Mary Poppins: Áhorfendur blístruðu – görguðu bókstaflega – af hrifningu

Söngleikur byggður á sögum P.L. Travers og kvikmynd frá Walt Disney
Leikstjórn: Bergur Þór Ingólfsson
Leikmynd og myndband: Petr Hlousek
Hljóðhönnun: Thorbjörn Knudsen
Sýningarstjórn: Pála Kristjánsdóttir
Danshöfundur: Lee Proud
Búningar: María Th. Ólafsdóttir
Leikgervi: Árdís Bjarnþórsdóttir
Aðstoðarmaður danshöfundar: Anthony Whiteman
Tónlsitarstjórn: Agnar Már Magnússon
Lýsing: Þórður Orri Pétursson
Aðstoðarleikstjórn: Hlynur Páll Pálsson
Aðstoð við leikgervi: Sigurborg Íris Hólmgeirsdóttir


Mary Poppins

Ég er af þeirri kynslóð dansara, sem var upp á sitt besta á sjötta og sjöunda áratugnum (þann áttunda var ég flutt vestur á Ísafjörð). Guðlaugur Rósinkranz, (Vestfirðingur með meiru og hið mesta ljúfmenni), réð ríkjum í Þjóðleikhúsinu, og það var hann sem fann upp það snjallræði að setja á svið amríska söngleiki og laufléttar óperettur í lok hvers leikárs – sem gerðu slíka lukku, að fjárhag hússins var borgið langt fram í tímann. Ég man þær varla upp að telja – Nitouche, Káta ekkjan, Sumar í Tyrol, Kysstu mig Kata, My Fair Lady, Stöðvið heiminn, Táningaástir… Gleymi ég kannski einhverri? En þetta var dásamlegur tími (þrátt fyrir prófannir í MR og víðar). Fullt hús á hverju kvöldi.

Fagnaðarlátum ætlaði aldrei að linna. Æfingar hófust á þorranum, og sýningum lauk um það leyti sem sólin rétt tyllti sér við ystu sjónarrönd. Ég man enn, hvað það var nautnafullt að stíga út í sólbjarta sumarnóttina að lokinni sýningu, nýkomin úr sturtu, enn í sæluvímu, sem smám saman rann af mér á leiðinni heim. Nú er kannski tími söngleikjanna runninn upp aftur.

Einhvers staðar segi ég í bók um þessi ár í Þjóðleikhúsinu: „Tekist var á við viðamikla söngleiki og óperur, kannski stundum meira af vilja en mætti – en alltaf af mikilli gleði“. Í atvinnuleikhúsum nútímans vill gleðin oft týnast í rútinunni, ég tala nú ekki um í vinsælum, efnisrýrum söngleikjum, sem ganga kvöld eftir kvöld mánuðum saman og verða endanlega bara að vana.

Þess vegna er svo gaman að geta sagt frá því (og þá þarf ég í rauninni ekkert að segja meira), að Mary Poppins í Borgarleikhúsinu hefur ekki bara viljann – heldur líka máttinn. Þessi uppfærsla hefur bæði til að bera fagmennsku af fyrstu gráðu og smitandi gleði, sem er ekki gefið, að fari alltaf saman. Hún er hnökralaus, þ.e.a.s. Professional, frá upphafi til loka, það klikkar ekkert, hvorki í leik, söng, dansi, tónlist né í mjög svo flókinni tækni. (Þeir eiga mikil lof skilið þessir töframenn baksviðs, sem leikarar verða að treysta á hundrað prósent). Og það var þess vegna sem áhorfendur tókust á loft að loknu hverju atriðinu á fætur öðru, blístruðu – görguðu bókstaflega – af hrifningu, sem jókst eftir því, sem á sýninguna leið.

Leikmyndin – og leikur Péturs Hlousek við myndbönd – er tær snilld. Hann treður okkur inn í þröngan heim bresku yfirstéttarinnar, sem er lifandi dauð, mótuð af viktóríönskum móral (þið munið Upstairs – Downstairs) – fólkið sem Charles Dickens fyrirleit, en gefur samt gott rými fyrir óheftan gleðidans sótaranna, sem tók af öll tvímæli: Við klöppuðum, þar til sveið í lófana þá.

