Bryndís Schram
Hún lauk brottfararprófi frá Leiklistarskóla Þjóðleikhússins 1964, sótti kennaranámskeið í frönsku við háskólann í Aix-en Provence sumarið 1971 og við háskólann í Nice sumarið 1975. Hún lauk BA-prófi í ensku, frönsku og latínu við HÍ 1973. Árið 2000 settist Bryndís aftur á skólabekk og lagði þá stund á spænsku og spænska málfræði við Georgetown University, í Washington D.C.,síðan í Mexico City, við háskólana í Helsinki, Sevilla og Granada.
Bryndís var kjörin fegurðardrottning Íslands árið 1957. En sumarið 1958, að loknu stúdentsprófi, fór hún á síld á Raufarhöfn. Meðfram háskólanámi var hún leiðsögumaður fyrir erlenda ferðamenn flest sumur, utan tvö þegar hún var gengilbeina á Hótel Reynihlíð við Mývatn. Bryndís var fastráðinn dansari við Þjóðleikhúsið til 1970, lék við Þjóðleikhúsið 1964-70, lék, kenndi leiklist og leikstýrði á Ísafirði 1970-78, kenndi frönsku, latínu og ensku við MÍ 1971-78. Hún var settur skólameistari 1976-77, fyrst íslenskra kvenna. Sat í Menningarráði Ísafjarðar 1974-78.
Bryndís kenndi frönsku við Póst- og símaskólann í Reykjavík 1978-79, vann við þýðingar og dagskrárgerð hjá ríkissjónvarpinu 1978-83, stundaði um tíma gerð heimildamynda og var ritstjóri kvennablaðsins Lífs 1983-85. Vann við dagskrárgerð hjá Stöð 2 frá upphafi, árið 1986, og um árabil. Á sumrum frá 1981-86 var hún fararstjóri á Ítalíu á vegum Ferðaskrifstofunnar Útsýnar. Hún var framkvæmdastjóri Kvikmyndasjóðs 1992-96. Vann við gerð viðtalsþátta hjá Ríkisútvarpinu 1996-97.
Var varaborgarfulltrúi Alþýðuflokksins í Reykjavík 1986-90, sat bæði í hafnarstjórn og stjórn Kjarvalsstaða.
Frá árinu 1998-2003 stóð hún fyrir móttökum og menningarviðburðum, tónleikum og listsýningum, á vegum sendiráðs Íslands í Washington D.C. (Það má bæta því við, að ár eftir ár komst sendiráðið á opinbera lista meðal þeirra allra vinsælustu í W.D.C.) Hún gegndi sömu störfum á vegum sendiráðs Íslands í Helsinki og Eystrasaltslöndum á árunum 2003-2006.
Bryndís hefur verið dálkahöfundur árum saman, m.a.við Vísi, Morgunblaðið og Dag-Tímann. Hún hefur verið leiklistargagnrýnandi Pressunnar frá árinu 2010. Frá hendi Bryndísar hafa komið út nokkrar bækur, bæði þýddar og frumsamdar, auk þess sem hún hefur þýtt leikrit eftir ýmsa höfunda og leikstýrt. Meðal þeirra höfunda, sem hún hefur þýtt má nefna Daphne d Maurier, Simone de Beauvoir, Iris Murdoch og Obaldia. Árið X kom út bókin “Hátt uppi”, viðtöl við íslenskar flugfreyjur frá fyrstu árum flugs á Íslandi. 1988 kom út bókin “Bryndís” eftir Ólínu Þorvarðardóttur og 2008 bókin “Í sól og skugga” eftir Bryndísi – mannlífsmyndir frá tveimur meginlöndum.
Fjölskylda
Bryndís giftist 26.september, 1959 Jóni Baldvini Hannibalssyni, f. 21.2. 1939, fyrrv. Formanni Alþýðuflokkkksins, alþm., ráðherra og sendiherra. Hann er sonur Hannibals Valdimarssonar, alþm. og ráðherra, og k.h., Sólveigar Ólafsdóttur frá Strandseljum við Djúp.
