Af Möltu og Maltverjum

Eftir að ég birti myndina af mér og JB á Möltu fésbókarsíðunni, ætlaði ég alltaf að segja ykkur frá þessari heillandi eyju, segja frá sögu hennar og grimmilegum örlögum í aldanna rás. Ég ætlaði að segja ykkur frá því, hvernig landlausir yfirstéttargæjar víðsvegar úr Evrópu létu greipar sópa og gerðu eyjarskeggja að þrælahjörð. En lifðu sjálfir í vellystingum undir yfirskyni trúrækni fram á upplýsingaöldina.


Bryndís og Jón Baldvin á Möltu

Ég vissi ekki, að Malta væri svona pínulítil, einn stór klettur úr hafi, og eitthvað svipuð á stærð og Reykjanesið okkar heima – þar sem er varla rúm fyrir nokkur þúsund fyrirferðarmikla Suðurnesjabúa. Á Möltu búa yfir fjögur hundruð þúsund manns, svo þið getið ímyndað ykkur, hve þrengslin eru mikil – ég tala nú ekki um á sumrin, þegar tala íbúa margfaldast. Reyndar er eyjan eins og eitt stórt hótel, þar sem eyjarskeggjar keppast við að láta fara vel um gesti sína, sýna þeim virðingu og þjónustulund, alltaf brosandi og glaðir og virðast njóta þess í botn að þjóna og þrífa. Malta hét áður fyrr Melita, en það nafn er dregið af orðinu „miel“, sem þýðir hunang. Hunang er eins konar þjóðarréttur Maltverja, þeir borða það meira að segja með ostum – sem er reyndar hungangsgott.

Svo ætlaði ég líka að segja ykkur frá miðaldaborginni, Mdinu, fyrrum höfuðborg Möltu. Borgin er alhvít og tiginmannleg, hallir í barok stíl, einstaka veitingastaðir og smásjoppur. Annars allt undurhljótt og ljúft. Í Mdinu eru göturnar svo mjóar og skuggsælar og borgarhliðin svo þröng, að enginn kemst í gegnum þau nema hestakerrur (eins og við vorum í) og allra minnstu bílar. Það er reyndar ekki gott, því að innan múranna búa bara örfáir aðalsmenn af fornum spænskum ættum. Slíkir menn aka ekki um í minni bílum en Mercedes Benz, þegar þeir vitja halla sinna yfir sumartímann. Ég veit satt að segja ekki, hvernig þeir eyða tíma sínum í Mdina, sjálfsagt við lestur og veisluhöld! Ekki geta þeir stundað veiðar, því að engir eru fílar eða ljón á eyjunni – aðeins feitar kanínur út um allt. Og mér var sagt, að það væri mjög vinsæl íþrótt að skjóta kanínur sér til gamans og afþreyingar.

En af því að JB tók upp á því að skrifa sjálfur grein um heimsókn okkar til Möltu og segja næstum allt, sem ég ætlaði að segja, læt ég mér nægja að birta hana hér í viðhengi:

Hvað vorum við að gera á eyjunni Möltu? Þetta byrjaði allt saman í seinni heimstyrjöldinni. Milljónir manna voru á flótta þvers og kruss um Evrópu. Allir voru á flótta undan Rauða hernum frá Eystrsasalti og Austur-Evrópu. Þjóðverjar voru á flótta frá Krím, frá Bessarabíu í Rúmeníu, frá Súdetahéruðum Tékkóslóvakíu, Sílesíu og Vesturhéruðum Póllands. Allt þetta fólk var rifið upp með rótum og í örvæntingarfullri leit að stað, þar sem það gæti lifað í friði.

Flóttamannasjóður Evrópu var stofnaður til að liðsinna þessu fólki. Meira að segja Íslendingar (einir fárra þjóða, sem græddu á stríðinu) létu sig varða örlög þessa fólks. Við vorum stofnaðilar að Evrópuráðinu (bækistöðvar í Strassburg, og á ekki að rugla saman við Evrópusambandið) og þar með að flóttamannasjóðnum, sem nú til dags heitir Þróunarbanki Evrópu (CEB- Council of Europe Development Bank).

