Ballið á Bessastöðum: Landnámshænur og lóur í hlaðvarpanum

Þjóðleikhúsið frumsýnir barnaleikritið: Ballið á Bessastöðum
Höfundur: Gerður Kristný
Leikstjóri: Ágústa Skúladóttir
Búningar: María Th. Ólafsdóttir
Lýsing: Ólafur Ágúst Stefánsson
Brúðuhönnuður: Bernd Ogrodnik

Leikendur:
Jóhannes Haukur Jóhannesson
Þórunn Arna Kristjánsdóttir
Edda Arnljótsdóttir
Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir
Þórunn Lárusdóttir
Ævar Þór Benediktsson
Kjartan Guðjónsson
Örn Árnason
Anna Kristín Ásgrímsdóttir
Lára Sveinsdóttir
Hilmar Jensson

Hljóðfæraleikarar:
Baldur Ragnarsson
Jón Geir Jóhannsson
Unnir Birna Björnsdóttir


Þórunn Arna Kristjánsdóttir og Jóhannes Haukur Jóhannesson í hlutverkum prinsessunnar og forsetans

Ég hef einhvern veginn svo miklar væntingar til leikhússins, að í hvert sinn, sem ég er ekki alveg sátt við sýningu, þá hef ég tilhneigingu til að kenna sjálfri mér um – að ég sé bara þreytt eða illa fyrir kölluð, eða hafi bara einfaldlega ekki vit á því, sem á borð er borið. Þar að auki fór ég alein á Ballið á Bessastöðum, hafði engan félagsskap. Ég saknaði þess að hafa ekki lítinn hnokka við h lið mér, sem gæti vottað með látæði sínu, hvort sýningin væri skemmtileg eða leiðinleg – þetta er nú einu sinni barnasýning og það er því þeirra að dæma. Það eru börnin, sem eiga að fylla salinn sunnudag eftir sunnudag, og ef það tekst að lokka þau í leikhúsið (þrátt fyrir 3.200 krónur miðaverð), þá er sigurinn unninn og segir allt um sýninguna, sem segja þarf –sama hvað mér finnst, sem er komin nokkuð af barnsaldri.

Húsið var reyndar fullt af börnum í fylgd foreldra og ættingja, og það var athyglisvert að fylgjast með, hversu einbeitt þau virtust og hlustuðu grannt – stillt og prúð. (Ég hafði satt að segja ekki hugsað út í það fyrr, hvað jafnvel börnin eltast við tískusveiflur í fataburði. Hvert og eitt eins og klippt út úr Vogue eða Armani Magazine.)

Mörg barnanna þekktu eflaust efnið og höfðu hlýtt á sögurnar hennar Gerðar Kristnýjar oftar en einu sinni og oftar en tvisvar undir svefninn uppi í rúmi. Og ég get vel trúað, að það sé gott að sofna út frá svona sögum. Þau hlógu að vísu ekki oft – þetta er ekki sprenghlægileg sýning, og þau æptu heldur ekki, því að þetta er ekki spennutryllir, heldur svona einföld – kannski má segja hversdagsleg – saga um raunir forsetans á Bessastöðum. Það gerist ekkert mikið, bara smáflækjur, sem þarf að greiða úr. Miklar bréfaskriftir, óvæntir gestir og brúðkaup upp til fjalla. Sagan fær þó góðan endi, sem er nú fyrir mestu í barnasögum. Ástin blómstrar og prinsessan bæti ráð sitt og lætur af ólundinni.

Þar sem ég sat innan um barnaskarann og reyndi að einbeita mér – eins og þau – að því sem fram fór á sviðinu, vaknaði með mér spurningin um, hver það mundi vera, sem velur verkefni til sýninga í leikhúsinu. Það er óneitanlega mikið vandaverk. Fjárhagur hússins stendur og fellur með aðsókn að sýningum, og mistök í verkefnavali getur riðið því að fullu.

Nú er ég ekki að segja, að Ballið á Bessastöðum séu mistök, en einhvern veginn rís efni þess, sagan sjálf, ekki undir hinum glæstu umbúðum sem því hefur verið valið – því að það er mikið í lagt. Sagan er átakalítil, en leikmyndin, aftur á móti, leikstjórnin og leikurinn, er kraftmikill og glæsilegur. Atburðarásin mátulega hröð, hvergi dauður punktur, leikmyndin (Guðrún Oyahals) einföld en mjög myndræn, litirnir hlýir og alltumvefjandi, fatnaður (María Th. Ólafsdóttir) þægilegur og íburður við hæfi. Leikararnir leggja sig augljóslega alla fram um að blása lífi og lit í fremur litlausar sögupersónurnar.

