„Betri eru tveir en einn“

Borgarleikhúsið frumsýnir: Mýs og menn eftir John Steinbeck

Leikstjórn: Jón Páll Eyjólfsson
Aðstoðarleikstjórn: Jón Atli Jónasson
Leikmynd: Ilmur Stefánsdóttir
Búningar: Ilmur Stefánsdóttir, Anna Kolfinna Kuran
Tónlist: Davíð Þór Jónsson
Lýsing: Björn Bergsteinn Guðmundsson
Hljóð: Gunnar Sigurbjörnsson
Leikgervi: Margrét Benediktsdóttir

„Betri eru tveir en einn, með því að þeir hafa góð laun fyrir strit sitt. Því að falli annar þeirra, þá getur hinn reist félaga sinn á fætur, en vei andstæðingnum sem fellur og enginn annar er til að reisa á fætur“.

Þessi tilvitnun í hinum ævaforna texta Prédikarans var John Steinbeck mjög hugleikin. Hann vitnar til þessara orða í höfuðverki sínu, „Þrúgum reiðinnar“. Þrúgur reiðinnar eru tímamótaverk. Óbrotgjarn minnisvarði um Kreppuna miklu á fjórða áratug liðinnar aldar, þegar hið kapitalíska hagkerfi Bandaríkjanna hrundi til grunna með skelfilegum afleiðingum. Fjármálakerfið hrundi, bankar urðu gjaldþrota, sparifé almennings glataðist. Meira en fjórði hver maður missti vinnuna. Skuldum vafnir bændur misstu jarðir sínar og fóru á vergang. Örvæntingarfull barátta uppflosnaðra manna og kvenna, sem breyst höfðu í öreigalýð farandverkamanna, er rauði þráðurinn í Þrúgum reiðinnar. Á ég að gæta bróður míns? Það er hin stóra spurning allra tíma. Og þegar kreppir að, öðlast sú spurning dýpri og flóknari merkingu, því að hver er sjálfum sér næstur. Baráttan um brauðið gerir mennina grimma og miskunnarlausa.

Þessi saga þjóðar, hrun efnahagslífsins og brostnar vonir, varð Steinbeck að yrkisefni í fleiri verkum. Mýs og menn, sem kom út árið 1937 segir frá tveimur farandverkamönnum, þeim Georg og Lenna, sem þvælast landshorna á milli í leit að vinnu og fótfestu í lífinu. Þeir eiga sér sameiginlegan draum um að mega lifa af landsins gæðum og eru að safna, þótt hægt gangi. Georg er skynsamur og með stórt hjarta, Lenni er lítt gefinn en sterkur sem naut. Þeir eru óaðskiljanlegir vinir, Lenni dýrkar Georg og treystir á hann, Georg verndar Lenna, er honum sem faðir og bróðir. Fallegt samband en erfitt, því að Lenni hugsar eins og barn og kemur þeim félögum oft í bobba með hegðun sinni.

Lenni elskar allt sem er mjúkt viðkomu, en hefur enga stjórn á hreyfingum sínum. Honum finnst gott að finna ylinn af lítilli mús í lófa sér, en ef hún sýnir mótþróa, þá tekur hann á móti, og músin deyr – alveg óvart. Þegar Lenni fær að snerta hár stúlkunnar, sem er mjúkt eins og lítil mús, tekur hann ósjálfrátt á móti, þegar hún sýnir mótþróa. Stúlkan deyr í höndunum á honum – alveg óvart. Georg, vinur hans, á engra kosta völ.

Farandverkamenn eru skrítnir gaurar. Þeir eru á flótta undan sjálfum sér, áreiti hversdagslífsins, berast frá einu býli til annars, þræla dag og nótt, detta í það reglulega, fara á hóruhús á útborgunardegi og hafa skoðanir á öllu milli himins og jarðar. Þeir eru einfarar, sjálfum sér næstir, óttast náin samskipti, og skilja alls ekki af hverju Georg er að púkka upp á þetta ofvaxna barn, Lenna, sem eru honum bara til ama. En þeir eru einmana, og innst inni þrá þeir vináttu og samúð. Það eiga þeir sameiginlegt með okkur öllum hinum – betri eru tveir en einn.

Það er forvitnilegt að skyggnast inn í bústað farandverkamanna og sjá þá lifna á sviðinu hvern á fætur öðrum. Theódór, Þröstur Leó, Þórir, Valur Freyr, Kjartan, Halldór, Sigurður Þór – og hundurinn Máni – hafa greinilega lagt mikla vinnu og andlegar pælingar í þetta þröngt skorðaða karlasamfélag, sem er einhvern veginn utan og ofan við líf venjulegs fólks. Hver og ein persóna er dregin skýrum dráttum, hver er annarri kaldhæðnari, sérviskulegri og – undarlegt nokk – manneskjulegri. Það má næstum því segja, að Theódór Júlíusson vinni enn einn leiksigurinn í hlutverki Candys. Theódór hefur til að bera þessa auðmýkt gagnvart leiklistinni, sem er svo falleg.

