Ferðalög

Einn góður vinur minn skrifað mér um daginn og spurði, hvað ég væri að þvælast á sólarströndum Spánar, sem gerði mig bæði gamla fyrir aldur fram og og væri ekkert nema tímasóun. Hér kemur svarið, sem ég sendi honum seint og um síðir:

Þegar ég var yngri, vildi ég helst alltaf vera að ferðast, búa í ferðatöskum, með börnin í aftursætinu og láta hverjum degi nægja sína þjáningu. Jón Baldvin sagði oft: Svín fór að Rín, kom aftur svín.

Ég sé það núna, að það var svolítið til í þessu hjá honum. Þessi tilgangslausu ferðalög með stuttri viðkomu og stressi, skilja kannski eftir einhverjar minningar um mannlíf eða landslag, en breyta engu og hafa engin varanleg árif.

Það eru þessar löngu ferðir til framandi þjóða, sem skipta máli. Það er sú lífsreynsla,sem gerir úr þér þá manneskju, sem þú ert í dag, breytir hugsunarhætti þínum, lífsviðhorfum, jafnvel mataræði og klæðaburði. Árin mín í París og víðar um Frakkland lögðu grunninn að þeirri manneskju, sem ég er núna. Fimm löng sumur á Ítalíu bættu síðan um betur. Ég fór líka að sjá mitt eigið land í nýju ljósi. Svo voru það löngu seinna önnur fimm ár í Bandaríkjunum. Þau ár voru ótrúlega áhrifamikil og afdrifarík. Ég tala nú ekki um heil þrjú ár í Finnlandi. Þegar kom að því að snúa heim í dalinn, var ég gripin kvíða yfir því, að nú ætti ég enga framtíð lengur. Kæmist aldrei neitt, mundi ekki upplifa neitt nýtt. Væri kona með fortíð, en enga framtíð!

Spánn hafði alltaf skipað stóran sess í huga mér. – Ég átti mér draum… Sumir draumar rætast. Og nú erum við hér, í Andalúsíu – Litlu Afríku, eins og sumir kalla hana. Óneitanlega eru mikil áhrif Afríku í öllu umhverfinu, enda ekki nema nokkrir tugir kílómetra yfir sundið. Í sjö hundruð ár réðu Márar hér ríkjum og skildu eftir sig fjársjóði, sem enn eimir eftir af í daglegu lífi. Hér skín sólin alla daga – þótt hann rjúki upp aldeilis óvænt öðru hverju með ofsavindhviðum og skýföllum, sem eiga sér enga skýringu nema nábýlið við Sierra Nevada, hæsta fjall Spánar. Það trónir hér fyrir ofan í þrjú þúsund metra hæð, alhvítt vetur sem sumar.

Kannski var það tungumálið, sem dró mig hingað. Þetta dramatíska, kjarnyrta mál, sem á djúpar rætur að rekja til latínunnar. Hermenn Rómarveldis fluttu málið með sér á Íberíuskagann, og bændur og búandlið, sem erjaði jörðina, afbakaði það eftir þörfum. Nú er þetta tungutak móðurmál flestra í heiminum fyrir utan mandarín. Spánverjar fluttu tungumálið með sér til nýja heimsins. Sú saga er full af grimmd og ódæðisverkum, en það sem lifir er tungumálið, sem frjóvgaðist af nýrri lífsreynslu fjarri fósturjörðinni, og er nú sameinandi afl heillar heimsálfu.

Sumir segja, að hæfileikinn til að læra ný tungumál eldist af manni eins og bernskan. En er ekki líka sagt, að maður eigi að varðveita í sér barnið til hinstu stundar – forvitni og opinn huga? Og kannski er það barnið í mér, sem hefur sökkt sér niður í nám á seinni árum – tileinkað sér spænska málfræði af ástríðu. Besta jólagjöfin sem ég fékk eitt árið, var „501 spænsk sögn“ (flestar óreglulegar). Af þessari ástríðu kviknar forvitnin að bera saman orð á ólíkum tungum, uppruna þeirra, skyldleika, vensl og breytingar í tímans rás. Út úr þessum fróðleik getur maður lesið menningarsöguna. Og saga Spánar er ótrúlega spennandi og dramatísk, en það merkilegasta er, að þeir hafa sjálfir enn ekki gert upp við fortíðina – sínar sögulegu hamfarir.

