Það var alla vega hlýtt og notalegt í íbúðinni, sem okkur var vísað í – hátt til lofts og stórir gluggar, rósettur í loftinu, nítjándu aldar bragur. Það beið okkar við dyrnar brosandi stúlka, Modesta, sem afhenti okkur lyklana, sagði okkur frá einu matvöruversluninni í götunni og kenndi okkur á tæknina – nettengingu, fjarstýringu, öryggiskerfi og þvottavél. – Mikið getur maður stundum verið heimskur frammi fyrir einföldustu hlutum, sem allir aðrir skilja eins og skot – Nema hvað, að það kjaftaði hver tuska á Modestu, sem reyndist vera bráðskemmtileg og harðgreind. Hún stundar hagfræðinám við háskólann með vinnu hjá leigufyrirtækinu og fer létt með það, segir hún.
Hún sagðist vera einkabarn foreldra sinna, sem bæði fæddust í lok heimstyrjaldarinnar síðari í hernumdu og lokuðu landi. Afi hennar var stöndugur bóndi, sem neitaði að yfirgefa jörð sína og láta í hendur Rauða hersins undir væntanlegt samyrkjubú. Þá var faðir hennar aðeins fimm ára, og skömmu seinna var fjölskylda hans flutt nauðungarflutningum til Síberíu í gulagið. Þar ólst hann upp í stórum hópi systkina. Síðar meir, þegar harðstjórnin slakaði á klónni, fékk hann tækifæri til að læra til verkfræðings. Ekkert hinna systkinanna lifði af þessi ár í Síberíu. Hann einn komst til baka seint og um síðir og byrjaði þá með tvær hendur tómar.
Mamma Modestu var lengst af yfirlæknir á spítala í Vilníus, en er nú komin á eftirlaun og saknar góðu gömlu daganna, á meðan allt var í föstum skorðum, allir fengu vinnu að loknu prófi, frítt húsnæði og þurftu ekki að hafa áhyggjur af veraldarvafstri. – Nú er allt á hverfanda hveli, segir hún, enga vinnu að fá, ekkert öryggi. Hvaða máli skiptir frelsið í samanburði við allt hitt sem við misstum? – Mamma saknar þess sem var, án þess að skilja til fulls, hvað við höfum uppskorið í staðinn, segir Modesta og hlær þessi ósköp.
Ég var bara búin að vera tvo tíma í landinu, en nú vissi ég allt um Modestu og landið hennar, sem við ætluðum að setjast að í um hríð. Þetta minnti mig strax á veru mína í Finnlandi. Fólk sem ég þekkti ekki neitt, var ekki fyrr búið að taka í höndina á mér, en það fór að tala um Vetrarstríðið og afa, sem hafði dáið hetjudauða í skógum Karelíu, eða ömmu, sem hjúkraði særðum og var að lokum sæmd æðstu orðu finnska ríkisins. Mér fannst stundum eins og sagan stjórnaði lífi Finna, að allar fórnirnar, sem voru færðar, allt blóðið, sem rann endur fyrir löngu, rynni enn í æðum þeirra og brýndi þá til dáða. Finnar eru ótrúlegt fólk.
Og það eru Litháar reyndar líka. Þeir hafa þessa óræðu sálardýpt – einhverja dulda lífsreynslu sem skilar sér í daglegu lífi, viðhorfum og afstöðu.
Lífsreynsla Litháa sem þjóðar er miklu skelfilegri en okkur hin órar fyrir. Heilu stéttirnar – menntamenn, skáld, rithöfundar, kennarar, tónlistarfólk, stöndugir bændur – allir sem einhvers máttu sín í þjóðfélaginu, voru þúsundum saman, fluttir nauðungarflutningum til Síberíu. Þar var þeim kastað út í ískalda óvissuna, klæðlausum og allslausum, áttu hvergi höfði sínu að halla, ekki húsaskjól einu sinni. Stalín ætlaði sér að útrýma tungumáli og menningu þjóðanna við Eystrasalt. Og í staðinn fyrir þá, sem voru sendir brott, voru fluttir inn Rússar – það átti að rússavæða þessar þjóðir. Reyndar átti að búa til nýja manntegund: homo sovéticus – hinn nýja Sovétmann. Hann átti að vera hafinn yfir þjóðerni og eignarétt, en búinn til í vítislogum ofbeldis.
Og á sama tíma og allt þetta – þessir hræðilegu atburðir – eru að gerast í Eystrasaltslöndunum – sem eru ekki svo ýkja langt í burtu, hvorki í tíma né rúmi – þá er ég bara lítil fáfróð stelpa í Norðurmýrinni, sem lifir áhyggjulausu lífi – gleðst yfir fánýtum hlutum eins og glænýju og glansandi reiðhjóli, án þess að hafa hugmynd um, að það er verið að þurrka út af landakortinu þrjú lönd í okkar heimsálfu. Enginn vissi neitt, eða hvað? Og það líða mörg ár, öllu er haldið leyndu. Það ekki fyrr en eftir að þeir hafa endurheimt sjálfstæði sitt árið 1991, að þeir, sem voru hólpnir og lifðu af, þora loksins að tjá sig og segja frá þessum ótrúlegu grimmdarverkum.
