vinum heim, eða fólki, sem ég dáist að úr fjarska, leggja fallega á borð og bera fram margréttaða máltíð, sem ég hef sjálf – eða þá maðurinn minn, sem verður æ betri í eldhúsinu – eytt deginum í að undirbúa. Svo að, já, kannski er ég félagslynd – í aðra röndina.“

Hefurðu ekki mikið sjálfstraust?

„Ég hlýt að hafa einhvern snefil af sjálfstrausti, því að annars hefði ég aldrei getað orðið dansari né leikari né kennari, né blaðamaður, né sjónvarpskona – né skrifað stafkrók. Samt skal ég viðurkenna, að þegar maðurinn minn var orðinn áberandi í pólitíkinni og stöðugur fólksstraumur allt í kringum hann, þá var ég ekki nógu stór í sniðum til að afbera það og gleðjast með honum. Ég var heldur ekki orðin nógu pólitísk til þess að geta tekið þátt í stöðugum umræðum. Þá skorti mig sjálfstraust“

Þið hjónin eruð stóran hluta ársins hér á landi. Hvað finnst þér best á Íslandi?

„Best finnst mér að koma í húsið okkar í Reykjadal. Við vorum svo gæfusöm að fá að endurbyggja gamla sumarbústaðinn hans pabba og mömmu. Það er algjört ævintýri að búa í húsi sem tekur utan um mann eins og gamall vinur. Maður á ekkert erindi út, það er allt inni í þessu húsi. Veröldin afmarkast af trjágróðri, sem umkringir húsið nú sem aldrei fyrr – er í rauninni að vaxa yfir húsið. Það minnir mig á, að hér var ekki stingandi strá, aðeins örfoka melur, þegar ég var stelpa að koma hingað í fyrsta sinn.“

Heimili Bryndísar og Jóns Baldvins í Mosfellsbæ er einstaklega hlýlegt og fallegt. Þau fluttu þangað, þegar þau sneru heim frá útlöndum árið 2005, en húsið á Vesturgötunni seldu þau átta árum áður, eða þegar þau hurfu úr landi. Þau höfðu þá átt það hús í 35 ár.

Bryndís er spurð hvort hún sakni Vesturgötunnar og segir: „Ég gerði það á tímabili, en Jón Baldvin sagði: „Maður skyldi aldrei snúa aftur á sama stað.“ Það var líklega alveg rétt hjá honum, Vesturgötuævintýrinu var lokið. Svo er miðbærinn svo breyttur að ég þekki mig ekki þar lengur. Í gamla daga gat ég gengið á inniskónum niður í bæ, sinnt mínum erindum og þekkti nánast hvern mann. En það er liðin tíð.Ferðamennirnir hafa tekið borgina algjörlega yfir. Þetta er ekki mín gamla Reykjavík, svo ég hef einskis að sakna“.

Bryndís og Jón Baldvin hafa verið gift í næstum því sextíu ár. Hún er spurð hvort sambandið hafi tekið breytingum á þessum tíma. Bryndís svarar: „Það var einu sinni lífsreynd og gáfuð kona, sem spurði mig í partíi um miðja nótt, þegar ég hafði nýlega kynnst mannsefninu mínu: „Heldurðu að þú sért ástfangin, Bryndís?“ „Já,“ sagði ég, „það fer um mig sæluhrollur í hvert sinn, sem hann snertir mig.“ Þá sagði hún: „Þá er það ekta.“

„Ég held ég geti alveg svarað þessu á sama hátt í dag, það er þessi svokallaði sæluhrollur sem er í rauninni grunnurinn að góðri sambúð. Ef hann dofnar, þá er sambandið einskis virði, búið. Fyrir guðs náð erum við Jón Baldvin gædd þeim hæfileika að geta viðhaldið neistanum. Við tölum saman endalaust, og finnst gaman. Ástin er eins og blóm, sem þarf stöðugt að hlúa að. Á svona löngum tíma grær fólk saman .“

Hvernig er lífið þegar komið er á eftirlaunaaldur?

„Þegar Spánverjar fara á eftirlaun, heitir það að jubilera (jubilarse). Við jubileruðum líka, þegar okkur var sleppt lausum úr MR i den. Við fögnuðum frelsinu. Og við fögnum enn frelsinu. Við erum loksins frjáls. Engar skyldur, engar kvaðir umfram þær, sem við viljum sjálf á okkur leggja. Getum gert það sem okkur þóknast, látið gamla drauma rætast, byrjað lífið upp á nýtt. Og það var það, sem við gerðum. Byrjuðum upp á nýtt, námum meira að segja nýtt land með það fyrir augum að læra meira, jafnvel nýtt tungumál.
Þessi síðustu ár hafa verið enn eitt ævintýrið“.