Auðvitað er tónlistin grunnurinn af velheppnaðri sýningu. Og þeir tóku sig vel út í lítillæti sínu, snillingarnir ellefu í glerbúrum til beggja handa við sviðið. Agnar Már Magnússon, hljómborðsleikari og stjórnandi, fór létt með að laða fram það besta í hverjum og einum. Við dilluðum okkur í sætunum í takt við alþekkt stef þeirra Sherman og Drewe.

Í einhverju blaðaviðtali sá ég, að Bergur Þór Ingólfsson,(sem virðist vera flest til lista lagt), átti ekki orð til að þakka Lee Proud (og aðstoðarmanni hans, Anthony Whiteman) fyrir að lyfta sýningunni upp í þær hæðir, sem hún er í. Og það er rétt, öll hópatriðin og dansarnir í sýningunni eru að lokum það sem sker úr um, hvort sýningin er fagleg eða ekki –professional eða púkó. Og það kemur manni á óvart, hversu marga frábæra dansara (sem geta líka sungið) við eigum.

Og jafnvel Gói (Guðjón Davíð Karlsson) dansar eins og engill. Hvar hefur hann lært? Hann og Hansa (Jóhanna Vigdís Arnardóttir) eru auðvitað stjörnur kvöldsins,virðast fædd í hlutverkin, syngja eins og englar og eru mátulega kankvís og létt á bárunni til að sjarmera áhorfendur, af öllum aldurshópum, upp úr skónum. Fara aldrei út af sporinu – maður var með lífið í lúkunum, á meðan Hansa gekk í loftinu yfir höfðum okkar, sisona, eða Gói klifraði upp strompinn eins og simpansi og fór létt með.

En það er ekki nóg að aðalleikarar standi sig – ef einn hlekkur er brotinn slitnar keðjan. Og eins og ég sagði, þá klikkar enginn, jafnvel smáhlutverkin slógu í gegn: Sigurður Þór Óskarsson í hlutverki þjónsins, Þórir Sæmundsson sem gróðafíkill í lánshugleiðingum, Sigrún Edda í hlutverki hinnar ráðagóðu ráðskonu, Hanna María Karlsdóttir, konan með hundinn, og Margrét Eir, sem fór eins og stormsveipur um sviðið, þá stuttu stund sem hún stóð við. Örstutt mynd af fundi bankastjórnar var aldeilis óborganleg (minnti á fræga mynd af fáráðlingum eftir Goya).

Ekki má gleyma að geta Halldórs Gylfasonar, sem virðist vera vaxandi leikari. Hann sýnir okkur af mikilli smekkvísi inn í sálarkima hins lífshrædda yfirstéttardrengs, sem náði loksins að þroskast. Esther Talia er glæsileg leikkona í hálfvandræðalegu hlutverki, sem henni tókst þó að gæða lífi – og að auki er hún frábær söngkona. Börnin komu verulega á óvart (Áslaug Ragnarsdóttir og Grettir Valsson). Þau voru aldeilis óhrædd, með eðlilegan talanda og gott tóneyra. Stóðu öðrum ekkert að baki.

Mér fundust líka búningar Maríu Th. Ólafsdóttur afskaplega spennandi, (ég hefði gjarnan viljað eiga einhvern þessara síðu kjóla – alveg minn stíll). Litasamsetning var góð, ég tala nú ekki um í hópatriðum, þar sem listrænt auga ræður för. Búningar báru þess vitni, að við þá hafði verið nostrað og bætt í fram á síðustu stund.

Þetta er svo sannarlega “fjölskylduvæn” sýning, eins og það heitir nú til dags. Afi og amma, pabbi og mamma, börn og barnabörn, eiga eftir að flykkjast á þessa sýningu, láta heillast af dansi og söngvum, dilla sér í sætunum – og jafnvel læra eitthvað af móral sögunnar. En það er mikið á börn og unglinga lagt að sitja þrjá tíma í leikhúsi – jafnvel þótt uppnumin séu – fram yfir háttatíma. Ég er ekki frá því, að það væri til bóta að stytta sýninguna ögn. Það er eitt og annað, sem mætti alveg missa sig, sérstaklega í fyrri hlutanum, þegar dofnaði ögn yfir undirtektum. En það er ég viss um, að leikstjórinn snjalli kann ráð við þessu.