Hundalógík

Fullt hús í Þjóðleikhúskjallaranum sýnir Hundalógík
Leikstjórn: Bjartmar Þórðarson
Þýðing: Jón Stefán Sigurðsson og hópurinn
Ljósahönnun: Lárus Björnsson
Hljóðhönnun: Bjartmar Þórðarson
Sviðsmynd og búningar: Hópurinn

Hundalógík – er það ekki samheiti yfir tómt rugl (svona eins og íslensk pólitík er nú til dags)? Mér finnst þessi samlíking, satt að segja, ekki sanngjörn gagnvart hundum. Hundar eru einmitt mjög „lógískir“ – sjálfum sér samkvæmir. Það er eiginlega þeirra eðli– og líklega það sem gerir mennina svo hænda að þeim. Sér um líkir sækjast þeir, einfeldningslegir og útreiknanlegir.

Tveir litlir hundar hafa orðið innilyksa á okkar heimili. Þeir sáu bara enga ástæðu til að fylgja eigendum sínum, þegar þeir höfðu vistaskipti – og sitja sem fastast. Þeir eru alveg ótrúlega klárir. Oftast liggja þeir eins og dauðir í þægilegasta stólnum , þ.e.a.s. svo lengi sem ég er í morgunkjólnum, ótilhöfð, með úfið hár og tebolla í hendinni. En um leið og ég tek fram varalitinn og greiðuna, rísa þeir upp við „dogg“ eða rjúka upp til „handa“ og fóta, titrandi af spenningi. – Æ, Æ, hún ætlar að yfirgefa okkur, skilja okkur eftir aleina. Það má ekki verða. – Og þeir þjóta fram í forstofu og standa þar bísperrtir með tilhlökkun í augnaráðinu, staðráðnir í að láta mig ekki sleppa – eða fá að slást í för, ella. Hundarnir hegða sér nákvæmlega eins og mín eigin börn gerðu fram að þriggja ára aldri – sams konar lógík. – Sams konar viðbrögð og sams konar vonbrigði.

Ég var því spennt að sjá sýningu leikhópsins Fullt hús á nýþýddu áströlsku verki eftir Christopher Johnson, sem hefur verið áberandi að undanförnu. Það hefur leikstjórinn að sýningunni reyndar líka verið hér heima, Bjartmar Þórðarson, sem virðist fundvís á spennandi verk, sem höfða til nútímafólks, hófstilltur smekkmaður í vinnubrögðum.

Hundar eru í öllum hlutverkum – meðal annarra göfugir hundar eins og terrier, rottweiler, afgantík og íslenskur fjárhundur. Í þennan hóp blandast svo illa hirtur flækingshundur, sem nýtur ekki mikillar samúðar í mannheimum, sísvangur með kláðamaur á bak við eyrun.

Uppsetningin er einföld og snjöll, plássið er lítið, rauðir plussstólar allt í hring, og hundarnir hópast í miðjuna. Tónlistin er angurvær og þægileg. Á gólfinu eru mjúk skinn og gamlar teppadruslur, sem eru einmitt í svo miklu uppáhaldi hjá fjórfætlingum – bara ef húsbóndinn er nærri. Rauði liturinn og dempuð lýsing skapa hlýlega og góða stemningu strax í upphafi.

Ykkur finnst kannski ólíklegt, að hundar geti verið sprækir sagnaþulir, en svei mér þá, þessum útsmognu og hámenntuðu leikendum (allir útskrifaðir úr fínum skólum í útlöndum) tókst alla vega á augabragði að hrífa áhorfendur með og halda athygli frá upphafi til enda. Hugsið ykkur, og bara hundar, sem koma við sögu – fyrir utan „manneskjuna“!

Terrierinn Jack (Jón Svavar Jósefsson, skólaður óperusöngvari) stígur greinilega ekki í vitið. Það komst ekkert annað að hjá honum nema éta og ríða, eða ríða og éta (eða hjakka eins og ríða heitir á hans hundamáli). Annaðhvort svangur eða graður – en ævinlega kátbroslegur. (Guði sé lof, að maður situr ekki uppi með terrier!)