Jón Baldvin lifði og hrærðist í pólitíkinni sem getur verið ansi grimm, eins og þú hefur líka kynnst. Tók það á þig?

„Það var ekki fyrr en við fluttumst til Ameríku um árið, að ég fann til þess að vera allt í einu frjáls kona. Þá áttaði ég mig á því, hvað ég hafði búið við miklar hömlur hér heima árum saman – undir stöðugri smásjá gagnrýnenda, þar sem illgirnin leiddi öfundina. Sama hvað ég gerði. Ég mátti varla hreyfa mig, án þess að það væri komið í blöð eða eitthvert skítkast færi í gang.Í Ameríku var mér hins vegar tekið eins og venjulegri manneskju, og allir voru mér góðir og jákvæðir. Ég fékk að njóta mín allt í einu“.

Bryndís átti afmæli fyrr í þessum mánuði. Hún lætur aldurinn sannarlega ekki stjórna sér. „Enn sem komið er finnst mér ekkert erfitt að eldast. Mér finnst mjög gaman að lifa, því að árin segja í raun ekkert til um aldur. Ég er líka svo gæfusöm að njóta góðrar heilsu,“ segir hún.

Lífið hefur samt ekki verið án áfalla. Þungbærast var andlát Snæfríðar, dóttur Bryndísar og Jóns Baldvins, sem lést skyndilega í upphafi árs 2013.

„Já, trúlega er fátt jafn sársaukafullt í lífinu og að missa barnið sitt í blóma lífs. En þetta hefur verið hlutskipti formæðra okkar öldum saman. Ég get ekki gleymt orðum, sem lífsreynd kona hafði eftir ömmu sinni af þessu tilefni. Hún sagði: Ég vildi ekki tengjast börnum mínum of nánum tilfinningaböndum af ótta við að geta misst þau. Hvílík örlög. Það stoðar lítt að harma hlutskipti sitt.

Snæfríður lifir í huga og hjörtum okkar, sem elskuðum hana. Ég er meira að segja hætt að rífast við Guð, af því einfaldlega, að ég veit, að hann kom hvergi við þessa sögu. Guð skapaði ekki heiminn og mennina með. Mennirnir sköpuðu Guð til þess að reyna að skýra það, sem þeir skildu ekki og til þess að reyna að sætta sig við það. En mér finnst það ósamboðið manninum að lifa í sjálfsblekkingu“.

Bryndís hefur gert margt um ævina. Hún var meðal annars dansari, leikkona, kennari, skólameistari og sjónvarpskona. En hefði hún viljað gera eitthvað öðruvísi í lífinu?

„Nei. Þetta hefur verið ævintýralegt ferðalag. Ég var komin á samning hjá Þjóðleikhúsinu, þegar Jón Baldvin var alveg óvænt ráðinn skólameistari á Ísafirði. Ég var ekkert of ánægð með það – en var ekki spurð. Ég varð að fylgja honum – enda orðin fjögurra barna móðir. Forlögin tóku fram fyrir hendur okkar.

Þegar ég lít til baka, þá voru þessi ár fyrir vestan eins og háskólaárin hjá Gorki. Ég kynntist þjóð minni á nýjan hátt, úti á landsbyggðinni. Kennsla er göfugt starf og gefandi. Leiklistin blómstraði og oftar en einu sinni gafst mér sjálfri tækifæri til að standa á sviðinu.

En skólameistarastarfið toppaði þetta allt undir lokin. Það var þegar maðurinn minn fór til Ameríku, í boði Harvard háskóla. Þá skorti mig alla vega ekki sjálfstraust! Besta árið mitt fyrir vestan.

Svo komum við suður aftur, og næstu árin vann ég í sjónvarpi, fyrst hjá RÚV og síðan Stöð 2, sem hóf starfsemi árið 1986. Hefði ég ekki verið gift pólítíkusi á vinstri kantinum, væri ég þar kannski enn! En mér var ekki vært – út af pólitíkinni.

Árið 1984 varð Jón Baldvin formaður Alþýðuflokksins, og þá urðu kaflaskipti í lífi okkar. Næstu tólf árin var eins og við stæðum á vígvelli dag hvern. Jón Baldvin var í essinu sínu allan þann tíma, stríðsmaður, fullur af sjálfstrausti og réttlætiskennd – alltaf svo viss um, að hann hefði rétt fyrir sér. Sem hann hafði auðvitað, eins og síðar kom á daginn. Hvar værum við stödd án EES? Líklega var það orrustan um þann samning, sem varð til þess, að hans pólitíska ferli lauk svo skyndilega.

Þar að auki hentaði hinn umdeildi stríðsmaður ekki sem sameiningartákn, þegar til stóð að sameina Alþýðuflokkinn, Alþýðubandalagið og Kvennalista. Hann lét sig því einfaldlega hverfa. Og aðrir tóku við. Nú vitum við, hvernig það fór.“

Hefurðu einhvern tímann hugsað um það hvernig líf þitt hefði orðið ef þú hefðir ekki hitt Jón Baldvin?

