Tamam Shud – Endalok
Einhver sagði mér, að þessi líkfundur í suðurhluta Ástralíu árið 1948 – sem leikritið Taman Shud fjallar um – hefði vakið heimsathygli á sínum tíma, en að aldrei hefði fengist botn í það mál. Sönnunargögnin hefðu verið látin hverfa, og að málið hefði að lokum gufað upp í kerfinu.
Ég var heldur engu nær, þegar ég stóð upp í lokin, um það hver væri maðurinn á ströndinni eða hvernig hann hefði látist. Og kannski er það með vilja höfunda, því að í leikskrá stendur „…hversu langt er Guðmundur (sögumaðurinn) tilbúinn að ganga í leit að sannleikanum?“
Ég staldraði við þessi orð – aha, Guðmundur segir okkur ekki allan sannleikann. Þorir hann það ekki? Við hvað er hann hræddur? – Með þessar spurningar á vörunum fór ég heim að lokinni sýningu, og það var ekki fyrr en morguninn eftir, sem það rann skyndilega upp fyrir mér ljós. – Auðvitað – Guðmundur var skíthræddur við konuna sína, þorði ekki að segja henni sannleikann. Guðmundur var sjálfur líkið á ströndinni.
Hann „afturgenginn“ var í enta sinn að reyna að sannfæra konuna sína, hana Maríu, (sem gæti þess vegna sjálf verið lifandi ekkja, við sjáum hana aldrei), að hann hafi þrátt fyrir allt verið góður maður – þó svo að hann hafi vanrækt hana alla tíð, hvorki staðið sig sem elskhugi né eiginmaður, aldrei sýnt henni minnstu ástarhót né blíðu, jafnvel gleymt henni, þegar hún þurfti mest á honum að halda. Sem sagt verið ömurlegur eiginmaður, sem hékk úti í bílskúr alla daga og grúskaði í gömlum pappírum. Ófyrirgefanlegt.
Guðmundur er sumsé að reyna að réttlæta sjálfan sig fyrir konu sinni með því að segja söguna af líkinu á ströndinni og útskýra sinn eiginn áhuga og afskipti á því, – án þess að geta sagt söguna eins og hún var. Því að í stað þess að barna eiginkonu sína, sem þráði að eignast barn, hafði hann orðið ástfanginn af ljóshærðri stúlku, sem var í reynd njósnari (´48 var Kalda stríðið í uppsiglingu og njósnarar á hverju strái) í gervi hjúkrunarkonu, og barnað hana. Hvernig átti hann að fara að segja konunni sinni það? Samstarfsmenn stúlkunnar í njósnadeildinni áttu líklega ekki annarra kosta völ en að láta manninn hverfa – njósnarar mega ekki eiga í ástarsamböndum utan hópsins. Líkið rekur svo upp að ströndinni í Somerton. Jafnvel áletrað blað úr gamalli bók, sem finnst í fórum líksins, styður við þessa söguskýringu. Á því blaði stendur Tamam Shud – endalok. Loksins fékk ég einhvern botn í söguna, sem er nokkuð skondið og hugvitsamlegt hugarfóstur höfunda, sem allir eru líka leikarar. Saga þeirra heldur athygli og hefur líf.
Sögumaðurinn, margumtalaður Guðmundur, er Ingi Hrafn Hilmarsson, sem er bæði leikari, leikhúsfræðingur og rithöfundur. Þar að auki er hann leikstjóri sýningarinnar og framleiðandi hennar. Honum er greinilega margt til lista lagt, honum Inga Hrafni. Hann hefur mjög þægilega nærveru á sviði, eðlilegan talanda og skýra framsögn. Hann segir okkur söguna á einlægan og seiðandi hátt, bregður sér í ýmis gervi, en heldur fullkomlega athygli frá upphafi til loka, eins og góðum sögumanni er einum lagið. Hefði eflaust getað haldið athyglinni óskertri aleinn á sviðinu.
En hann er ekki einn, því að félagar hans úr Rose Bruford College í Manchester, þau Áslaug Torfadóttir og Tryggvi Rafnsson eru líka þátttakendur og leysa glettilega vel úr sínum margvíslegu hlutverkum. Mér fannst einhvern veginn samt, að þau hefðu ekki hlotið sömu gagngeru þjálfunina og Ingi Hrafn, svolítið klaufsk í hreyfingum, en þau bættu það upp með leikgleði, sem er svo smitandi.
Það búa miklir hæfileikar með þessari skrítnu þjóð okkar. Sama hvar okkur ber niður, í tónlist, myndlist, ritlist eða leiklist. Leiklistin er að vísu þeim annmörkum háð, að leikarinn þarfnast áhorfenda til að fá að njóta hæfileika sinna. Það er mikið framboð af góðum leikurum, sem aldrei fá að spreyta sig. Og erfiðast uppdráttar eiga þeir, sem hafa menntast í útlöndum – sem ætti þó að geta verið leikhúsunum lyftistöng. Aðeins örfáir útvaldir komast þar inn. Flestir verða að treysta á eigin útsjónarsemi, hafa úthald og seiglu.
Þetta kvöld varð ég vitni að einni slíki tilraun. Leiðin lá upp í hæðirnar ofan við Kópavog, hverfi sem ég hafði aldrei komið í áður. Göturnar heita rómantískum nöfnum, það vantar ekki, Lindarbraut, Fitjalind, Funalind… En það var rigningarsuddi og kolniðamyrkur (því að eflaust verða Kópavogsbúar að spara rafmagnið eins og aðrir), og mér fannst ég vera stödd í eyðimörk, þar sem ekkert fær þrifist.
Og þarna innan um einsleitar blokkirnar hefur Kópavogsbær séð sóma sinn í að hola leiklistinni niður. Ja, hérna! Ég veit ekki betur en bærinn hafi byggt myndarlega umgjörð um tónlistina og myndlistina – en hvað kemur til, að leiklistin situr á hakanum? Hún átti þó lengi vel athvarf í Félagsheimilinu og var árum saman mikil búbót í fjörugu menningarlífi bæjarins. Hafði á að skipa frábærum leikurum og frjóum stjórnendum.
Það hlýtur að liggja í augum uppi, að það þarf kraftaverk til þess að halda uppi öflugu listalífi við núverandi aðstæður. Leikhús þarf að vera í göngufæri við andlega grósku, í grennd við kaffihús og bari, þar sem umræðan heldur áfram og nýjar hugmyndir fæðast. Leikfélag Kópavogs hefur starfað í meira en fimmtíu ár – það á betra skilið. Og ungt fólk, sem er að reyna að hasla sér völl, reyna að lifa af við erfiðar aðstæður, á betra skilið. Það finnst mér.