Ég á heldur ekki rottweiler (Jón Stefán Sigurðsson), sem er augljóslega engu gáfaðri en terrierinn. Hann er stór og sterkur, en kann ekkert með vald sitt að fara. Líf annarra hunda (manna) einskis virði, en húsbóndahollur út yfir gröf og dauða. Hver þekkir ekki þessa týpu?

The Golden Retrievertíkin, Maddie, (Ólöf Hugrún Valdimarsdóttir), er voða sæt og hugljúf, eins og hún á kyn til, enda hún sú eina, sem laðar fram tár áhorfenda. Það er þegar hún rekur sorgarsögu sína og örlög afkvæmanna, sem voru rifin úr hennar mjúka faðmi. Mikil sorg sem hún ber í hjarta. (Svona vanmetum við móðurástina).

Flækingshundurinn eða blendingurinn Blackie (Ingi Hrafn Hilmarsson) er reynsluríkastur og gáfaðastur í samanburði við alla þessa dekruðu hunda af fínu kyni. Það fer ekki á milli mála. Enda hefur hann átt erfiða ævi, svo umkomulaus í allsleysi sínu, vinur vina sinna, og harmar horfna ást sem aldrei var.

Og hvert er svo höfundur að fara? Getur verið, að hann sé að benda okkur á, að það sé kannski ekki ýkjamikill munur á hunda- og mannlífi, þegar allt kemur til alls? Að eta, drekka, míga, skíta og ríða – kannski drepa, ef í harðbakkann slær. Maður kemst ekki af með minna, en kemst þó af með þetta. Eru þetta ekki frumþarfir mannskepnunnar rétt eins og fjórfætlingsins? Eftir hverju sækist maðurinn hjá hundinum? Aðdáun – sem hann fær ekki frá öðru fólki? Hollustu og tryggð, sem hann getur ekki reiknað með í mannheimum? Skilyrðislaus hlýðni? Hefur nokkur heyrt af hundi sem hefur gagnrýnt húsbónda sinn? Eða afhjúpað lesti hans?

Sumir menn (eins og t.d. minn) segjast hænast að köttum, en hafa takmarkað dálæti á hundum. Af hverju? Það er af því að kötturinn hefur aldrei gerst manninum undirgefinn. Hann heldur fast í sjálfstæði sitt og fer sínar eigin leiðir. Sambýli hans við manninn er byggt á málamiðlun, allt að því á jafnréttisgrundvelli. Enda eru mörg dæmi þess, að kettir beri takmarkaða virðingu fyrir hundum, umberi þá í besta falli, þótt hvimleiðir séu. Ætli það mundi ekki vefjast fyrir höfundi þessa verks að endurspegla mannlífið jafn auðveldlega í heimi kattarins? Þess vegna er eiginlega út í hött að segja, að allt í sé farið í hund og kött. En væri það ekki verðugt verkefni fyrir leikhópinn – fyrir fullu húsi?

Þetta kvöld í kjallara Þjóðleikhússins hlógu áhorfendur dátt að hundsspottum. En vorum við ekki í reynd að spotta sjálf okkur? Við hlógum og hlógum – en vorum við ekki einmitt bara að hlæja að sjálfum okkur?

P.S Mér finnst það glæsilegt hjá húsráðendum Þjóðleikhússins að láta frjálsum leiklistarhópum eftir þetta litla skot í kjallaranum endurgjaldslaust. Við eigum slíkan fjölda hámenntaðra leikara frá bestu skólum Evrópu og Ameríku, sem ganga um atvinnulausir. Þá hungrar og þyrstir eftir að láta ljós sitt skína, vera með í umræðunni, hræra upp í okkur. Þarna opnast tækifæri fyrir annars konar leikhús, smærra í sniðum að vísu, en engu að síður mikilvægt í hinu andlega víravirki.