Við hefðum svo sem aldrei veitt þessum strák neina athygli – enda förum við ekki á þennan kebabstað, þar sem hann vinnur – eða vann á – niðri á strönd. Það var auðvitað Kolfinna, sem kom honum á framfæri við okkur. Kolfinna hefur alveg dæmalausa hæfileika til að laða að sér landlaust fólk, sem á hvergi höfði sínu að halla. Það leitar hana uppi, hvort sem það er í Reykjavík, Brüssel eða bara á ströndinni hér fyrir neðan. Svo kom að því, að Kolfinna kvaddi, en vandamálið varð eftir hjá okkur.
Og hvernig á ég svo að segja sögu þessa stráks? Hann er reyndar ekki lengur að vinna á Kebab staðnum, því að frændi, sem rekur staðinn – þeir eru bræðrasynir – rak hann úr vinnunni um daginn, bara svona upp úr þurru – og úthýsti honum um leið. Skýring hans var reyndar sú, að feður þeirra – bræðurnir – væru komnir í hár saman heima í Pakistan út af landskika, sem þeir hefðu fengið í arf. Deilan væri orðin svo hatrömm, að það samrýmdist ekki lengur heiðri fjölskyldunnar að hafa strákinn á staðnum! – Ef vinnu skyldi kalla, því að hann notfærði sér, að strákurinn er ólöglegur í landinu og borgaði honum lúsarlaun. Nú er hann atvinnulaus – og á götunni.
Þessi strákur, sem ég er að tala um, heitir Jamshaid og er tvítugur Pakistani. Fríður sýnum og býður af sér góðan þokka. Sviphreinn, háttvís og hlédrægur – samt ákveðinn, þegar á reynir. Hann hefur greinilega fengið gott uppeldi og er vel gerður bæði til munns og handa, eins og sagt er. Drekkur hvorki né reykir.
Unglingur gæddur slíkum hæfileikum ætti á þessum stað í lífinu að vera um það bil að hefja háskólanám, undirbúa framtíðina og láta að sér kveða. En ekkert af þessu er í boði fyrir Jamshaid. Hans eini draumur – og hans höfuðskylda í lífinu – er að sjá fjölskyldu sinni heima í Pakistan farborða. Það kemst ekkert annað að í hans höfði. Á hverjum mánuði í fjögur ár hefur hann sent peninga heim – þ.e.a.s. helminginn af þessum lúsarlaunum, sem frændi skammtaði honum – og heldur lífi í heilli fjölskyldu, pabba, mömmu og þremur litlum systkinum, sem þurfa mat og vistir. Pabbi er svo sem ekki gamall maður, rúmlega fertugur, en heima er enga vinnu að fá og aðstæður ólýsanlega erfiðar.
Jamshaid er staðráðinn í því að tryggja menntun systkina sinna, svo að þau geti notið frelsis og verið sjálfstæð í framtíðinni. Amma Jamshaids heima í Pakistan hefur hins vegar sent honum þau skilaboð, að hann verði að finna sér konu sem allra, allra fyrst og eignast börn. Börnin eru lífeyrissjóður foreldranna, segir hún. Annað er ekki í boði í hans heimalandi. Engin tryggingarstofnun til að vera í nöp við!
Jamshaid var bara fimm ára, þegar hann í faðmi fjölskyldunnar lagði á flótta undan örbirgðinni í Pakistan og leitaði hælis í Grikklandi. Pabbi fékk vinnu í supermarkaði, fjölskyldan festi kaup á lítilli íbúð, og Jamshaid var sendur í skóla. Þetta gekk allt vel næstu ellefu árin. Börnunum fjölgaði, og framtíðin virtist brosa við þeim. En þá skall kreppan á og tilveran hrundi. Fjölskyldan lagði aftur á flótta og endaði á Spáni, þar sem erfiðir tímar fóru líka í hönd. Eftir fjögur ár þar var þeim ekki lengur vært, og fjölskylda Jamshaids neyddist til að snúa aftur til Pakistan – heim í örbirgðina. – En – þau skildu Jamshaid eftir og sögðu: Nú verður þú að spjara þig, drengur, héðan í frá ert þú okkar eina haldreipi í lífinu. Þú færð athvarf hjá frænda og sendir peninga heim. – Jamshaid var þá sextán ára.
Þó að Jamshaid hafi búið hér á ströndinni öll þessi ár, á hann enga vini – og frændi er augljóslega ekki vinur hans. Í heil fjögur ár hefur enginn í þessu litla og friðsæla þorpi séð ástæðu til að sýna honum velvild eða samúð, koma honum til bjargar, taka á honum ábyrgð, svo að hann fengi að minnsta kosti kennitölu í landinu. – Eða kannski enginn hafi þorað það. Hann er framandlegur, dökkur á brún og brá eins og Sígaunarnir, sem eignast heldur enga vini í þorpinu. Andúðin og óttinn við fólk, sem er öðru vísi, er jafnalgeng hér og heima. Á ég að gæta bróður míns?
Sagan er ekki miklu lengri. Þið vitið, hvernig hún endar. – Eða kannski er hún bara rétt að byrja. – Frændinn brást. Og þar með brást tilverugrundvöllur Jamshaids. Hvað gerir maður, sem hefur hvorki landvistarleyfi né atvinnuleyfi? Honum eru allar bjargir bannaðar. Hann getur ekki – þó svo hann vilji, séð sér – hvað þá öðrum – farborða. Hann er réttlaus – utangarðsmaður. Hann má búast við því, að lögreglan leiti hann uppi, hvenær sem er. Með handtökutilskipun, handjárn og nauðungarflutning til síns heima.
Jamshaid fékk fund með lögfræðingnum. Það kom á daginn, að hann þekkti lög og reglur um stöðu sína, ef nokkuð, betur en lögfræðingurinn. “Þú gætir orðið efnilegur í mínum bransa, sagði hann”. Til þess að geta sótt um dvalarleyfi og þar með vinnu, þarf Jamshaid ábyrgðarmenn. Að því fengnu tekur við þriggja mánaða biðtími. Næstu mánuðina lifir hann í veikri von um, að yfirvöld sýni honum miskunn. Veiti honum nýtt tækifæri – leyfi til að vinna fyrir sér og sjá farborða fjölskyldu sinni heima í Pakistan.
Guð láti gott á vita.