Draumur á Jónsmessunótt – eftir William Shakespeare

Útskriftarverk Nemendaleikhússins
Leikstjóri: Stefán Jónsson
Búningar: Agnieszka Baranowska
Tónlist: Úlfur Hansson
Leikmynd, lýsing og myndvinnsla: Egill Ingibergsson

Hvað er í gangi eiginlega? Ég sé ekki betur en, að lokaprófsnemendur í leiklistarakademíunni verði æ fallegri með hverjum nýjum hópi, sem bætist við (þessir ættu eiginlega að taka stefnuna beint á Hollywood – þeir gerast ekki fallegri í henni Amríku).


Draumur á Jónsmessunóstt

Og ég sé heldur ekki betur en, að þeir hafi verið að læra heilmikið í skólanum sínum. Þessi tíu manna hópur, sem nú kveður kennara sína og leggur af stað í óvissuferð, hefur fengið gott vegarnesti, sem ætti að gagnast vel í hörðum heimi leiklistarinnar. Ég heyrði ekki betur en hver og einn hefði fullkomið vald yfir röddinni, sem var bæði öguð, styrk og hljómmikil. Það bendir til þess, að þeir hafi haft menntaða kennara og fengið góða tilsögn.

Það vakti líka athygli, að allir þessir krakkar hafa gott vald á líkama sínum og sýna frábæra tilburði, ekki bara einhver einn heldur allir. Á köflum var þetta meir í ætt við „show“, alger munaður fyrir augað. Hver skyldi hafa verið kóreógrafinn? Varla Stefán sjálfur, eða hvað? Geggjað flott!

Vel á minnst – Stefán Jónsson. Hann er búinn að starfa lengi með ungu fólki, og honum lætur það greinilega mjög vel. Hann kemur til móts við leitandi sálir unglinga, sem ekkert vita og ekkert kunna, hann opnar þeim nýja sýn á meistara heimsbókmenntanna, eins og góðum kennara sæmir. Jafnvel Shakespeare verður þeim leikandi tamur, ljúfur og léttur. Ekkert að óttast í návist meistarans, enginn hræddur.

Og Stefáni lætur líka vel að nýta lítið rými, leita uppi góða fagmenn, sem hafa lausnir á reiðum höndum, eins og við sjáum skýrt dæmi um í gömlu verksmiðjunni við Sölvhólsgötu. Ótrúleg hugkvæmni, sem blekkir augað og lætur okkur trúa því, að við séum ýmist gestir í höllu hertogans eða meðal álfanna í skóginum.


Draumur á Jónsmessunóstt

Daðrandi, en magnþrungin tónlistin hrífur okkur burt frá hversdagsleikanum yfir í ímyndaða veröld skógarpúkanna, þar sem allt er leyfilegt. Og munúðarfullir búningar undirstrika rækilega ilmandi ástarbríma, sem teygir sig eins og kitlandi fingur yfir til áhorfenda.

Það væri að æra óstöðugan að reyna að rekja flókinn söguþráð draumsins á Jónsmessunótt. Það er talið líklegt, að Shakespeare hafi skrifað verkið að beiðni Elísabetar drottningar eða samkvæmt pöntun frænda hennar, sem ætlaði að halda brúðkaup dóttur sinnar. Og skáldið fer á flug, um hvað snýst hjónaband, hvað er ást, hvað er erótík, hvað er klám? Hvað er ekta, og hvað er plat? Á þessum tímum voru það feðurnir sem réðu örlögum dætra sinna. Þeir gáfu þær – eða seldu – hæstbjóðanda. Ástin snerist upp í grímuklæddan samkvæmisleik, þar sem kynhvötin varð að lúta lægra haldi fyrir ströngum siðareglum hirðarinnar. Allt var njörvað niður. Konan ófrjáls í eigin ranni.

Draumurinn á Jónsmessunótt snýr þessu öllu á hvolf. Léttúðugt daður snýst upp í andhverfu sína og nauðgunin fullkomnar verkið. Draumurinn verður villtari en jafnvel harðsvíruðstu perrar og porno unnendur geta ímyndað sér – hvað þá siðprúðar hreinar meyjar, sem sitja í festum og bíða þess að finna konuna í sjálfum sér.

Draumur á Jónsmessunóstt

Og þar mætast tímarnir tvennir, nú og þá. Lokadansinn, hin kynóða orgía, gæti verið bein útsending „from one night stand in Reykjavík“.

Daginn eftir láta allir eins og ekkert hafi gerst. Allt er aftur eins og það var. Hin fordekraða yfirstétt skálar í kampavíni, daðrar og duflar, og bíður þess, að leiksýningin (í leikritinu) hefjist. Og aftur er fjallað um ástina, en nú er ástin ekki samkvæmisleikur, heldur dauðans alvara. Elskendur láta báðir lífið. Og hinum fodekruðu leiðist alvaran, nenna ekki að horfa á leik, sem endar illa. Enda ómenntað pakk, sem getur ekki einu sinni talað rétt mál og býður upp á tragíska komedíu – eða komíska tragedíu. Yfirstétt og öreigar – haf á milli.

Ég vil ekki gera upp á milli leikenda, ég varð eiginlega skotin í þeim öllum með tölu. Og ég vona bara, að við eigum eftir að sjá meira til þeirra í framtíðinni (þ.e.a.s. ef þeir taka mig ekki á orðinu og fara til Hollywood). Þeir voru eiginlega allir í aðahlutverkum og slógu í gegn. (Mér fannst þó synd að leyfa okkur ekki að sjá meira til Hildar Berglindar, sem lofaði góðu strax í upphafi, en hvarf svo á bak við múrvegg undir lokin.

En í lokin segi ég, og tek undir með Stefáni í ágætum inngangi hans í prógramminu:

Megi draumar rætast í lífi og list.