Þrátt fyrir nafngiftina er þetta eiginlega enn flóttamannasjóður Evrópu. Því að Evrópumenn eru enn á flótta, seinustu árin aðallega á Balkanskaganum. Og Þróunarbanki Evrópu reynir enn að liðsinna flóttafólki. Ekki bara heimilislausum Evrópubúum, heldur líka milljónum manna, sem leita athvarfs í Evrópu frá öðrum heimshlutum. Það þarf að byggja flóttamannabúðir. Það þarf að sjá flóttafólki fyrir rafmagni, vatni, sorphirðu og öðrum lífsnauðsynjum eins og t.d. Skólum fyrir börnin og heilsugæslustöðvum. Venjulegir bankar lána ekki mikið fyrir lífsnauðsynjum. Þróunarbanki Evrópu – þessi gamli flóttamannasjóður hefur það á stefnuskrá sinni að bjarga mannslífum. Ekki bara þeim, sem verst eru settir, heldur þeim, sem eru utangarðs og hafa týnt fósturjörðinni.

Ástæðan fyrir því, að aðalfundur Þróunarbankans var að þessu sinni haldinn í Valetta, höfuðborg Möltu, er sú, að hann hafði lánað í fyrirmyndarsjúkrahús á eynni, sem sinnir ekki bara eyjarskeggjum, heldur líka flóttafólki og fórnarlömbum stríðsátaka vítt og breytt á Miðjarðarhafssvæðinu.

Malta er klettur í Miðjarðarhafinu, suður af Sikiley og norðan við Lybíu. Öldum saman, reyndar um árþúsundir, hafa ráðandi stórveldi tímans sóst eftir fótfestu þar til þess að ráða verslun og siglingum á Miðjarðarhafinu. Það hét reyndar „Mare Nostrum“ á máli Rómverja. Fönikíumenn voru þarna, afkomendur Hannibals í Karþagó sömuleiðis. Rómverski galeiðuþrælaflotinn hafði þar bækistöð. Þegar Feneyingar réðu lögum og lofum á Miðjarðarhafinu og græddu á tá og fingri af verslun sinni við Austrið, voru þeir þarna. Og Tyrkir (Ottomanheimsveldið) gerðu ítrekaðar atlögur að því að ná yfirráðum á Möltu. Seinasta umsátrið stóð árum saman um 1560, en að lokum varð hund-tyrkinn að láta undan síga. Þeir náðu Rhodos, Kýpur, Grikklandi, Balkanskaganum og sóttu að borgarhliðum Vínar. En þeir náðu aldrei Möltu. Það skipti sköpum um yfirráðin á Miðjarðarhafinu.

Það er sérstakur kapítuli í sögu Möltu, hvernig örlög eyjarskeggja tengjast krossferðum kristinna ofsatrúarmanna, sem á Miðöldum vildu frelsa landið helga, og sérstaklega Jerúsalem, úr klóm trúleysingjanna(þ.e.a.s. Áhangenda Múhameðs). Þetta var eiginlega afleiðing af lögum og reglum, sem giltu um erfðarétt landeigendaaðalsins í Evrópu. Aðeins elsti sonurinn gat erft kastala, lendur og yfirráð yfir þrælum (leiguliðum),sem skópu þeim auð. Yngri synirnar urðu að gera eitthvað annað af sér. Það þýddi, að þeir voru sendir í herinn. Á tímabili þótti gróðavænlegt að fara í krossferð til landsins helga (Palestínu). Það var vel séð af kóngum í Evrópu að losna við þessa bófaflokka að heiman. Ef þeim varð vel ágengt með rán og stuld í nafni Krists, gátu þeir átt von á aðalstign með rétti til kastala og tryggrar afkomu af striti þrælanna í heimahögum. Þetta var blómlegur business í nokkrar aldir. Ein reglan, sem sérhæfði sig í krossferðum, var kennd við Jóhannes skírara og hina helgu borg, Jerúsalem. Þessum ofbeldisseggjum fannst svo gaman í Mið-Austurlöndum, að þeir nenntu ekki aftur heim.

