Frá Ölfusinu til Andalúsíu

Hvað það er annars skrítið að búa í svona litlu þorpi – það er að segja, að vera í svona mikilli nálægð við íbúana. Næstum eins og að búa í blokk. Að vísu hef ég aldrei búið í blokk, en ég bjó á Ísafirði í nokkur ár. Það er líka þorp, en samt enginn þorpsblær eins og hér. Byggðin breiðir úr sér þvert yfir Eyrina og það er langt á milli húsa. Á vetrardögum grúfir dimm þoka yfir bænum, og maður er aleinn í heiminum.

Fjarlægðin milli mín og heimamanna var töluverð – bæði í líkamlegum og andlegum skilningi – alla vega til að byrja með. Kannski var fólk á verði gagnvart okkur – við vorum skólameistarahjónin – tilheyrðum hvorki stétt sjómanna né uppflosnuðum bændum úr Djúpinu. Vorum aðkomufólk og breytti engu, þótt maðurinn minn væri fæddur á Ísafirði og hefði átt þar ógleymanlega æsku.

Það var ekki fyrr en mörgum árum seinna, sem ég heyrði, að þrátt fyrir fjarlægðina hefði verið mikið talað, og að við hefðum sífellt verið – eins og sagt er – á milli tannanna á fólki – að ég væri óttaleg pjattrófa, ynni ekki handtak – það kallaðist ekki vinna að vera kennari og eiga ómegð – og sprangaði um götur í skósíðum pilsum, daðrandi við mann og annan.

Það má segja, að Vesturgatan hafi verið miklu þorpslegri en Ísafjörður. Þar bjuggum við lengst af, og nálægðin var mikil við nágrannana. Við deildum gleði og þrautum hvert með öðru, vorum öll oní hvers annars koppi. Í húsinu okkar var sól allan daginn – hún gægðist inn um eldhúshluggann í morgunsárið, dundaði sér í stofunni fram eftir degi og veifaði svo að skilnaði við svefnherbergisgluggann, áður en hún stakk sér í hafið undir Snæfellsjökli.

Mér finnst svolítið merkilegt að hugsa til þess núna, að húsið okkar við Vesturgötuna var aldrei læst, hvorki dag né nótt. Hvað tímarnir eru breyttir. Það stóð öllum opið, var í alfararleið og oft mjög gestkvæmt. Það kom þó fyrir, að óboðnir gestir settust upp, og þá var stundum úr vöndu að ráða. Einu sinni var ungur maður, nokkuð við skál, að spæla sér egg í eldhúskytrunni, þegar við komum heim um miðja nótt. Hann vildi ólmur, að við fengjum okkur sæti og nytum veitinganna með honum. Sem við og gerðum, og varð úr hið fjörugasta samkvæmi. Aldrei hef ég séð þennan mann, fyrr né síðar.

Hér á klettinum búa menn mjög þröngt. Það er engu líkara en þeir hafi verið að leita sér skjóls hver hjá öðrum , þegar þetta þorp var byggt endur fyrir löngu. Þeir þurftu skjól fyrir óvininum, sem gerði ekki boð á undan sér, ruplandi og rænandi. Þeir þurftu að spara sér kostnað við bygginguna og hvítu málninguna á veggi hússins. Og – þeir þurftu að eiga góða að, þegar ógæfan knúði dyra, óvænt og miskunnarlaus. Fátækt fólk átti ekki margra kosta völ fyrir daga velferðarkerfisins.

Húsin standa öll í einni þvögu, þétt saman, einföld að gerð, rammlæst með grindur fyrir gluggum. Enginn kemst óboðinn inn í þessi hús. (Enda eru margir þeirrar skoðunar, að peningar séu betur geymdir undir koddanum en hjá bankastjóranum). Og engum er boðið inn, nema hann hafi áunnið sér traust og trúnað. Heimilið er griðarstaður fjölskyldunnar, mjög persónulegt.