Segjum, að ég hefði farið til Spánar á unglingsárunum til að læra flamenco, eins og hugur minn stóð til – þá hefði ég eflaust aldrei komi ð til baka. Ég væri hugsanlega enn að reyna að vinna fyrir mér á fátæklegum bar í Granada, fótfúin og lífsþreytt – ekki annað í boði.

Eða segjum, að ég hefði ílenst í Kaliforníu þarna um árið, fengið að leika í auglýsingum í nokkur ár, en aldrei í alvöru bíómyndum – ég var of hávaxin, sögðu þeir – og ynni nú fyrir mér með ræstingum á Hótel Hilton, gömul og afundin. Ekki annað í boði.

Eða, ef ég hefði þegið boð formanns menningarmálaráðs Sovétríkjanna um að setjast að í Leningrad við Kirov ballettinn að loknu stúdentsprófi. Þá væri ég örugglega ekki ofar moldu lengur, því að í fyrsta lagi var ég tíu sentimetrum of löng og í öðru lagi upp á kant við arftaka Stalíns, sem ég hefði orðið að taka út refsingu fyrir“.

Ertu alltaf jafn pólitísk?

„Já, og því meir sem ég eldist. Maðurinn minn hugsar ekki um annað – það er að segja, þegar hann er ekki að hugsa um mig!“

Árið 2016 hefði Alþýðuflokkuirnn orðið hundrað ára. Af því tilefni var Guðjón Friðriksson, sagnfræðingur – sem var reyndar í nokkur ár kennari við skólann okkar fyrir vestan og lék á móti mér hvað eftir annað á skólaskemmtunum – fenginn til að skrifa sögu flokksins. Hún kom út fyrir ári og er hin mesta gersemi. „Úr fjötrum“ heitir hún“. Það er réttnefni.

Þetta er saga um uppreisn fátæks fólks gegn réttleysi og kúgun. Sú saga greinir frá glæstum sigrum og beiskum ósigrum. Aðdáunarverðast er, hversu miklu þessi flokkur jafnaðarmanna – sem aldrei náði því að verða ráðandi fjöldaflokkur eins og annars staðar á Norðurlöndum – kom í verk. Hann hefur skilið eftir sig stærri spor í okkar samtíð en nokkur önnur stjórnmálahreyfing. Þessi tilraun til að byggja upp norrænt velferðarríki á Íslandi er fyrst og fremst hans verk og verkalýðshreyfingarinnar.

Nú virðist verkalýðshreyfingin vera í lamasessi sem umbótaafl, og Alþýðuflokkurinn skilur eftir sig tómarúm. Margar þjóðir hafa þurft að byggja þjóðfélag sitt upp á nýtt, eftir að hafa tapað stríði. Hrunið var okkar þjóðarósigur. Okkur hefur ekki tekist að læra af þeirri reynslu. Þess vegna búa nú tvær þjóðir í landinu, þrátt fyrir hagsæld í góðæri. Við erum orðin að ójafnaðarþjóðfélagi, sem fær ekki staðist til frambúðar. Pólitík dagsins snýst um óbreytt ástand. Það gengur ekki. Það þarf róttækar breytingar. Við þurfum að byrja upp á nýtt. Ástandið núna er eins lognið á undan storminum.

Við Jón Baldvin vorum að þýða saman bók í sumar, „Ný framtíðarsýn handa raunsæjum konum og körlum“, eftir hollenskan sagnfræðing, Rutger Bregman. „Þetta er, eins og titillinn gefur til kynna, framtíðarsýn inn í næstu áratugi fyrir fólk, sem hefur lært af sögunni. Bókin er hugsuð sem handbók fyrir þjóðfélagsumræðu næstu áratuga. Hún ætti að vera á námsskrá framhaldsskóla og kvöldskóla, og líka háskóla“ segir Bryndís. „Í skólum er nemendum ekkert kennt um vexti og verðtryggingu, né heldur, hvernig eigi að forðast að verða skuldaþræll fyrir lífstíð. Þeir vita ekkert um þjóðfélagið.

Ég hef aldrei lesið hagfræði, en þetta er bók, sem jafnvel ég skil, því hún er skrifuð á mannamáli. Höfundurinn fullyrðir, að líf okkar eigi eftir að taka algerum stakkaskiptum á næstu áratugum, því að róbótinn – vélmennið – mun taka við hlutverki mannsins á vinnumarkaðnum. Hvernig verður þjóðfélagið, þegar meiri hluti fólks fær enga vinnu? Það breytir öllu. Við þurfum að hugsa allt upp á nýtt. Það verða mín lokaorð“.