Stríðssagan Allir synir mínir: Meistaraverk Millers

Þjóðleikhúsið frumsýnir: Allir synir mínir eftir Arthur Miller
Þýðing: Hrafnhildur Hagalín
Leikjstóri: Stefán Baldursson
Leikmynd: Grétar Reynisson
Búningar: Þórunn Sigríður Þorgrímsdóttir
Tónlist: Gísli Galdur Þorgeirsson
Lýsing: Lárus Björnsson
Leikendur: Jóhann Sigurðarson, Guðrún Snæfríður Gísladóttir, Björn Thors, Arnbjörg Hlíf Valsdóttir, Atli Rafn Sigurðarson, Baldur Trausti Hreinsson, Edda Arnljótsdóttir, Hannes Óli Ágústsson, Vidís Hrefna Pálsdóttir, Hringur Ingvarsson og Grettir Valsson


Frá Þjóðleikhúsinu

Ég bjó í Bandaríkjunum um fimm ára skeið fyrir og eftir seinustu aldamót. Þá var Arthur Miller enn á lífi, háaldraður maður, fæddur árið 1915. Öðru hverju birtust viðtöl við öldunginn í tímaritum og helgarblöðum, þar sem hann var enn að láta gamminn geysa og velta sér upp úr spurningum um mannleg gildi, samfélagslega ábyrgð, réttlæti, ranglæti, sekt og sakleysi. Hann var hápólitískur, ástríðufullur – og enn uppfullur af gagnrýni á bandarískt samfélag.

Það kom fram í þessum viðtölum, að hann byggi á rándýru dvalarheimili eldri borgara, þar sem saman voru komnir margir öflugustu sona og dætra Bandaríkjanna, fyrrverandi stjórnmálamenn, menningarpostular, rithöfundar og heimspekingar. Gott ef hinn frægi ræðuskrifari Kennedys, Theodor Sörensen, var ekki einn af þeim. (“Spyrðu ekki, hvað land þitt getur gert fyrir þig, spyrðu hvað þú getir gert fyrir land þitt – muniði?)

Mér fannst þetta hljóta að vera mjög skemmtilegt líf í ellinni, umræðan héldi áfram þrátt fyrir breyttar aðstæður, menn væru að leysa lífsgátuna alveg fram í rauðan dauðann. Í stað þess að spila bridge eða slá keilur og kúlur, þá væru heilasellurnar virkjaðar með því að halda áfram að hugsa, þrasa, þrátta og þræta. Mér fannst ég alveg geta hugsað mér að eyða ellinni á svona stað og stunda hugarleikfimi með svona gæjum!

Arthur Miller var upphaflega gyðingastrákur frá Brooklyn. Hann var bara unglingur, þegar kreppan mikla reið yfir og fjölskyldan varð gjaldþrota. Faðir hans missti fyrirtæki í fatabransanum, sem hann hafði byggt upp hörðum höndum, og gat ekki lengur styrkt börnin sín til náms. Þessi bitra reynsla virðist hafa brennimerkt Arthur Miller fyrir lífstíð. Allt sem hann lét frá sér fara á sinni löngu ævi var spunnið út frá þessari dýrkeyptu reynslu unglingsáranna.

Fyrsta verk hans, sem sló rækilega í gegn (og færði honum milljónir í vasann), var Sölumaður deyr. Þá var hann rétt þrítugur að aldri. Ég man, hvað þetta verk hafði mikil áhrif á mig, þegar ég sá það sem unglingur mörgum árum seinna. Á minni stuttu ævi hafði ég aldrei átt þess kost að kafa svo djúpt inn í fylgsni sálarinnar, barnið í mér hafði auðvitað aldrei upplifað þá djúpu, hömlulausu örvæntingu, ótta og vonleysi, sem leiddi á lokum til dauða hins lánlausa föður í miðri kreppu. Ég var örþreytt á sál og líkama, þegar ég stóð upp í lokin og gekk út í grunlausa hversdagstilveruna á ný. Og einhvern veginn þannig var mér líka innanbrjósts, þegar ég yfirgaf leikhúsið á laugardagskvöldið (2. sýning).

