Panódíl handa þjóðhetjum

Ástarsaga Ormstungu. Frumsýnd í Borgarleikhúsinu 9. Febrúar.

Leikendur:
Benedikt Erlingsson
Halldóra Geirharðsdóttir
Höfundar:
Benedikt Erlingsson, Halldóra Geirharðsdóttir og Peter Engkvist
Leikstjórn: Peter Engkvist
Leikmynd: Hópurinn
Búningar: Hópurinn
Lýsing: Garðar Borgþórsson og Þórður Orri Pétursson
Sýningarstjórn: Christopher Astridge

Það var gaman á þessum árum, þegar Brynja og Erlingur tóku upp á því að byggja „Skemmtihús“ inni í sínum eigin garði í hjarta borgarinnar. Ekkert var þeim ofviða, þessum glaðbeittu hjónum. Þetta skemmtihús varð eins konar ögrun við atvinnuleikhúsin tvö, upplífgandi viðbót við annars heldur fábrotið leiklistarlíf Reykjavíkur. Brynja var engum lík. Hún lét ekki auðveldlega að stjórn, og naut sín best, þegar hún vann sjálfstætt og fór sínar eigin leiðir – bæði frjó í hugsun og hugvitsöm. Gafst aldrei upp.

Húsið er byggt eins og baðstofa, langt og mjótt, og gestum er boðið til sætis beggja megin undir súð. Leikarar verða að taka mið af því, snúa sér á alla vegu eins og í leikhúsum miðalda.

Það var mikill sláttur á Brynju og Erlingi á þessum árum og oft glatt á hjalla í skemmtihúsinu. Þarna sá ég í fyrsta sinn leikrit Brynju um Guðríði Þorbjarnardóttur, víðförlustu konu miðalda, og seinna Gunnlaugssögu Ormstungu í leikgerð Benedikts sonar Brynju og skólasystur hans Halldóru, sem voru bæði nýútskrifuð þegar hér var komið sögu. Þessi verk vöktu athygli langt út fyrir landsteinana og nutu vinsælda árum saman.

Mig minnir, að ástarsaga Ormstungu hafi verið einþáttungur og þó nokkru styttri en sú sýning, sem frumsýnd var í Borgarleikhúsinu þann 8. feb. s.l.. Hvort lengingin er til bóta, er ég ekki alveg viss um, en engu að síður verður sagan óneitanlega ítarlegri og nákvæmari fyrir vikið. Það er dvalið lengur við einstök atriði, nostrað við þau, og þau lifa í minningunni lengi á eftir. Allt í miniature.

Þegar ég stóð upp að lokinni sýningu, var mér efst í huga hið ótrúlega þrek, hugvitsemi, fimi og farsakennd leikbrögð í túlkun þessarar þúsund ára gömlu sögu frá frumbýlingsárum nýbúa á Íslandi. Það var ekki sagan sjálf, sem fangaði hug minn fyrst og fremst, heldur persónurnar, sem segja okkur söguna, blása í hana lífi og gera hana svo raunverulega, að það jaðrar við að vera óþægilegt. Minnir um margt á Ionesco eða leikhús fáránleikans, sem birtir okkur nýja og óþekkta nærmynd af mannlífinu.

Benedikt segist í viðtali hafa fitnað á þessum sautján árum, – þó nú væri – kannski honum veiti ekki á að taka sig ögn á – hann er á mörkum þess að vera of þungur – ( þó svo hann hafi virst fisléttur á töltinu, rétt eins og riddari beint út úr evrópskri miðaldasögu). Halldóra (eftir nokkur stykki börn) er hins vegar eins og lauf í skógi, flögrar um sviðið, stígur vart til jarðar . tælir og tortímir – flagð undir fögru skinni.

„Ísland, farsælda frón, og hagsælda hrímhvíta móðir, hvar er þín fornaldar frægð, frelsið og manndáðin best?.“ …. Með þessa fyrirmynd Jónasar í huga lærðum við Íslandssöguna, og ég veit ekki til þess, að sögubækurnar hafi hróflað við upphafinni túlkun skáldsins síðan ég var í barnaskóla. „Og þá komu feðurnir frægu og frjálsræðishetjurnar góðu, austan um hyldýpishaf, hingað í sælunnar reit“... Ja, sér er nú hver sælureiturinn! Hrollurinn hríslast um líkamann, þar sem við sláumst í för með aðalpersónunum og skríðum inn bæjargöngin, lág og dimm. Ósjálfrátt grípum við fyrir vitin vegna megnrar fýlu, sem leggur á móti okkur. (Íslendingar ku hafa skorið sig úr á Norðurlöndum vegna andremmu og hlandfýlu!)

Og á hinum helga stað, Almannagjá „þar sem alþingi feðranna stóð“, er ekki beint kræsileg aðkoma. Þar liggja helstu höfðingjar landsins á milli þúfna í eigin spýju eftir svall næturinnar. „Góði gefu mér panódíl“! er það eina sem þeir megna að biðja um, þegar gesti ber að í morgunsárið..

Fréttaútsendingin úr brúðkaupi aldarinnar í Borgarfirði, þar sem bæði Helga hin fagra og Gunnlaugur, vonbiðill hennar, eru í aðalhlutverki, er einhver besta útfærsla, sem maður hefur séð á leiksviði lengi, lengi. Eða þá samtal hjónanna, Aðalráðs Englandskonungs og Queen Emmu – sem ekki sést og enginn heyrir í, en er þó ljóslifandi komin. Það var magnað. (Það samtal sannar okkur líka, að það voru fleiri en við, Íslendingar, sem voru illa gefnir og ódannaðir).

Unglingarnir kvarta undan því, að Íslandssagan sé svo uppskrúfuð og hátíðleg, og að það sé erfitt að einbeita sér við lesturinn. Hvenig væri að bjóða þeim í leikhúsið og sýna þeim, hvað upplifun sögunnar getur verið skemmtileg og uppfræðandi í senn – bara ef maður hefur augun opin og skoðar smáa letrið, eins og þau Benedikt og Halldóra hafa auðsjáanlega gert?