Kannski er ég hálfgert nörd. Mitt líf og yndi er að leika mér með óreglulegar sagnir spænskunnar og spreyta mig á því að beygja þær í viðtengingarhætti, skildagatíð – eða jafnvel þáskildagatíð. Og ég er orðin svo klár – eða á ég að segja kokhraust, þótt ég segi sjálf frá – að ég fer létt með að rökræða við bifvélavirkja um umferðaróhapp í viðtenginarhætti, við pípara um stíflað niðurfall í skildagatíð og málningartegundir við málarameistara í nútíð og framtíð. Og ég skemmti mér best, þá sjaldan ég fæ tækifæri til að þrasa um spænska pólitík við eina bóksalann í bænum eða hann Miguel hérna í næsta húsi. Ef þið trúið mér ekki, þá eru hæg heimatökin að spyrja bara manninn minn. Aldrei þessu vant situr hann þögull og prúður og hlustar á mig hafa orð fyrir okkur báðum. Eftir á kemur í ljós, að hann er farinn að skilja meira en ég hélt í öllu þessu, sem ég er að þrasa um.

Þegar maður býr í heitu landi, lærir maður fljótlega að spara orkuna og leita í skuggann, á meðan sólin er hæst á lofti. Morgunninn nýtist vel til vinnu, en á hádegi draga sig allir í hlé, fara í sturtu, skipta um föt, setjast til borðs með fjölskyldunni og hvíla sig á eftir – fá sér hænublund, eins og það heitir á okkar máli. Það er ekki fyrr en degi tekur að halla og skuggarnir lengjast í þröngum götunum, að við förum á stjá á ný, komum við á þorpskránni, fáum klapp á bakið, jafnvel koss á vangann og svalandi drykk. Hávaðinn er ærandi, allir eru hlæjandi og masandi – en ég veit ekki, hvort nokkur hlustar! Barir eru eins konar viðkomustaðir í þorpinu, þar sem allir eiga erindi, létta af sér streitu og kvíða og finna samkennd með nágrönnum og vinum. Að vísu verð ég að viðurkenna, að oftast er ég eina konan, hinar eru sjálfsagt allar í eldhúsinu eða enn að vinna fram eftir fyrir fjölskyldunni – því að hér er engu lokað fyrr en seint á kvöldin.

Niðri á ströndinni er búið að leggja hvítan dúk á borð. Þjónarnir taka okkur fagnandi og bera fram tómata og avocado úr bakgarðinu og svo nýdreginn, pönnusteiktan kola. Með þessu er boðið upp á ískalt hvítvín úr hlíðunum hér fyrir ofan. Hér um slóðir er hver og einn sjálfum sér nægur. Menn lifa frá hendinni til munnsins. Fólkið hér hefur alla tíð búið við kreppu (nema í þessi nokkur ár, þegar æði rann á menn, og allir fóru í byggingarvinnu). Andalúsía hefur löngum verið fátækasta hérað Spánar, en einhvern veginn hafa þeir lifað af og kunna að njóta þess, sem náttúran býður upp á. Alltaf glaðir.

Kvöldið líður hægt. Það er aðfall og fólk er enn að svamla í sjónum. Hann er hlýr núna, því að sólin er búin að baka steinana í fjörunni allan daginn. Við horfum á hana hverfa á bak við hvítan klettinn, sem rís upp af ströndinni eins og höggmynd úr marmara. Myrkrið skellur á,eins og hendi sé veifað. Tími til kominn að þakka fyrir sig, standa upp frá borðum og bjóða góða nótt – buenas noches.