Macbeth er ódauðlegt verk og á jafnmikið erindi við okkur í nútímanum og það átti, þegar það var skrifað, seint á 16. öld
Sagan af Macbeth er einhver magnaðasta draugasaga allra tíma. Það er mjög við hæfi að flytja hana á þessum tíma árs, þegar myrkrið grúfir yfir, kolsvart og ógnvekjandi. Myrkriðminnir okkur stöðugt á, hvað við megum okkur lítils í stríði við náttúruöflin. Það eru þau, semspinna okkur lífsþráð, skapa okkur örlög, sem engu þyrma og verður ekki haggað, hvað sem á gengur. Örlögin eru óumflýjanleg. Þannig voru örlög Macbeths líka óumflýjanleg. En hann stóð í þeirri trú, að hann gæti hagrættörlögunum sér í hag. Og í því var fall hans falið.
Sumir eru berdreymir, dreymir fyrir daglátum. Við þekkjum dæmi þess úr okkar eigin fornbókmenntum. (Við vitum strax í upphafi Laxdælu, hver verða örlög Guðrúnar Ósvífursdóttur, svo eitt kunnuglegt dæmi sé tekið. En ekki hvarflaði að neinum að reyna að hrófla við þeim). Aðrir sjá fyrir óorðna hluti, trúa á stokka og steina, eða trúa á verur, sem tala til þeirra úr myrkraskotum og segja fyrir um framtíðina, leggja jafnvel álög á fólk.
Úr Machbeth
Í Macbeth birtast okkur strax í upphafi þrjár nornir á sviðinu – Ljótt er fagurt, fagurt ljótt –og þær gefa tóninn um það sem verða vill.Eitthvað ógnvekjandi er í aðsigi. „Eru þær tálsýn, eða í raun og veruþað sem sjá má?“, spyr Bankó, félagi og vinur Macbeths. „Segja flögðin satt?“ – „Eða bitum við í brjálsemisins rót og misstum ráð og rænu?“Bankó er augljóslega efahyggjumaður,ekki auðtrúa, eins og Macbeth, sem verður„stjarfur, sem í leiðslu“. Hann er óðar farinn að plotta í huganum, ætlar að storka örlögunum. Og maður spyr sig í lokin: hefði hvarflað að Macbeth að myrða Dúnkan, konunginn, ef nornirnar hefðu ekki orðið á vegi hans og hann lagt trúnað á orð þeirra?
Staðreyndin er hins vegar sú, að bæði Macbeth og Bankó voru ekki bara uppdikteraðir af Shakespeare, heldur voru þeir uppi í Skotlandi um það leyti, sem Ísland var að byggjast. Þeir báru báðir ábyrgð á dauða Dúnkans, konungs Skotlands. Það er víst líka staðreynd, að allir konungar breska konungdæmisins vorulengi vel beinir afkomendurBankós. Og þá liggur í augum uppi skýringin á því, hvers vegna Shakespeare leysir Bankó undan allri ábyrgð á morði Dúnkans í leikritinu. Shakespeare þurfti peninga til að geta rekið leikhús í London, og James 1, Englakóngur á hans tímum,var mikill leikhúsmaður og örlátur á fé við listamenn. Shakespeare sjálfur hagræðir sem sé sögunni!
Úr Machbeth
Macbeth var hinn grimmi einræðisherra, sem hugsaði eingöngu um eigin hag, aldrei um þjóðarhag. Hann sveifst einskis, lét drepa ímyndaða andstæðinga, alla þá, sem ógnuðu völdum hans og öryggi.Dúnkan, konungur Skotlands, sem fellur fyrir hendi Macbeths, var farsæll konungur „hafði ætíð ríkt í mildri ró ávaldastól“, að sögn Macbeths sjálfs. Bankó, besti vinur hans, hlýtur sömu örlög, „því óttiminn við Bankó nístir mig. Það er í eðli hans eitthvað konunglegt, sem skelfir mig“. Þurfum við að segja meira? Blindur metnaður rekur menn til níðingsverka.
Macbeth er ódauðlegt verk og á jafnmikið erindi við okkur í nútímanum og það átti, þegar það var skrifað, seint á 16. öld. Við þurfum ekki annað en að líta í kring um okkur, fylgjast með fréttum hvaðanæva úr heiminum, til að horfa upp á viti firrta, sjálfskipaða einræðisherra murka lífið úr ímynduðum óvinum, hvort sem það eru saklaus börn, konur eða karlar. Og það sem verra er, þeir lifa endalaust, enginn virðist dirfast að lyfta fingri, hvað þá að ota að þeim byssusting eða skera þá á háls til að stöðva óhæfuverkin. Ásýnd þeirra birtist okkur á sjónvarpsskjánum í samtímanum eða í annálum blóðugustu skálmaldar allra tíma, tuttugusta aldarinnar. Vitfirring þeirra er alger, samviskan dauð, iðrun óhugsandi.
Úr Machbeth
Í rauninni standa nornirnar utan við mannlegan skilning, þær eru eins konar tákngerving okkar verstu synda – synda, sem fáir þora að horfast í augu við. Þær eru hið illa, djöfullinn í mannsmynd.Í þessu verki afhjúpar Shakespere miskunnarlaust afskræmingu mannlegs hugarfars hinna siðblindu valdaræningja. Hann lýsir freistingu valdsins, fallinu og síðan maklegum málagjöldum undir lokin.Í þeim skilningi nær réttlætið fram að ganga.
