CASA BRYNDÍS

Húsið hangir utan í háum kletti. Það er eiginlega samgróið klettinum. Aðgengið er bratt. Okkur greinir á um, hvað þrepin eru mörg upp að Radio Salobrena handan götunnar eða upp að hervirki Hannibals (byggt 228 f.kr.), ögn fjær. Ég held það fari eftir hitastiginu, hversu mörg þrepin eru, þegar við þrömmum upp úr þorpinu í neðra. Þetta er sumsé ævafornt Máraþorp. Húsin eru öll nær undantekningarlaust hvítmáluð. Aðrir litir, sem þykja leyfilegir, eru ýmist svartur, á útihurðir og gluggagrindur, eða eirrauður (terracotta) á gluggakarma og stundum á hurðir, ef eigandinn vill skera sig úr.


Miguel gerir við þakið
Og nú stóð til að taka húsið í gegn hátt og lágt. Það var kominn tími til, fimm ár. Svo er líka stórafmæli framundan. Þá verður Casa Bryndís – en húsið heitir það – að tjalda sínu fegursta. Við vorum búin að bera upp aðföng, sem til þurfti: stóra dunka af hvítri útimálningu og aðra minni af innimálningu; svart á útihurðir, eirrautt á gluggakarma og svart lakk á járngrindur fyrir gluggum. Þó nokkur byrði að bera. En nú átti að gera þetta faglega, af virðingu fyrir aldagömlum spænskum hefðum. Þess vegna var kallað á Miguel.

Miguel er morgunhani. Þótt hann þyki ekki aldinn að árum hér um slóðir (67 ára), er hann hættur að vinna, kominn á eftirlaun (jubilado heitir það hér, sem minnir skemmtilega á orðið „að jubilera“, eins og við gerðum í menntó í gamla daga). Hann var áður fyrr verkstjóri yfir áhaldahúsi bæjarins, sennilega múrari í grunninn, en „alt-mulig mand“, þegar á þarf að halda. Miguel ætlaði að taka að sér verkstjórnina, en JBH átti að vera handlangari hjá múraranum, (eins og hann segist reyndar hafa verið einhvern tímann á skólaárunum). Morgunhaninn barði upp á klukkan sjö að morgni. Vinnan hófst með það sama. Tjalddúkar breiddir á gangstéttar allt um kring, svo að hvergi yrði slettur að finna, þrátt fyrir hamaganginn. Svo var rúllað og rúllað og rúllað. Miguel vann sjö tíma í einni lotu fyrir siestu (síðdegishvíld). Þá fór hann heim í hádegismat og hallaði sér, enda hitinn þá orðinn óbærilegur. En hann var mættur aftur til vinnu á slaginu fimm, enda sólin farin að síga. Þá unnu þeir í fjóra tíma. Þetta þýðir ellefu tíma vinnudag. (Eru ekki Þjóðverjar alltaf að rífa kjaft um letihauga, sem flatmagi á ströndum Miðjarðarhafsins og vinni aldrei ærlegt handtak? Þvílíkt bull! Hverjir eru það, sem liggja afvelta á sólríkum ströndum Suður-Spánar? Þjóðverjar – alla vega ekki Spánverjar. Þeir vita betur).

Nema hvað, að loknu dagsverki var húsið alhvítt allt um kring – hvítara en nokkru sinni fyrr.

Á öðrum degi byrjaði „akróbatíkin“ (loftfimleikar). Aðalíverustaður hússins er nefnilega þakið. Það er að hluta umgirt timburverki, sem liggur svo hátt, að hæstu stigar ná ekki upp. Þar að auki er brattinn svo mikill, að stigamennsku verður vart við komið – alla vega hafa þeir þráláta tilhneigingu til að falla undan brekkunni. Við þetta bætist, að reglur Evrópusambandsins banna, að menn yfir 62ja ára aldri séu að príla í lífshættulegum stigum með tilheyrandi kostnaði fyrir hospital systemið, ef illa fer. Hvað er þá til ráða?

Miguel kunni ráð við þessu. Hann lagði stiga frá grindverki handan götunnar með táfesti á sillu við þakbrún hússins. Eftir að þeir höfðu umvafið húsið gömlum sængurfatnaði frá húsfreyju Miguels, til þess að hvergi slettist, prílaði Miguel eins og þrautþjálfaður sirkusartist eftir þessu glæfraverki. JBH hélt við annan endann til öryggis, en sjálf hélt ég á málningardollunni uppi á þakinu, því að Miguel varð jú að halda sér fast með annarri hendinni en mála með hinni. Ef Evrópusambandið hefur eitthvað við þetta að athuga – þá er það bara eftir á – því að þetta er búið og gert. Timburverkið er nú fagurmálað með dökkri fúavörn, sem rímar við hurðina svörtu. Þetta vakti þó nokkra athygli í nágrenninu. Mér segir svo hugur um, að Miguel hafi bætt alin við hæð sína í almenningsálitinu (en hann er ekki mjög hár í loftinu).

Þá var bara eftir dútlið. Hvítt að innan í gestaherbergjum. Svart lakk á gluggagrindur, svalahandrið og útihurð á neðstu hæð. Fyrrverandi formaður Alþýðuflokksins fór létt með þetta. Enda tiltuktaður handlangari múrara, smiða og pípara (og gott ef ekki járnabindingarmanna) úr sumarvinnunni forðum daga. Eftir fjögurra daga törn var kallað á mig að taka út verkið. Ég verð að segja, að mér þótti nokkuð vel að verki staðið af tveimur mönnum, sem samkvæmt reglum Evrópusambandsins er bannað að príla upp í stiga.

Í viðurkenningarskyni grillaði ég eitthvað gott oní þá og gaf þeim ótæpilega með af rauðvínskútnum, sem vinur minn, Manuel olifu- og vínyrkjubóndi í Zujar – tengdafaðir Jóns Sigurðar Eyjólfssonar, Bílddælings, kennara í Priego de Córdova og sumarafleysingarmanns á Fréttablaðinu – laumaði að mér um daginn. Hér um slóðir leggjum við fátt okkur til munns annað en það, sem jörðin eða hafið gefa af sér. Það fer ekki leynt, að Casa Bryndis ber nú af öðrum húsum í hverfinu. Gott ef kellingarnar í hverfinu eru ekki farnar að hafa augastað á þeim félögum, Miguel og JBH, til að halda áfram í viðhaldinu hjá sér.