Lífið er samfelld leiksýning. DV 30.1.2015: Viðtal Sólrúnar Lilju Ragnarsdóttur við Bryndísi Schram

Bryndís Schram er kona sem flestir þekkja. Hún hafur stigið víða niður fæti sem dansari, leikari, kennari, þáttagerðarkona og móðir, tekið þátt í stjórnmálum og verið virk í samkvæmislífinu, bæði innan lands og utan. Líf hennar hefur þó síður en svo alltaf verið dans á rósum, en á erfiðum tímum finnst henni mikilvægt að geta hallað sér upp að eiginmanni sínum til 55 ára, Jóni Baldvini Hannibalssyni. Þau hjónin eru afar náin en Bryndís segir þó mikilvægt að vera reglulega aðskilin. Þannig viðhaldi þau neistanum. Blaðamaður settist niður með Bryndísi og ræddi um sorgir og sigra í lífinu, ástina, aldurinn og dótturmissinn, sem er mesta raunin sem hún hefur þurft að takast á við.


Brundís Schram

Bryndís Schram hefur nokkuð ákveðna skoðun á því hvar hún vill setjast niður með blaðamanni til viðtals. Hún stingur strax upp á Kex Hostel – vinsælum hótelbar í tygjum við farfuglaheimili, sem þykir nokkuð smart að sækja. Í ljós kemur að þetta er einn af hennar eftirlætisstöðum, sem hún sækir gjarnan þegar hún gerir sér ferð úr Reykjadalnum í 101 Reykjavík. Kannski í drykk eða tvo.

Það er hávaxin og tignarleg kona, íklædd ullarslá og með hatt, sem gengur röskum skrefum inn í salinn, þar sem blaðamaður situr og bíður. Það er ekki að sjá að þarna fari kona á áttræðisaldri. Þegar Bryndís kemur auga á blaðamann breiðir hún strax út faðminn og kyssir á báðar kinnar, að suðrænum hætti, líkt og hún sé að heilsa aldagömlum vini.

Bryndís tekur strax fram að hún vilji helst segja frá einhverju sem hún hefur ekki sagt frá áður. Hún vill síður endurtaka sig úr öðrum viðtölum. Það er heldur ekki auðhlaupið að því að ætla sér að fanga lífshlaup Bryndísar á þremur blaðsíðum. Það þarf að velja kaflana vel og við byrjum á því að horfa um öxl.

“Lífið fór ekki eins og það átti að fara, ég ætlaði að verða ballerína, en svo var ég allt í einu orðin 175 á hæð, með brjóst og rass, þannig það gekk aldrei,” segir Bryndís og brosir einlægt þó skynja megi örlítinn trega í röddinni.

Hana langaði mikið að verða atvinnudansari, dansa á stóru sviði úti í heimi, en líkamsvöxturinn bauð ekki upp á það, og eðlilega var það svekkjandi. “Í London máttu ballerínurnar til dæmis ekki vera nema 165,” bætir hún við. Það voru því heilir tíu sentimetrar sem skildu hana og drauminn að.

Þessar reglur um hámarkshæð ballerína giltu þó ekki alls staðar og veturinn eftir stúdentsprófið bauðst Bryndísi að stunda framhaldsnám við Kirov ballettinn í Leníngrad. Þá var hún hins vegar orðin ólétt svo hún neyddist til að hafna boðinu. “Það varð til þess að ég fór ekki, en ég hélt áfram að dansa í Þjóðleikhúsinu. Ég dansaði alveg þangað til ég varð þrítug og fluttist vestur á Ísafjörð. Það var svo geggjað gaman að dansa á þessum árum, það var góður hópur þarna í Þjóðleikhúsinu. Ef ég hefði verið ein þá hefði ég örugglega farið til Leníngrad og það hefði kannski leitt til einhvers meira. Hver veit?”

Bryndís segir að því miður hafi ekki verið hægt að lifa af því að vera dansari og það varð til þess að hún fór í leiklistarnám. Það jók möguleika hennar innan leikhússins.

Hún rifjar upp með blaðamanni eftirminnilegt atvik frá þeim tíma þegar dansinn átti hug hennar allan.