Sumir vilja auðvitað helst gleyma. Hvað kemur okkur sagan við? – spyrja þeir. Horfum til framtíðar. Margir hafa eflaust sektarkennd. En segir ekki einhvers staðar: sá sem ekki þekkir fortíðina, á enga framtíð? Svo eru aðrir sem þrá að fá að tjá sig – yrkja ljóð, tala í tónum, mála myndir, segja sögur.
Ruta Sepetys er ein þeirra. Hún er önnur kynslóð brottfluttra Litháa, ólst upp í Michigan, en sneri aftur til að skrifa sögu forfeðra sinna. Bókin, sem heitir á ensku „Between Shades of Gray“ (Penguin Books), kom út fyrir tveimur árum (2011), en er nú metsölubók og hefur verið þýdd á yfir fjörutíu tungumál. Ég gat ekki slitið mig frá bókinni, fyrr ég hafði lesið hana alla – grátandi.
Önnur nýleg bók (2009), sem er talin ein merkilegasta heimild um þessa tíma, er „Forest Brothers“ (Central European University Press, Budapest) . Hún er ítarleg frásögn af atburðum í lífi þjóðar eftir 1945, þegar Bolsjevíkar ráðast til atlögu gegn Eystrasaltslöndum, og litháiska andspyrnuhreyfingin verður til. Höfundurinn, Juozas Luksa, var einn af áhrifamestu félögum hreyfingarinnar. Hann var tvisvar sinnum sendur gangandi yfir landamæri Póllands til að leita aðstoðar í vestri. En enginn vildi hlusta á hann. Hann skrifaði bæði til Sameinuðu þjóðanna og páfans í Róm – á latínu. Líklega trúði honum enginn – eða vildi ekki trúa. Luksa féll að lokum fyrir hendi Bolsjevika í heimalandi sínu.
Báðar þessar bækur hefðu verið bannaðar fyrir nokkrum árum. En nú er allt frjálst – og engum hlíft.
Ég tek eftir því, að söfnin og listagalleríin eru að sýna verk, sem opna gáttir til fortíðarinnar. Marija Teresa Rozanskaité er ein þessara lofsöngvara lífsins, sem lifðu af nauðungarvistun í gulaginu. Nú skipar hún heiðursess í Þjóðarlistasafni Litháa. Myndir hennar lýsa hryllingnum – reynslu frá barnæsku, sem aldrei leið henni úr minni. Verk Mariju Teresu voru bannfærð alveg fram á tíunda áratuginn.
Jafnvel hinn bannfærði Sjostakovits er búinn að leggja undir sig Fílharmóníuna, og Shakespeare og Chekov, húmaniskir skáldjöfrar, fylla Þjóðleikhúsið kvöld eftir kvöld.
Litháar eru á fleygiferð inn í nútímann. Það er engu líkara en að þeir séu að reyna að bæta sér upp allt það, sem fyrri kynslóðir fóru á mis við, feður og mæður, afar og ömmur. Þeir lifa hratt og vilja helst gera allt í gær. Hinir kúguðu rísa upp og fagna frelsi, taka því opnum örmum og vilja njóta þess í botn.
Já, sumir njóta, aðrir ekki. Það er augljóst. Hraðinn lýsir sér til dæmis í umferðinni. Sumir stórir strákar virðast ekki geta hamið sig, fyrr en þeir hafa milli handanna auðsveipt stýrið á glænýjum porche eða ferrari – jafnvel rolls royce. Svei mér þá, ég hef aldrei á ævinni séð glæsilegri bílaskara en hér á götum Vilniusar – sérstaklega í lok vinnudags, þegar skrifstofudömur og bankaskvísur streyma út á göturnar með slegið hár, í níðþröngum pilsum og tuttugu sentimetra háum hælum – til í hvað sem er!
En þegar hraðinn er svona ofsafenginn, hvað verður þá um alla hina, sem nenna ekki – eða geta ekki – tekið þátt í kapphlaupinu? Þeir sitja eftir og lepja dauðann úr skel. Þeir sitja kannski á gangstéttinni við dyrnar hjá mér og horfa á mig bænaraugum. Gamlar konur, sem aldrei áttu þess kost að vinna utan heimilis, ekkjur sem verða að treysta á aðra sér til viðurværis.
Og þegar ég rétti konunni nokkrar lítur (örfáar krónur), grætur hún af þakklæti og biður guð að blessa mig. Ég skil ekki orðin, en ég sé það í augunum á henni.