Mér finnst gaman að fara í leikhús. Mér finnst gaman að láta tæla mig inn í sýndarveröld leiklistarinnar. Gleyma fárinu í þjóðfélaginu um stund og hverfa inn í heim skáldskaparins. Að láta heillast af atburðarásinni, upplifa sorg og gleði, hatur og ást, rifja upp allar þær undirliggjandi tilfinningar, sem láta mann ósnortinn í hinu daglega þrasi. En mest gaman í leikhúsinu er að upplifa unga (og aldna) leikara blómstra á sviðinu, sjá þá ná fullkomnum tökum á verkefninu, og verða frjálsa í fullkomnun sinni. Leiklist er list augnabliksins og kemur aldrei aftur.

Og það eru margir leikarar í þessari sýningu, sem blómstra og heilla í viðleitni sinni til að gera gott úr öllu. Jóhannes Haukur, sem leikur sjálfan forsetann, er einn þeirra. Hann er í fyrsta lagi hrikalega flott týpa, mjög forsetalegur (ef til er einhver uppskrift af forseta), og þar fyrir utan getur hann allt, leikið á hljóðfæri, sungið – og dansað! Dansinn í bláu sokkunum er eitt besta atriði sýningarinnar.

Það er líka gaman að fylgjast með nýju leikurunum, sem Þjóðleikhúsið hefur ráðið til starfa. Þórunn Arna er mjög sannfærandi sem ólundarlega prinsessan, getur bæði verið yfirmáta falleg og forljót, þegar hún grettir sig í ólundinni. Syngur eins og engill, er kattliðug, kát og hrífandi. Sama verður sagt um skólabræður hennar, þá Hilmar Jensson og Ævar Þór Benediktsson. Spennandi að sjá ný andlit og fylgjast með, hvernig þau nýta tækifærin. Öll afbragðstalentar, en ég vona bara, að Þórunn Arna festist ekki í smástelpuhlutverkunum.

Svo eru þarna þrjár – reyndar fjórar – valkyrjur af eldri kynslóðinni (þó að þær séu allar kornungar), þær Edda Arnljótsdóttir, Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir, Þórunn Lárusdóttir og Anna Kristín Arngrímsdóttir – allt frábærar leikkonur, sem ættu skilið að fá að reyna sig í veigameiri hlutverkum. Erni Árnasyni tekst að gera sér mat úr litlu og nær vel til ungra áhorfenda með sprelli sínu. Það gerir reyndar Kjartan Guðjónsson líka, en á miklu hófstilltari hátt. Hann hefur notalegan leikstíl. Lára Sveinsdóttir leikur örlagadís forsetans, draumkennd í upphafi, en sýnir töuverða festu, þegar á reynir. Hefur meira að segja verksvit, sem kemur sér vel fyrir svolítið vankaðan forseta.

Tónlistarfólkið, þau Baldur, Jón Geir og Unnur Birna flikka mjög upp á sýninguna og blása í hana lífi, sem bjargar miklu. Þau flytja tónlist eftir Braga Valdimar, sem er bæði örvandi og þægileg, sum lögin kannski einum of mikið í ætt við Eurovisionæðið, en inni á milli örlar á klezmer, ljúfsárum gyðingatónum, sem hrífa okkur burt til annarra tíma og annars konar lífs.

Svo má bæta við, að kýrin Lilja og leikur hennar er eitt ógleymanlegasta atriði sýningarinnar. Að ég tali nú ekki um landnámshænuna og lóurnar í hlaðvarpanum á Bessastöðum. Mikill snillingur Bernd Ogrodnik úr Borgarnesi, og ekki ónýtt að fá hann til liðs við sig.

Þess er ekki getið í leikskrá, hver sé höfundur dansa og hreyfinga í sýningunni. Ég geri þá ráð fyrir, að leikstjórinn, Ágústa Skúladóttir beri ábyrgð á þeim. Það er ekki lítil búbót fyrir leikstjóra að geta sameinað þetta tvennt, kóreógrafíu og leikstjórn.

Mér sýnist á öllu, að Ágústa sé hinn mesti forkur og hafi rekið hópinn áfram af krafti og útsjónarsemi. Vonandi eigum við eftir að sjá meira til hennar í Þjóðleikhúsinu.