“Ég man árið 1956 þegar ég var að dansa Can Can uppi í Þjóðleikhúsi, í Kátu ekkjunni. Þér að segja núna sló ég alveg í gegn og það birtist í fyrsta skipti heilsíðumynd af mér í Vikunni. Þetta var forsíðumynd af mér og Jóni Valgeiri, mótdansara mínum á þessum árum – og þá var ég með svona hatt,” segir Bryndís og tekur upp hattinn sinn. Henni þótti við hæfi að mæta með svipaðan hatt í viðtalið og hún var með á forsíðumyndinni fyrir tæpum 60 árum.

Bryndís þótti, og þykir enn, stórglæsileg kona sem vakti athygli hvar sem hún fór. Það er því ekki að undra að hún hafi, 19 ára gömul, verið beðin um að taka þátt í Fegurðarsamkeppni Íslands sem fór fram í Tívolí í Vatnsmýrinni. Aðspurð hvernig það hafi komið til segir hún, að hún hafi líklega fyrst heyrt ávæning af þessu í gömlu Sundlaugunum – sem enginn man nú eftir lengur. “Ég heyrði fyrir aftan mig að einhver sagði að “þessi yrði flott í keppnina” og svo hafa þeir eflaust hringt í mömmu. Mamma mín var mjög falleg kona sem átti sína drauma en hún giftist ung og fór að hlaða niður börnum. Ég held að hún hafi borið ábyrgð á þessu, að henni hafi þótt þetta góð hugmynd, en ég tók þessu ekki mjög alvarlega fyrr en á lokasprettinum,” segir Bryndís hreinskilin.

Keppnin var haldin utanhúss í Tívolí í norðangarra, eins og hún orðar það sjálf. Henni var því ískalt þar sem hún þurfti að spranga um sviðið á sundbolnum einum fata og láta dómarana mæla sig út. Sama kvöld var hún að dansa í Sumar í Týrol á fjölum Þjóðleikhússins og varð því að hlaupa á milli staða til að allt gengi upp. Ekki virðist það hafa spillt fyrir. Bryndís var kosin fegurðardrottning Íslands þetta kalda vorkvöld í Vatnsmýrinni árið 1957. “Mér voru færð blóm í leikhúsinu í lok sýningar. Bessi Bjarnason stóð á sviðinu með fangið fullt af blómum og kyssti mig á vangann og það var eiginlega það besta við þetta allt saman,” segir hún sposk á svip.

En sigurvíman varði ekki lengi. “Ég sá eiginlega samstundis eftir þessu og fannst ég hafa stigið feilspor. Mér fannst niðurlægjandi að láta mæla mig út eins og verðlaunahryssu á uppboði. Ég var líka örugglega undir áhrifum frá félögum mínum í Menntaskólanum í Reykjavík, þar þótti ekki mjög fínt að taka þátt í svona keppni. Í skeytinu sem Bryndís fékk sent frá skólafélaga sínum og núverandi eiginmanni, Jóni Baldvini Hannibalssyni, eftir keppnina, stóð til að mynda: “sveiattan!” og ekkert annað.” Skoðun hans var skýr. “Ég talaði mjög lítið um þetta eftir keppnina og og aldrei opinberlega,” bætir hún við.

Sigur í keppninni hérna heima hafði hins vegar í för með sér að Bryndís var orðin fulltrúi Íslands í alheimsfegurðarsamkeppninni sem fór fram á Long Beach rétt utan við Los Angeles. “Það var auðvitað mjög gaman að fara út en ég var engu að síður í uppreisn gegn þessu öllu.” Hún vissi að hún átti ekki möguleika á sigri úti, enda keppnin kostuð af snyrtivöru- og sundfataframleiðendum sem vildu að sjálfsögðu fá fulltrúa fjölmennrar þjóðar til að kynnar vörur sínar. “Þess vegna var ég alveg útilokuð strax. Herbergisfélagi minn, sæt stelpa frá Ísrael, tilkynnti mér að við kæmum ekki til greina. Við afskrifuðum því okkur sjálfar og og tókum þessu af mátulegu kæruleysi. Vorum ekki einu sinni með varalit á okkur,” segir Bryndís hálf prakkaraleg á svipinn.

Í Bandaríkjunum opnuðust þó ýmis tækifæri fyrir þessa ungu og óhlýðnu stúlku frá Íslandi, en þegar á hólminn var komið þá reyndist hún of hávaxin fyrir kvikmyndabransann sem heillaði hana mikið. “Mér var sagt, að helstu elskhugar Hollywood á hvíta tjaldinu á þessum tíma hefðu varla ná mér í öxl. Ég hefði þó getað fengið að auglýsa tannkrem!, en mér þótti það ekki spennandi og ákvað frekar að fara heim aftur og klára MR. Þar missti ég af öðru tækifæri”, segir hún og hlær við. “Ég spyr mig stundum af hverju ég nýtti ekki tækifærin sem buðust? En þarna var ég svo ástfangin og þá hverfur allt annað í skuggann. Ástin er svo sterkt afl,” segir Bryndís hugsi og staldrar aðeins við. “Það er ekki hægt að kalla þetta eftirsjá því maður veit ekkert hvernig lífið hefði orðið annars.”

