Súldarsker: Dúndur í Tjarnarbíói

Leikhópurinn Soðið svið sýnir í Tjarnarbíói SÚLDARSKER

Leikstjóri: Harpa Arnardóttir
Leikmynd: Brynja Björnsdóttir
Lýsing: Egill Ingibergsson
Búningar: Þórunn Elísabet Sveinsdóttir
Förðun: Svanhvít Vilbergsdóttir
Listræn ráðgjöf: Erling Jóhannesson

Leikarar:
Aðalbjörg Árnadóttir
Maríanna Clara Lúthersdótti


Súldarsker er sýnt í Tjarnarbíói. Soðin svið

Það kemur fyrir, að ég spyr sjálfa mig, hvort ég gæti hugsað mér að verða ung aftur, og hvað ég mundi þá vilja gera. Líklega mundi ég alls ekki nenna að verða ung aftur, þótt ég ætti þess kost. Ég veit af eigin reynslu, að það tekur allt of langan tíma að vera ungur og óráðin – og svo er það alger tilviljun, hvar maður lendir fyrir rest.

Nema hvað, þar sem ég sat í gamla Tjarnarbíói á sunnudagskvöld (sem er ,forresten, búið að gera mjög skemmtilega upp, orðið ekta teater), fór ég að hugsa, að ef svo vildi til, að einhver byði mér upp á þennan valkost – bara að byrja upp á nýtt – þá mundi ég vilja leika í svona leikriti – já, einmitt, í þessu eina og sama leikriti – í Súldarskeri eftir Sölku Guðmundsdóttur.

Ég er ekki alveg klár á því, svona á nóinu, hvort ég mundi frekar vilja vera stjörnublaðakonan eða Gunnhildur kynjafræðingur og doktor í mannfræði. Þær eru báðar svo geðveikislega krúttlegar og í geggjuðum kjólum – enda borgarpíur í heimsókn úti á landi. Þvílíkt hafarí í þorpinu – það horfðu allir áðær! Annars minna þær mjög á stjörnurnar í þöglu myndunum, muniði, með svarta drætti í kringum augun og eldrauðar varir. (Svanhvít Valgeirsdóttir hefur aldeilis vandað sig.) Hárprúðar, báðar tvær, þannig að þær hefðu slegið í gegn í hvaða beauty keppni sem var – alla vega þarna á Hryssingshátíðinni á Súldarskeri.

Líklega hefði ég frekar átt að leika Gunnhildi mannfræðing, því að ég er svolítið eins og hún, svona jákvæð og reyni að gera gott úr öllu. Og svo hef ég það auðvitað mér til framdráttar, að ég hef sjálf búið úti á landi, svo að ég þekki þetta allt af eigin raun og ætti þar af leiðandi auðvelt með að setja mig inn í hlutverkið.

Bæjarstjórinn á minni tíð var að vísu ekkert nema gæskan, og maður grunaði hann aldrei um græsku, en það voru ýmsir aðrir hákarlar í plássinu, sem víluðu ekkert fyrir sér, og það var klárlega þöggun í gangi, leyndarmál, sem aðkomufólk (eins og ég) átti ekkert að vera að hnýsast í. Ég var því alltaf svolítið utangátta og komst aldrei almennilega inn í samfélagið. Nú sé ég, að það hefði hugsanlega getað verið eitthvað í gangi, sem ég hafði ekki hugmynd um.(Var til dæmis ekki að koma á daginn, að sorpbrennslustöðvar um allt land eru að gubba út úr sér einhverjum andsk. Óþverra?)

Aðgerðarleysi mitt þarna um árið gæti hugsanlega dregið úr möguleikum mínum að fá óskahlutverkið, því að eins og við sjáum í Súldarskeri, þá drífa þær stöllur, stjörnublaðakonan (sem kom reyndar á daginn, að hafði aldrei komist hærra á blaðinu en að fjalla um fólk í fréttum) og mannfræðingurinn, hún Gunnhildur, í því að leysa vandamálið og koma upp um svikarana. Reyndar varð það nú alveg óvart, en engu að síður, sannleikurinn kom í ljós og leysti bæjarbúa úr ánauð.End of story.