Allir synir mínir eru stríðsgróðasaga. Á sama tíma og Evrópa, Rússland, Japan og Kína voru lögð í rúst, græddu Bandaríkjamenn (eins og Íslendingar) á tá og fingri á seinni heimsstyrjöldinni. Á sama tíma og ungir menn voru kvaddir í herinn til að deyja fyrir föðurlandið, rökuðu gamlir menn saman stórgróða af því að framleiða og selja vopn og önnur vígtól. “Hvers konar maður ert þú eiginlega, áttu þér ekkert föðurland?” – spyr Chris föður sinn í uppgjörinu undir lokin. Já, einmitt. Kapitalisminn virðir engin landamæri. Hann á sér ekkert föðurland annað en gróðafíknina. Í þeim gráa leik er allur heimurinn vígvöllurinn.

Joe Keller, faðirinn, er einn þessara stríðsgróðamanna. Hann selur varahluti í flugvélar. Hann veit, að í þeim leynast gallar, sem hann felur vitandi vits, þótt þeir geti valdið dauða fjölda flugmanna. En Joe og Kate (kona hans) eiga tvo syni, sem báðir voru kvaddir í herinn. Annar þeirra var flugmaður, sem sneri aldrei til baka. En hann flaug aldrei F-15, var það?

Joe er holdgervingur ameríska draumsins. Hann græðir á daginn og grillar á kvöldin. Hann gengur svo langt í græðginni, að hann vílar ekki fyrir sér að stofna lífi annarra í hættu. Að eigin áliti ber hann enga ábyrgð – ekki frekar en þessir 147 einstaklingar í ábyrgðarstöðum á Íslandi, sem sannleiksnefndin okkar yfirheyrði eftir hrun og allir sem einn vísuðu frá sér allri ábyrgð. Ditto með Joe. Hann skelllir skuldinni á alla aðra – og var sýknaður fyrir dómi. Undirmaður hans var sekur fundinn í hans stað.

En sök bítur sekan. Vitneskjan um þetta ódæðisverk ásækir fjölskylduna og lætur hana ekki í friði. Þeir sem fórust, gátu þess vegna verið “allir synir mínir”. Málsvörn Joes (hins ameríska kapitalisma) er einföld: “Þið vilduð peningana, ekki satt?” Hann endurtekur spurninguna í síbylju – og svörin eru afhjúpandi. – Úr því að þið þögðuð og þáðuð peningana, eruð þið öll samsek.

Hér gefst íslenskum leikhúsgestum eftir hrun kjörið tækifæri til að líta í spegil. Aðeins með því að gera miskunnarlaust upp við þessa fortíð, getur okkar litla fjölskylda (þjóðfélagið) losað sig úr ósýnilegum, en óslítanlegum fjötrum lífslygi og sjálfsblekkingar, sem eitrar líf okkar. Og reynt að byrja nýtt líf á traustari grunni.

Hvílíkt drama. Hvílíkt meistaraverk!

Sýning Þjóðleikhússins á þessu meistaraverki Arthurs Miller er áhrifamikil, án þess að vera beint glæsileg – enda því skyldi hún vera það? Leikstjórinn, Stefán Baldursson, tekur mjög skynsamlega afstöðu, hann er varkár og gætir þess að ofgera ekki ungum leikurum. Frá því tjaldið er dregið frá, ríkir þrúgandi ótti og sektarkennd í loftinu. Keller fjölskyldan engist eins og dýr í fjötrum. Líf hennar snýst um það að hylma yfir, afskræma, ljúga að sjálfum sér og gera aðra samseka í afneituninni. Það er leikið á lágu nótunum, í upphafi ofurhægt, en smám saman magnast tempóið og springur í uppgjöri feðganna. Afhjúpunin að leikslokum er miskunnarlaus, og kemur við kaunin á okkur öllum.

Það þarf stórleikara til að kljást við svona stórbrotið verk, og mér finnst ég geta sagt með góðri samvisku, að leikarar, allir sem einn, skiluðu sínu vel og skilmerkilega, án þess þó endilega að sýna stjörnuleik.