Í landi þar sem sólin skín flesta daga jafnt, er fólk á eilífum flótta undan ágengni sólarinnar. Það spennir upp sólskýlin, dregur fyrir alla glugga og leitar skjóls í myrkrinu innan dyra. Það er ekki fyrr en halla tekur degi, að það færist fjör í þorpsgöturnar, og hlátrasköll berast inn um opinn gluggann. Kallarnir eru komnir á stjá, með stafi sér til stuðnings, kellingarnar spranga fram og til baka, blaðskellandi, í rósóttum kjólum. Þeim liggur svo hátt rómur, að orðin bergmála frá einum vegg til annars. Þetta heitir að vera á heilsubótargöngu. Þær vita sem er, að hreyfingarleysið er upphaf alls ills.

Konan með hundinn er svolítið sérstök – hún heitir Marina. Marina á ekki samleið með hinum konunum í götunni, ég hef tekið eftir því. Kannski líta þær niður á hana – hún er sígauni og gengur aldrei í pilsi – eða alla vega mjög sjaldan. Hún tekur silfurgrátt hárið saman í eina fléttu, sem nær henni niður í mitti. Þegar við hittumst hér fyrir utan, fagnar hún mér, eins og við hefðum þekkst alla ævi. Hún tekur hlýlega utan um mig og brosir svo fallega. Einu sinni sátum við saman og hún sagði mér sína sögu. Það var hér uppi á þakinu síðla dags, og hundurinn lá við fætur hennar allan tímann.

Marina kann hvorki að lesa né skrifa. Það er af því að hún var barn á tímum Francos, og þá áttu fátæk börn ekki þess kost að ganga í skóla. Þau voru utangarðs – voru látin strita í sveita síns andlitis, frá því að þau gátu staðið í fæturna. Ung var hún gefin manni úr sömu sveit, og þau eignuðust átta börn. Lífið snerist um að lifa af frá degi til dags, að bíða við hlið landeigandans við sólarupprás í von um smávinnu , í von um matarbita handa hungruðum börnum, sem biðu heima í kotinu. Marina minnir mig á ömmu, sem sagðist aldrei hafa velt því fyrir sér, hvað orðið hamingja þýddi. Að strita fyrir brauðinu var það eina, sem máli skipti – að sjá fyrir sér og sínum – hvort sem það var í Andalúsíu eða í Ölfusinu.

Það er þessi eilífa nærvera, sem skiptir svo miklu máli í þorpslífinu – hún gefur lífinu lit og bragð. Þú kemst ekki hjá því að kynnast nágrönnunum, tala við þá eða bara horfa á þá úr fjarska. Finna til með þeim, þegar illa gengur, samgleðjast, þegar lífið brosir við þeim. Í næsta húsi býr Inma, unga konan hans Miguels. Þau eiga tvo stráka, og sá yngri er heyrnarlaus – bara sex ára. Inma er vakin og sofin í hlutverki hinnar góðu móður. Hún er ekki lengur ung, hamingjusöm og áhyggjulaus. Nei, hún hefur sífelldar áhyggjur af drengnum og leggur nótt við dag. Tvisvar í viku ekur hún með hann til sérfræðings í Granada. Svo fylgir hún honum í skólann í þorpinu á morgnana, sækir hann og talar við hann stanslaust. Og hann hefur tekið svo miklum framförum. Hættur að orga í angist og óþoli, farinn að tjá sig með einföldum orðum, stilltur og prúður – ánægður með sig, jafnvel. Hann kyssir mig alltaf á kinnina, þegar við hittumst.

Ég gæti haldið áfram að segja ykkur sögur af nágrönnum mínum út í það óendanlega. Ég kemst eiginlega ekki hjá því að vita allt um þá – nálægðin er slík. En allar sögur verða að taka enda. Og svo erum við á förum – heim í hlýjuna. Dagarnir verða æ styttri, og nóttin er köld og rök. Engin upphitun er í gömlum húsum. Þorpsbúarnir kunna ráð við því. Þeir setja glóandi kolamola í vaskafat undir matarborðið, og þannig halda þeir á sér hita þessa köldustu mánuði ársins. Ég á eftir að kveðja alla nágrannana. Ég veit þeir kyssa okkur á vangann og segjast hlakka til að sjá okkur aftur með vorinu. Og ég held meira að segja, að þeir meini það – eða þannig.