Bryndís hitti ástina i lífí sínu, Jón Baldvin Hannibalsson, fyrst þegar þau voru saman í landsprófi. “Ég varð svo skotin í þessum strák en ég talaði aldrei við hann,” segir hún sposk á svip. En aðdragandinn að því að þau fóru loksins að vera saman varð ansi langur. “Ég held við höfum verið búin að þekkjast í fjögur ár þegar við snertum hvort annað fyrst.” Bryndís segir Jón Baldvin hafa verið mjög áberandi strax í Gaggó Vest. Hann var frakkur og öruggur með sig og það heillaði þessa ungu stúlku. “Hann var aðalmálpípan í skólanum, eldrauður bolsi og náði að spilla öllum sambekkingum sínum. Það var haldinn foreldrafundur út af honum og það átti bara að reka þennan dreng úr skólanum. En það var gert samkomulag um að ritskoða allt sem hann skrifaði,” segir Bryndís og hlær þegar hún rifjar þetta upp. “Hann var strax þarna orðinn óðapólitíkus og sú ástríða hefur einkennt hann alla tíð. Hann hefur einhvers staðar sagt að hann hafi haft ástríðu fyrir tvennu í lífinu – pólítíkinni og konunni sinni. Svo, nú þegar pólítíkin er að baki þá er ég bara ein eftir”, segir Bryndís og hlær dillandi hlátri.

Það var í Menntaskólanum í Reykjavík sem þau fóru að kynnast aðeins betur, en Bryndís horfði alltaf hýru auga til þessa ástríðufulla unga manns með sterku stjórnmálaskoðanirnar.

Tveimur árum eftir að leiðir þeirra lágu fyrst saman í landsprófinu tók Jón Baldvin af skarið og bauð Bryndísi í bíó, á kvikmyndina “Rauðu skóna”. “Ég man að mamma sagði: “mikið hlýtur þetta að vera gáfaður piltur sem býður þér að sjá Rauðu skóna, það er svo merkileg mynd.”” Næsta ár bauð Jón Baldvin henni svo á Framtíðarballið í MR. Það varð þó ekkert meira úr sambandi þeirra fyrr en á lokaárinu í menntaskólanum. “Á leiðinni heim úr leikhúsinu á kvöldin labbaði ég reglulega fram hjá húsinu, þar sem hann átti heima og sá útundan mér, hvort þar væri ljós í glugga – vakir hann enn?” segir Bryndís og hlær að sjálfri sér.

“En hann skrifaði mér alltaf, alveg frá því hann varð 16 ára. Ég velti því stundum fyrir mér, hvort ég eigi að afhenda Þjóðskjalasafninu bréfin með því skilyrði að þau verði ekki opnuð fyrr en eftir fimmtíu ár” Bryndís hlær enn meira og viðurkennir að bréfabunkinn sé ansi hár. “Ég svaraði honum auðvitað en mín bréf voru svo hversdagsleg í samanburði við hans. Mín voru skrifuð á einföldu máli á meðan hann var ljóðrænn, vel lesinn og skrifaði forkunnarfagra íslensku.” Bryndís verður dreymin á svip þegar hún rifjar upp bréfaskriftirnar. Þar sem þau tvö, óharðnaðir unglingar, skiptust á leyndarmálum og vangaveltum um lífið.

“Það var fyrst í stúdentsprófunum sem eitthvað gerðist. Við fórum upp í Heiðmörk saman og það gerði útslagið.” Bryndís átti að vera að læra fyrir latínupróf, en tók sér smá hlé. “Ég ætlaði að fá 9,5 í latínu en fékk ekki nema 9,” segir Bryndís kímin. Jón truflaði hana við lærdóminn, en hún sá ekki eftir því. Sætti sig við níuna, enda gaf Heiðmerkurferðin henni manninn sem hana hafði dreymt um svo lengi. Allt fyrir ástina.