Jóhanni Sigurðarsyni tekst að draga upp trúverðuga mynd af holdgervingi hins ameríska draums, hvort heldur er í yfirborðslegri sjálfsánægju hans eða í átakanlegri sjálfsmeðaumkun, þegar sannleikurinn verður ekki lengur umflúinn.

Björn Thors í hlutverki hins eftirlifandi sonar og erfingja einkafyrirtækisins kemur því vel til skila, hvernig hið þrúgandi farg fortíðarinnar grúfir yfir tilverunni. Framan af lifir hann í afneitun og útilokun, en nagandi grunsemdin lætur hann ekki í friði. Sú ákvörðun hans að vilja að ganga að eiga fyrrum kærustu (Arnbjörg Hlíf Valsdóttir) bróður síns, sem aldrei sneri heim úr seinustu sprengjuárásinni, hrindir atburðarásinni af stað. Þar með opnast gáttir helvítis. Það sem áður átti að vera gleymt og grafið, rís upp eins og draugur úr fortíðinni og neyðir alla sem hlut eiga að máli, til að horfast í augu við sannleikann. Arnbjörg Hlíf kemur vel fyrir, laus við alla tilgerð, skýrmælt og skörugleg.

Það var kominn tími til að Guðrún Snæfríður Gísladóttir fengi aftur að takast á við verðug viðfangsefni. Þarna kom að því. Glæsileg leikkona með sterka nærveru. Henni tekst vel að koma til skila blindri afneitun móðurinnar, umhyggju hennar fyrir velferð fjölskyldunnar, og óbilgjörnu ráðríki, sem birtist í skilyrðislausri kröfu um, að allir aðrir taki þátt í lífslyginni – á hennar forsendum.

Önnur hlutverk eru minni, en engu að síður mikilvæg, til að koma til skila þeim aðstæðum, sem ríkja á heimilinu og með nágrönnum. Mér finnst alveg kominn tími til að treysta Eddu Arnljótsdóttur fyrir einhverju öðru og meira en amrískum eða íslenskum eldhúsmellum.

Svo skildi ég ekki alveg, hvers vegna læknir (Baldur Trausti Hreinsson) úr leikriti eftir Chekov var að venja komur sínar á heimili Keller fjölskyldunnar. Ósköp sjarmerandi og notalegur, en engu að síður á skjön við meginsöguþráðinn. (Heimilislæknirinn hafði að vísu látið sig dreyma um að þjóna vísindunum í rannsóknarstofunni. Annar draumur sem ekki rættist.)

Ég var heldur ekki fullkomlega sátt við leikmynd Grétars Reynissonar. Hún gaf einhvern veginn í skyn, að við værum stödd í Mid-West, maður horfði út á endalausa græna sléttu, eins og við værum ein í heiminum, fjarri manna byggð. Samt voru nágrannarnir að rápa inn og út, klæddir stuttum pilsum og á háum hælum eins og úthverfaborgarar. Átti þetta ekki að gerast í verksmiðjuborg, eins konar Detroit? Og af hverju þurftu leikararnir að fóta sig á hallandi sviðsgólfi allan tímann?

Hins vegar fannst mér þýðing Hrafnhildar Hagalín koma hversdagsmáli sögupersóna vel til skila og ýkjulaust, eins og vænta má frá svo góðum rithöfundi, sem hún er. Og Gísli Galdur galdrar fram hógvær hljóð, sem gefa sýningunni dramatískan undirtón.

Þesssi volduga sýning stendur í þrjá heila tíma með einu hléi. Um leið og leikhúsgestir þökkuðu leikendum fyrir góða sýningu, var mér efst í huga hvílíkt meistaraverk þetta leikrit er. Sígilt drama um mannlegan breiskleika og óvægin afhjúpun á áferðarfallegum sýndarveruleika þjóðfélags, sem lifir í blekkingu um eigið ágæti, en undir yfirborðinu er veruleikinn allur annar, harður og miskunnarlaus. Meistarverk, sem á erindi við okkur öll.