MR
Þrátt fyrir að eiga upptök sín í plastinu er Norðurpóllinn hálfgerður ævintýraheimur. Hver ranghalinn á fætur öðrum, ljóstýrur í dularfullum skúmaskotum og lágvært öldugjálfur við túnfótinn. Mjög viðeigandi entrée að ævintýrinu, sem Shakespeare skrifaði fyrir okkur endur fyrir löngu um dintótta bokka og daðrandi heilladísir, sem hafa nautn af því að stríða mannfólkinu og koma því í bobba.
Þetta er svo sem ekkert nýtt fyrir okkur Íslendinga, við höfum alla tíð trúað á álfa – og gerum enn. Hvað segir ekki í þjóðvísunni? Ólafur reið með björgum fram, villir hann, stillir hann. – Hitti hann fyrir sér álfamær, þar rauður loginn brann. – Og síðar í sama kvæði tekur Ólafur áskorun áflkonunnar – gakk í björg og bú með oss. – Sumir sneru aftur til mannheima, aðrir komu aldrei til baka.
Leikritið heitir Draumur og gerist á Jónsmessunótt. Jafnvel nútímakonur á Íslandi baða sig í dögginni á Jónsmessunótt til þess að endurheimta meydóminn. Á milli draums og vöku sveiflast þær úr einum heimi í annan, lostafullar og lævísar, leitandi að fullkomnun í ást sinni og hatri. Það heitir að vera í álögum, alveg eins og Hermía, Helena og Títanía voru í álögum Bokka og vissu ekki í þennan heim né annan – lögðu jafnvel ást á asna.
Svo að við þurfum ekki að leita langt. Draumur á Jónsmessunótt gæti verið okkar eiginn.
Shakespeare var rúmlega þrítugur, þegar hann skrifaði þetta sívinsæla verk.
Það er sagt, að hann hafi samið það að beiðni vinar í giftingarhugleiðingum. Æskuþróttur og fjörugt ímyndunarafl ráða för. Shakespeare gefur sjálfum sér lausan tauminn, það er engu líkara en að hann sé aðallega að skemmta sjálfum sér – og jafnvel skrattanum á stundum. Hvað er ást? Hvað eru frjálsar ástir? Og hvað er að vera ást fanginn? Hann lætur gamminn geysa og allt flakka. Ekkert heilagt, gerir grín, gantast og gefur undir fótinn.
Sagan er í raun fáránleg, en textinn er safaríkur og fer vel í munni. Jafnvel í munni amatöra. Og hvað voru leikarar á tímum Shakespeares svo sem annað en amatörar – athyglissjúkir áhugamenn, sem fengu útrás í skjóli leikskáldsins? Kannski var þetta leikrit einmitt skrifað með það í huga, því að hinn menntaði leikari fer ósjálfrátt að leita dýpri merkingar í texta, sem flæðir fram á valdi tilfinninganna, og getur hugsanlega afskræmt hann.
Á tímum Shakespeares leyfðist konum ekki að stíga á leiksvið. Karlmenn urðu því að bregða sér í kvenhlutverkin og náðu margir hverjir miklum frama sem slíkir. En ég er fegin því, að slíku banni skuli aflétt í nútímanum, því að barmmiklar og lendaprúðar konur kveikja slíkan fítonskraft í æðum strákanna, sem hlaupa rávilltir fram og til baka um sviðið, að sýningin hefði ekki orðið svipur hjá sjón, ef þeirra hefði ekki notið við. Lostafull fegurð þeirra, sveipuð silki og siffoni, svífur á mann eins og áfengt öl – hvað þá með blessaða óþroskaða drengina á sviðinu? Ég er svo sem ekki að segja, að drengirnir hafi ekki verið kynþokkafullir líka, en þeir voru meira í vörn en sókn, ef svo má segja.
Leikendur í sýningu Herranætur eru um fjörutíu talsins – fyrir utan alla þá, sem lögðu hönd á plóginn og létu drauminn rætast, smíðuðu leiktjöld, saumuðu búninga, skreyttu leikendur og greiddu hár þeirra, útbjuggu leikskrá og sömdu tónlist. Það er ótrúlegt að ímynda sér, hvað leiklistin heillar og hverju samheldinn hópur ungmenna fær áorkað.
Það er greinilegt, að leikstjórinn, Gunnar Helgason, hefur lagt mikla vinnu í uppfærsluna og beitt bæði skynsemi og ímyndunarafli til að gefa henni líf og lit. Framsögn leikenda er yfirleitt skýr og þeim tekst flestum að koma bundnum texta til skila til áhorfenda, sem margir hverjir eru að heyra hann í fyrsta sinn.Leikendur verða að skilja sjálfir það, sem þeir eru að segja. Það er auðvitað grundvallatriði.
Leikurinn einkenndist í heild af miklu fjöri og gleði, sem smitar út í salinn.Ég nefni engin nöfn, en það er greinilegt, að fleiri en einn og fleiri en tvo þeirra eigum við eftir að sjá aftur á leiksviðum borgarinnar í framtíðinni.
Engu að síður finnst mér, að það hefði mátt þétta sýninguna, klippa textann og stytta hléin. Það hefði að vísu bitnað á tónlistinni, sem Kristján Norland ber ábyrgð á og er aldeilis yndisleg, spiluð af fingrum fram. En stytting er alltaf til bóta. Efnið skilar sér betur.
Leikmynd og búningar eru heillandi í einfaldleik sínum, og geri ég ráð fyrir, að dempuð lýsing eigi sinn þátt í að gera gott úr öllu. Svo finnst mér, að hópurinn hljóti að hafa verið heppinn að fá Kristínu Berman til liðs við sig, því að hún ljær sýningunni anda ástarvímu þúsund og einnar nætur.
Gunni frændi má vera ánægður með uppskeruna.