Að vísu ráku Tyrkir þennan óaldarlýð af höndum sér, fyrst úr Palestínu, svo frá Anatólíu og burt úr eyjunum í Gríska hafinu, þar með talið frá Rhodos og Kýpur, uns þeir hrökktust, slyppir og snauðir á þennan gróðurvana klett, sem heitir Malta. Þar settu þeir upp krossinn og börðust til síðasta manns. Að lokum nenntu Tyrkir ekki að eltast við þá lengur. Þetta þýddi, að í þrjár aldir eða svo réði þessi musterisriddararegla, kennd við Jóhannes skírara og hina helgu borg, Jerúsalem, lögum og lofum á Möltu.

Helsta auðsuppspretta reglubræðra, fyrir utan arðrán á innfæddum eyjarskeggjum, var sjórán, sem þeir stunduðu á Miðjarðarhafinu með galeiðuþrælum. Þeir sem teknir voru til fanga í orrustum, voru gerðir að galeiðuþrælum. Það þýddi, að þeir voru hlekkjaðir við þóftuna og pískaðir til róðra, þangað til þeir geispuðu golunni. Lífslíkur galeiðuþræla voru að jafnaði átta ár, eða tvö kjörtímabil. Í þrjú hundruð ár rændu og rupluðu krossfarar Krists vítt og breytt um Miðjarðarhafið. Af öllum kirkjum kristindóms í katólskum sið er engin höfuðkirkja eins hlaðin gulli og gersemum frá grunni upp í turnspírur og frá anddyri upp í altari eins og kirkja heilags Jóhannesar skírara, reist af þeim musterisbræðum, sem kenna sig við hina helgu borg, Jerúsalem. Að vísu létu herir Napóleons greipar sópa um þetta kristna gull í herferðinni gegn Egyptalandi um 1800, og það er talið, að ránsfengurinn (metinn á núvirði upp á þrjá og hálfan milljarð evra) hafi dugað til að kosta herför Korsíkubúans til Rússlands, sem að lokum varð hans banabiti.

Já, en hvað með sjúkrahúsið? Sagan um sjúkrahúsið á reyndar erindi við Íslendinga nú til dags. Möltubúar eru ámóta margir og Íslendingar (innan við hálf milljón, en ögn fleiri túristar og flóttamenn). Það má segja hinum kristnu reglubræðrum til afbötunar, að þeir reistu snemma sjúkrahús á eynni, sem tók við og líknaði sjúkum, án gjaldtöku. Þetta var einstakt í Evrópu á þeirri tíð. Maltverjar eiga sér því sérstaka sögu varðandi líkn við sjúka. Þeim er í mun að halda þessa hefð í heiðri. Fyrir nokkrum árum ákváðu þeir að reisa það sem heitir hátæknisjúkrahús á eynni (líka háskólasjúkrahús), sem býður upp á alhliða læknisþjónustu, samkvæmt framúrstefnutækni á því sem næst öllum sviðum. En það vildi enginn fjármagna þetta. En þegar skálmöldin á Miðjarðarhafinu færðist í aukana með stríðsrekstri Ísraela í „landinu helga“ og fordæðuskap einræðisherra á norðurströnd Afríku, jókst flóttamannastraumurinn og þar með þörfin að líkna sjúkum og limlestum. Flóttamannasjóður Evrópu samþykkti að fjármagna nýja sjúkrahúsið. Það var þess vegna sem aðalfundurinn var haldinn á Möltu. Við vildum fá að sjá með eigin augum, hvernig til hefði tekist.

Af musterisriddurunum er það síðast að frétta, að þeir hafa reynt að bæta fyrir ódæðisverk fortíðar í nafni Krists með því að nýta uppsafnaðan auð sinn til þess að byggja og reka sjúkrahús handa fátæku fólki víða um lönd. Musterisreglan rekur nú tugi sjúkrahúsa í fátækrahverfum stórborga Suður-Ameríku og víða í Afríku. Þar gildir sú regla, að öllum er veitt viðtaka og fá að njóta aðhlynningar án tillits til greiðslugetu. Þeir kristmenn-krossmenn eru m.ö.o. Orðnir sósíal-demókratar – jafnaðarmenn. Boðskapur fjallræðumannsins hefur loksins komist til skila.