„Á amma alltaf að borga?“ spurði JB að lokinni þriggja rétta sjávarréttaveislu uppi á þaki á Pesetas, sem er veitingastaðurinnn fyrir ofan þorpskrána hér í Salobrena, uppi á kletti Hannibals. Þetta var á Siestunni seinasta sunnudag í júlí. Og svei mér þá, hvort þetta var ekki orðið fullmikið af því góða – 37 gráður plús. Við nenntum varla að hreyfa okkur. En fremur en að koðna alveg niður, mönnuðum við okkur upp í að taka þessi fáu skref, sem liggja til Pesetas. Þetta er elsti veitingastaðurinn a klettinum. Stofnaður 1966 á viðreisnarárunum – áratug áður en Franco skepnan hrökk upp af.
Við Antonio, staðarhaldarinn, urðum vinir við fyrstu kynni. Í hvert skipti sem ég kom þangað, faðmaði hann mig og kyssti, en lét nægja að nikka aðeins til JB. Ég heyrði seinna, að hann hefði víst verið hallur undir Franco. En ég fyrirgaf honum það, enda hafði hann greinilega tekið sig á.
En nú skal ég reyna að halda mig við efnið.
Pesetas er sem sé veitingastaðurinn uppi a þakinu fyrir ofan þorpskrána hér í Salobrena. Við höfum verið hér fastagestir í þó nokkuð mörg ár. Við erum m.a.s. farin að kannast við marga af hinum gestunum. Jafnvel spyrja almæltra tíðinda, eins og t.d. hvernig krökkunum hafi vegnað í skólanum eða hvort þau væru sæmilega ásátt við nýja tengdasoninn? Þetta er nefnilega hinn eini og sanni samkomustaður spænsku stórfjöskyldunnar á siestunni á sunnudögum. Og allt sem er á borðum, fast og fljótandi, er erkispænskt. Hrúgaðir diskar af skelfiski: rækjur, humar, ostrur, hörpuskel, kræklingur, krabbi og kúfiskur. JB er að vísu vanur að segja, að sumt af þessu hefði bara verið notað í beitu í Djúpinu. En allt rennur þetta ljúflega niður með Marques de Riscal. En þegar kemur að nautasteikinni – el toreador, muniði – þá dugar ekkert minna en rauðvín.
Það sem ég vildi sagt hafa er, að þarna kemur spænska stórfjölskyldan saman á sunnudögum og er ekkert að flýta sér. Í gær var allt upppantað fyrir löngu. En af því að að ég og hún Junía, tengdadóttir hans Antonios, erum perluvinkonur, fengum við samt borðið okkar – tveggja manna borð á ystu nöf á klettinum, með útsýni yfir allt.
Framan af gátum við varla skiptst á orðum, því að skvaldrið var ærandi allt um kring. Og sem við litum yfir söfnuðinn, var það ekki að undra. Hið næsta við okkur sátu 18 manns til borðs, þrjár kynslóðir. Á þar næsta borði 12. Og þannig var það út um allt; afi og amma, dætur og synir, tengdasynir og dætur og barna- og barna börn. Og allir höfðu frá óendanlega miklu að segja. Það heyrðist ekki mannsins mál, fyrr en þú varst búinn að laga þig að aðstæðum, það er að segja, ef þú kannt eitthvað fyrir þér í spænsku og þar með þessari sérstöku andalúsísku mállýsku, sem hljómar stundum nærri því eins og arabíska. Eftir sjö alda mixtúru með Márum í sjávarplássum og fjallabyggðum Andalúsíu.
Hugsið ykkur, ef boðið væri til svona þjóðlegrar veislu í Mosó, þótt ekki væri nema aðra hvora helgi? Hákarl og brennivín, sviðakjammar og hrútspungar, selspik og súrmeti og annað namminamm. Hugsið ykkur bara.
En svo að ég haldi mér enn við efnið. Þegar veisluhaldinu loksins lýkur á þakinu, gerist eitthvað, sem við áttum eiginlega ekki von á. Hvað þá? Allir standa upp frá borðum, fullorðnir jafnt sem táningar og barnungir og steðja í biðröð til að kyssa ömmu, því að nú er hún búin að taka upp kortið sitt úr tuðrunni og borga fyrir öll herlegheitin. Afi er venjulega í hjólastól og löglega afsakaður.
Það eru miklir kossar og þétt faðmlög. Mikið lifandis ósköp er gott að eiga svona ömmu.
En hvaðan koma Hallgerði bitlingar?