Hnattvæðing

HNATTVÆÐING – Hvað er nú það? Er það ekki, þegar hrægammar á Wall Street hirða allan arðinn af olíunni í Angóla og stinga honum svo undan skatti á Bermuda eða Bahamas? Eða á Kýpur  – til að gera þetta svolítið kunnuglegra fyrir landann! En hnattvæðingin hefur fleiri brtingarmyndir, þegar hún er komin í bland við Covid-19. Ég held, að enginn trúi því, sem hér fer á eftir, en samt er þetta bara eitthvað, sem gerðist í hversdagslífinu í gær.

Við JB fórum út á borða á La Roka (ekki rugla þessu saman við Rokið á Skólavöruholtinu, sællar minningar). Þegar að því  kom að velja rétti á matseðlinum, benti þjónninn á kóða á borðshorninu og sagði: þið framkallið matseðilinn í“appinu“ ykkar.  „Appið“ hvað? Við erum bara með hundgamlan Nokia frá Finnlandsárunum og ekkert andskotans „app“. Við báðum um prentaðan matseðil, en hann var ekki til.Staðarhaldarinn aumkvaðist yfir okkur og gaukaði að okkur „appinu“ sínu. En bara örskotsstund, því að það var brjálað að gera. Hvað var til ráða?

Kolfinna á „app“. Hringjum í hana – úr gamla Nokia. Hún svaraði eins og skot .Hún var að vísu stödd uppi á Vatnajökli með hóp af  spænskum túristum.  „Hvað er vandamálið“, spurði hún. „Hnattvæðingin“ sagði JB. En ég með minn jarðbundna hugsunarhátt útskýrði, að við fengjum ekkert að borða á La Roka í Andalúsíu nema gegnum „app“. „Ekkert mál“, svaraði hún. Hún þekkti veitingastaðinn frá fyrri tíð, og eins og hendi væri veifað var hún komin með matseðilinn á „appið“ sitt uppi á Vatnajökli.

Svo spurði hún, skellihlæjandi, „Hvað viljið þið  af öllu þessu hnossgæti? Niðurstaðan var „Salat Soldánsins“ (með arabískri munúð) handa mér og indverskur þríhyrningur út úr Tandoori ofninum handa JB. Ekkert mál. Þessum skilaboðum frá Vatnajökli var komið til kokksins, sem reyndist vera Pakistani frá Punjab.

Ef þetta er ekki alþjóðavæðing, þá veit ég ekki, hvað það er.

En það er þetta með „appið“? Fær mannkynið í framtíðinni ekkert að borða nema í gegnum „appið“? Er ekki til íslenskt orð yfir þetta „appa-rat“?