Skepna: Ómennskan í samskiptum fólks

Skepna sem frumsýnt var í Norðurpólnum á Seltjarnarnesi föstudaginn, 10. sept.

Höfundar: Daniel MacIvor og Daniel Brooks
Leikstjóri: Guðjón Þorsteinn Pálmarsson
Leikari: Bjarmar Þórðarson
Forritun: Arnar Ingvarsson
Margmiðlun: Haraldur Ari Karlsson
Hljóðmynd: Múkk
Þýðandi: Bjartmar Þórðarson
Lýsing: Hópurin


Skepna

Það er fátt sem gleður í okkar litla rotna samfélagi þessi misserin. Enginn virðist kunna lengur muninn á réttu og röngu, góðu né illu, fögru né ljótu. Fólk vafrar um með bundið fyrir bæði augu, vill hvorki heyra né sjá.
Og á meðan fer allt til helvítis.

En það er kannski í svona óvissuástandi – þegar allt leikur á reiðiskjálfi, sem eitthvað nýtt og ferskt sprettur fram. Eins dauði er annars brauð. Yfirgefnar verksmiðjur breytast í fullkomin leikhús – það er að segja þau eru ekki fullkomin í ljótleik sínu, en þau skapa fullkomna umgerð um þau skilaboð, sem ungu fólki liggja á hjarta og þráir að kasta framan í þjóðina núna – einmitt núna í kreppu hugar og handa. Leikhúsið er að verða æ pólitískara, og í krafti þess er hugsanlega hægt að vekja þjóðina úr dvala, fá hana til að hugsa, sjá sjálfa sig í spegli og bregðast við á einhvern hátt.

Skepna er einmitt svoleiðis leikrit. Að þessu sinni erum þvinguð til þess að kafa ofaní undirvitundina, horfast í augu við okkar eigin sjálf, skynja óhugnaðinn og óþverrann, sem leynist í hverjum manni – hversu sakleysislegur sem hann virðist á yfirborðinu. Skepna er um ómennskuna í samskiptum fólks, sannkölluð hrollvekja – miskunnarlaus, en samt svo ótrúlega fyndin og skemmtileg.

Fjórtán persónur koma fram í Skepnu, en leikandi er aðeins einn. Og ég verð að viðurkenna, að ég var heltekin af sögu unga mannsins frá því hann opnaði munninn í upphafi – bara si svona á axlaböndunum, með ekkert nema sinn eigin talanda, bjart bros, leifrandi augu og látbragð í lagi. Rúmum klukkutíma seinna var ég búin að kynnast hópi fólks – fjórtan manns – sem enn standa mér fyrir hugskotssjónum lifandi og áþreifanlegar. Allar áttu sér líf um stund, voru þarna með holdi og blóði, vöktu með mér ýmist samúð eða andúð. En bara einn leikari. Frábært.

Bjartmar Þórðarson er enginn nýgræðingur á sviði og hefur leikið bæði hér heima og erlendis. Hann stundaði sitt leiklistarnám í Bretlandi og hefur því margt nýtt og frábruðgið fram að færa. Hefur agaðan leikstíl, frábæra raddbeitingu, hljómmikla rödd, skýra framsögn og styrkan líkama. Allt þetta nýtir hann til fulls í Skepnu.

En það koma fleiri við sögu en bara Bjartmar á axlaböndunum. Lýsingin og tónlistin gefa sýningunni dýpt og mýkt og dramatík. Það er ótrúlegt, hvað eitt lítið ljós getur miklu breytt og hvað tónlist getur örvað ímyndunaraflið.

Guðjón Þorsteinn Pálmarsson, leikstjórinn og tónsmiðurinn, getur verið stoltur af þessu fína framlagi til menningarlífs á krepputímum.