Þegar kom á daginn, að það var bara hægt að sigla til lands frá skerinu (þetta var sko þorp á litlu skeri á jaðri byggðar) í “norðsynningi”, þá fylltust þær stöllur – sérstaklega blaðakonana – þvílíkri innilokunarkennd. Þetta gæti ég t.d. Leikið mjög vel, því að, þegar ég bjó í jaðarbyggð, var bara flogið hundrað og tuttugu daga á ári. Hina dagana var vitlaus átt, og enginn komst burt..Ég man eftir því, að einu sinni kom franskur blaðamaður í heimsókn og ætlaði að hafa stuttan stans, en tíu dögum seinna var hann enn á staðnum, gersamlega hamslaus. Ekki flogið suður. “Hvernig getur þú húkt hér á þessu ömurlega krummaskuði?” spurði hann. Frábær reynsla, sem ég gæti nýtt mér í leikhúsinu, ekki satt?

En þá er bara ein spurning eftir – hefði ég haft meðfædda hæfileika (mig skortir ekki reynsluna, eins og sjá má af framangreindu) til að leika eins og þær Aðalbjörg og Maríanna Clara? Þær leika ekki bara sjálfar sig, heldur alla þorpsbúa, eins og þeir leggja sig, gáfaða, heimska, halta, fatlaða og fúllynda. Jesús minn, þær fara á slíkum kostum, að maður hefði haldið, að þetta væri ekki hægt. Þetta er að vísu smáþorp – ég man ekki, hvað þær sögðu, að það byggju þarna margir – en engu að síður tekst þeim að draga upp lifandi mynd af heilli sumarhátíð (það er að vísu súld og stinningskuldi), allir þorpsbúar eru með, hlaupa í ufsahlaupi, spreyta sig í hagyrðingakeppni, háma í sig hamborgara og allt hitt sem tilheyrir svona heimagerðum gleðihátíðum. Maður má hafa sig allan við að fylgjast með þessari mannmergð, kynnast hverjum og einum – og þær voru bara tvær. Hvaðan koma þessar stelpur, og á hvaða leið eru þær? Þær gætu lagt heiminn að fótum sér, ef þær bara nenntu.

Leikmynd Brynju Björnsdóttur er fantagóð og skapar nákvæmlega rétta stemningu. Snjöll hugmynd að tengja efniviðinn í leikmyndinni við söguefnið sjálft og nota ekkert annað. Eins og ég sagði, eru búningar Þórunnar Elísabetar Sveinsdóttur Reykjavíkurlegir, en samt er eins og þeir breytist með hverri nýrri persónu sem birtist á sviðinu. Galdur.

Þremur karlmönnum leyfist að koma að þessari sýningu, það er í fyrsta lagi tónlistarmaðurinn þrautgóði á raunastund, Ólafur Björn Ólafsson, sem gefur sýningunni mátulega draugalegan undirtón við orgelið. Svo er það ljósamaðurinn, sem hefur líka hugsað fyrir öllu, og fær jafnvel áhorfendur til liðs við sig með litlum vasaljósum, sem vísa okkur veginn í myrkrinu. Ég efast ekki um, að listrænn ráðunautur, Erling Jóhannesson, hafi fengið að komast að öðru hverju.

Sem sagt, Salka Guðmundsdóttir, höfundur verksins, er auðvitað stjarna kvöldsins – en samt hugsa ég, að sagan hennar Sölku (sem er reyndar glæpasaga) hefði ekki skilað sér svona fullkomlega, nema af því að hún hefur gettgóðar konur í liði með sér. Ekki bara þessar dúndurleikkonur, sem Hollywood ætti að kaupa á nóinu, heldur hugmyndaríkan og útsjónarsaman leikstjóra, sem er Harpa Arnardóttir. Hver var að segja, að það vantaði góða leikstjóra á Íslandi?