Börn Bryndísar og Jóns Baldvins eru Aldís, f. 21.1. 1959, lögfræðingur, leikkona og kennari í Hafnarfirði; Glúmur, f. 13.10. 1966, MA í alþjóðaviðskiptum og Evrópufræðum frá LSE. Starfsmaður Þróunarsamvinnustofnunar Íslands og S.Þ. víða um heim. Snæfríður, f. 18.5. 1968, d. 19.01. 2013. MA í hagfræði frá St. John´s University í Róm og frá HÍ í econometriu. Lektor við Háskólann á Bifröst. Kolfinna, f. 6.10. 1970, MA í sagnfræði frá American University í Washington D. C. og LLM í lögum frá Sussex University. Framkvæmdastjóri International Press Club í Brüssel.
Systkini Bryndísar: Ellert B. Schram, f. 10.10. 1939, alþm.og fyrrv. forseti ÍSÍ; Margrét Schram, f. 18.1. 1943, bókasafnsfræðingur og sjúkraliði í Reykjavík; Björgvin Schram, f. 6.6. 1945, viðskiptafræðingur, búsettur á Seltjarnarnesi; Magdalena Schram, f. 11.8. 1948, d. 9.6. 1993, sagnfræðingur og blaðamaður í Reykjavík; Ólafur Schram, f. 25.5. 1950, forstjóri Fjallaferða, búsettur í Hveragerði; Anna Helga, f. 25.9. 1957, f.v.skólaritari í Reykjavík.
Foreldrar Bryndísar eru Björgvin Schram, f. 3.10. 1912, d. 24.3. 2001, stórkaupmaður í Reykjavík og fyrrv. forseti KSÍ, og k.h., Aldís Þorbjörg Brynjólfsdóttir, f. 23.3. 1917, d. 5.5. 1991, húsmóðir.
Ætt
Björgvin var sonur Ellerts Schram, skipstjóra í Reykjavík Kristjánssonar Schram, timbursmiðs í Innri-Njarðvík Ellertssonar Schram, formanns í Vestmannaeyjum Christianssonar Schram, ættföður Schramættar á Íslandi.
Móðir Björgvins var Magdalena Árnadóttir, fræðimanns í Reykjavík Hannessonar, lyfjafræðings í Syðri-Görðum Árnasonar. Móðir Árna var Guðríður, systir Ragnheiðar, ömmu Jóhanns Gunnars Sigurðssonar skálds. Móðir Magdalenu var Margrét Gestsdóttir, bónda á Innra-Hólmi Jónssonar og Helgu Halldórsdóttur, prófasts á Melstað, Ámundasonar, vefara í Innréttingunum í Reykjavík Jónssonar, föður Guðrúnar, langömmu Jóhanns, afa Jóhanns Hjartarsonar stórmeistara.
Aldís var dóttir Brynjólfs, sjómanns í Reykjavík Jónssonar, b. í Klauf í Landeyjum Brynjólfssonar, b. á Fornu-Söndum, bróður Hlaðgerðar, langömmu Guðrúnar, móður Ragnars Arnalds. Móðir Brynjólfs Jónssonar var Þorbjörg Nikulásdóttir, systir Jóns, langafa Magnúsar L. Sveinssonar, fyrrv. borgarfulltrúa, formanns Varðar og VR.
Móðir Aldísar var Margrét, systir Herdísar, ömmu Magnúsar H. Magnússonar ráðherra, föður Páls útvarpsstjóra RÚV. Margrét var dóttir Magnúsar, b. á Litlalandi í Ölfusi Magnússonar, b. á Hrauni í Ölfusi Magnússonar, b. í Þorlákshöfn Beinteinssonar, lrm. á Breiðabólstað í Ölfusi Ingimundarsonar, b. í Hólum Bergssonar, ættföður Bergsættar Sturlaugssonar.