Og Shakespeare leiðir fram Macbeth og lafði hans til að takast á við þetta erfiða hlutverk. Það eru líklega engin hlutverk í samanlögðum leikbókmenntum heimsins jafneftirsóknarverð og einmitt þessi tvö.Hápunktinum á leiklistarferlinum er náð, allt sem á eftir kemur, verður bara föl eftirlíking af því sem einhvern tíma var. Hlutverkin krefjast hins ofurmannlega, að maður gefi allt og skilji ekkert eftir. Einn falskur tónn rýfur trúnaðarsamband leikarans við áhorfendur.Viðerum öll neydd til að horfa um stund inn í kviku mannsálarinnar, upplifa lostann, syndina, angistina, óttann, efann, hatrið – að lokum niðurlægingu refsingarinnar.
Það sem gerir jólasýningu Þjóðleikhússins spennandi, er hin stöðuga skírskotun til hins glórulausa nútíma. Við erum stödd í tímalausu rúmi, þar sem aðeins einn venjulegur eldhúsvaskur rýfur tómleikann. En þessi vaskur gegnir veigamiklu hlutverki. Þar reyna ódæðismennirnir með sínar flekkuðu hendur að þvo þær hreinar af verkum sínum. – „Við hreinsumburtu verkið með smá vatni. Það er allt og sumt“, segir lafðin. – „Sæktu þér nú vatn og þvoðu´af höndum þessa grófu sönnun!“„Burt, djöfulsblettur. Burt segi ég!“ – En eitt magnaðasta sjónarspil sýningarinnar var, þegar drottningin sjálf settist upp á vaskinn í örvæntingu sinni og kastaði af sér vatni – í stað þess að kasta upp!
Annað sjónarspil stendur mér ljóslifandi fyrir hugskotssjónum.Nýkrýndur kóngur Skotlands og spúsa hans taka á móti gestum í höllinni. Bankó er allur. Borðinu er rennt fram á sviðið, hlaðið kristal og kertum, þungt og íburðarmikið. Gestir allt um kring (sá ég rétt, að feðgarnir Dúnkan, Malcolm og Donalbein væru þarna í statistahlutverkum?!) Geðveikt flott gjörningur. Einkum í lokin, þegar þernan dregur borðið út af sviðinu með konungshjónin í lostafullum faðmlögum á hvítum dúk.
Klæðnaður leikara er líka tímalaus. Kórónan er það eina sem minnir á hinar myrku miðaldir. Lafði Macbeth gæti verið drottning allra tíma, og hermenn konungs mundu sóma sér vel, hvort sem væri í Írak, Kosovo, Kolumbíu, Palestínu eða Sýrlandi.Notkun sjónvarps til að koma á framfæri fréttum af atburðum líðandi stundar færir atburðarásina inn í samtímann og losar okkur, áhorfendur, undan því melodrama, sem tilbúnar aftökur á leiksviði eru. Það sem sést á sjónvarpsskerminum gefur nóg til kynna. Tónlistin tilheyrir líka nútímanum, gott ef hún var ekki það sem við köllum framúrstefnuleg. Stundum voru hljóðin ógnvekjandi, fyrirboði hins voveiflega, stundum argapopp, tákn hins hjákátlega.
Ég hef í farangrinum nokkrar uppfærslur af Macbeth. Þessi er ólík þeim öllum – sérstök. Og hvað er svona sérstakt? Það er þessi sterka skírskotun til samtímans – út yfir gröf og dauða sögunnar. Það er frumleikinn, sem birtist í því, hvernig nútímatækni og viðmið eru notuð til að koma atburðarásinni til skila til samtímans, en við það verður hún raunsærri og reyndar ennþá ógnvænlegri en hún væri í gervi gamallar sögu. Og svo er það þessi sterka líkamlega nánd, sem einkennir uppfærsluna frá upphafi til enda. Spennan, lostinn, ástin, hatrið – allar þessar frumkenndir mannskepnunnar birtast okkur í leik Björns og Margrétar í allri sinni nekt. Það lætur engan ósnortinn. Þau eru, þrátt fyrir ungan aldur, bæði tvö trúverðug í hlutverkum sínum. Án þess væri sýningin glötuð.
Svo get ég ekki látið hjá líða að nefna hlut Ólafíu Hrannar og Þórunnar Örnu Kristjánsdóttur í hlutverkum dyravarðar og þernu Macbeths. Nauðgunarsenan minnti í Balkanstríðið í bakgarði Evrópu fyrir nokkrum árum. Og það er sjaldgæft að sjá leikara gera mikið úr litlu, eins og Þórunni tekst hvað eftir annað í hlutverki þernunnar.
Einn er þó leiður ljóður á þessari sýningu. Enn gerist það, að bæði textameðferð, framsögn og raddstyrk leikaranna er ábótavant. Það er þeim mun verra, sem splunkuný og listileg þýðing Þórarins Eldjárns á betra skilið. Hér verður leikhúsið einfaldlega að fara að taka sér tak.