Kona Curleys kemur á óvart. Af lestri bókar skyldi maður ætla, að hún væri daðurgjörn og lauslát, einmana og eirðarlaus, en með því að fela Álfrúnu Örnólfsdóttur þetta hlutverk, hefur leikstjóri kosið að fara inn á aðra braut. Hann vill, að kona Curleys veki með Lenna sömu tilfinningar og dýrin í skóginum, sem hann þráir að leggja við brjóst sér og láta vel að. Hún á að vera mjúk eins og músin, kvik eins og kanínurnar og hærð eins og hvolparnir. Hún á að vera grannvaxin, fíngerð, barnsleg, með stór augu og sítt, mjúkt hár. Engin leikkona önnur en Álfrún fellur svo vel að þessum hugmyndum leikstjóra. Hins vegar hefði mátt velja henni fatnað, sem betur hæfði nýgiftri konu en saklausri skólastelpu.

Ólafur Darri er magnaður leikari. Hann fyllir út í sviðið og hefur sterka nærveru. Það er alger sjónhverfing að sjá, hvernig honum tekst að búa til barn úr þessum stóra þunga líkama sínum. Þegar hann brosir, ljóma augun eins og í barni, þegar hann grætur, setur hann upp skeifu eins og barn. Það eina, sem mér finnst orka tvímælis, er málfarið. Þýðing Ólafs Jóhanns Sigurðssonar er falleg og vönduð, en stundum hljómar íslenskan of fullorðinslega úr munni barnsins – ég tala nú ekki um í munni fatlaðs barns.

Hilmar er líka vaxandi í sínu starfi. Hann á ekki langan feril að baki, en allt sem hann gerir, gerir hann vel, af miklum trúverðugleik og lítillæti. Georg stendur Hilmari nærri, leikurinn er áreynslulaus og sannfærandi. Það eina, sem gekk ekki alveg upp að mínu mati var lokasenan. Þar fannst mér Hilmari fatast flugið, því að hann trúði ekki á það, sem hann var að gera. En þar er auðvitað við leikstjórann sjálfan, Jón Pál Eyjólfsson, að eiga.

Jón Páll er með frábæran hóp listamanna sér til samstarfs og skilar mögnuðu verki, en af hverju breytir hann upphaflega textanum? Hann lætur Georg skjóta Lenna úr þriggja metra fjarlægð, í stað þess að standa þétt upp við vin sinn, tala um fyrir honum, leiða hann inn í draumalandið og leyfa honum að deyja með bros á vör. Aðeins þannig er hægt að sætta sig við dauða Lenna. (Til hvers var hundurinn Máni dreginn inn á svið, fengið hlutverk í hendur, nema til þess að kenna okkur, hvernig við deyðum besta vin okkar án sársauka?)

Umgjörðin utan um farandverkamenn og annað útigangsfólk er svolítið yfirþyrmandi í höndum Ilmar Stefánsdóttur. Stórskornir stakkar, sem geyma afrakstur erfiðismanna við að sjá mönnum og dýrum fyrir fóðri, velta fram sviðið og gefa lítið rúm til athafna. En kannski er það líka ætlunin. Farandverkamenn búa þröngt. Þeim er ætlað lítið rými. En lýsing Björns Bergsteins gefur þessum stökkum líf og dulúð við hæfi. Tónlist snillingsins Davíðs Þórs bætir svo um betur með dramatískum undirtón, sem gefur sögunni um mýs og menn fyllingu og unað.

Ég sat á sjötta bekk í Borgarleikhúsinu, svo að ég heyrði vel. Svo geri ég ráð fyrir, að það sé betri hljómburður þar en í eldri byggingu Þjóðleikhússins (en þar sat ég á tólfta bekk á frumsýningu Macbeths og kvartaði undan að heyra ekki). Engu að síður velti ég því fyrir mér, hvort kennslu í raddbeitingu og framsögn sé eitthvað ábótavant í leiklistarskólum nútímans. Ólafur Darri hefur frá náttúrunnar hendi stóran brjóstkassa og hljómmikla rödd og hann sker sig úr að þessu leyti. En það geta allir haft rödd eins og Ólafur Darri, bara ef þeir leggja sig eftir því og fá kennslu.