Tæpu ári síðar, í janúar 1959, fæddist þeim svo fyrsta barnið, stúlka sem fékk nafnið Aldís í höfuðið á móður Bryndísar. “Ég sagði engum að ég væri ólétt og það var auðvitað alveg fáránlegt. Ég fór til Parísar haustið 1958 og var þar fram yfir áramót. Svo frétti mamma yfir hafið að ég væri ólétt og skipaði mér að koma heim. Það liðu svo ekki nema tveir eða þrír dagar frá því að ég kom heim þangað til ég var búin að eiga barn.” Þrátt fyrir að stúlkan kæmi óvænt í heiminn var hún meira en velkomin inn í fjölskylduna. “Hún var með ljósar krullur og himinblá augu og var eftirlæti allra.” Haustið sama ár giftu svo Bryndís og Jón Baldvin sig. Þó vissulega setti það strik í reikninginn að þau væru komin með barn þá létu þau það ekki stoppa sig og fóru bæði út til Edinborgar í nám. Jón Baldvin var að læra til forsætisráðherra, eins og hann gantaðist með síðar, en Bryndís nam tungumál við háskólann og lauk í leiðinni kennaraprófi í listdansi við Royal Academy.

Þegar Jón Baldvin lauk námi sínu í hagfræði við Edinborgarháskóla þá fékk hann, að sögn Bryndísar, enga vinnu á Íslandi. Hann var ekki í réttum flokki. En það var eitthvað sem Bryndís hafði aldrei hugsað út í. Hún gerði sér ekki grein fyrir því að þjóðfélagið virkaði svona. “En einhvern veginn komumst við í gegnum það. Það sem bjargaði okkur var að Jón Baldvin þótti góður kennari og það var mælt með honum þegar vantaði skólameistara til að stofna menntaskóla á Ísafirði.” Það varð því úr, að fjölskyldan fluttist búferlum til Ísafjarðar, en þá höfðu þrjú börn bæst í hópinn, Glúmur, Snæfríður og Kolfinna. Búferlaflutningarnir lögðust þó ekkert sérstaklega vel í Bryndísi í upphafi. “Þetta var ákveðið án samráðs við mig og það væri ósatt að segja, að ég hafi verið í sjöunda himni. Ég sá fyrir mér að komast ekki í leikhús næstu árin. En það var ekki aftur snúið með það, enda reyndist þetta líka mjög góður tími. Lífið er svo ólíkt úti á landi og það átti ég ,borgarbarnið, eftir að komast að raun um. Þetta var góð reynsla og við komumst fljótt inn í kjarna samfélagsins,” segir Bryndís sem minnist áranna á Ísafirði með gleði og þakklæti í hjarta. Hún sat svo sannarlega ekki auðum höndum fyrir vestan, en hún kenndi tungumál við menntaskólann, dans og leiklist, svo tók hún þátt í leiksýningum með leikfélagi staðarins. Þá gegndi hún sjálf starfi skólameistara menntaskólans í eitt ár – reyndar fyrst kvenna til að gegna slíku embætti, meðan Jón Baldvin stundaði fræði sín við Harvard sem Fulbright styrkþegi.

Bryndís segir þessa dýrmætu reynslu af kennslunni, sem og dansinum og leiklistinni hafa nýst henni mjög vel þegar hún fór út í þáttagerð fyrir sjónvarp, en hún var meðal annars umsjónarmaður Stundarinnar okkar um árabil. “Ég leit alltaf á kennslustofuna sem mitt litla leiksvið og sjónvarpið sem mitt stóra svið,” segir hún brosandi. “Svo hefur lífið auðvitað verið ein samfelld leiksýning,” bætir hún við.

Eftir að hafa búið í tæp tíu ár í litlu þorpi á Vestfjörðum þá fann Bryndís hins vegar að hún varð að víkka sjóndeildarhringinn. Hún varð að komast í burtu frá Íslandi og réði sig sem fararstjóra á Ítalíu á vegum Ingólfs í Útsýn. Henni líkaði það svo vel að hún fór enn og aftur til Ítalíu mörg ár í röð. Þá kviknaði líka ferðaáhugi hennar af alvöru en hún er meira fyrir löng ferðalög. Finnst lítið varið í að fara í vikuferð til útlanda.

Bryndís hefur alltaf verið mikill tungumálagarpur. Það hefur legið vel fyrir henni og henni þykir það skemmtilegt. Þegar hún var sextug ákvað hún að láta gamlan draum rætast og læra spænsku.

“Það var alltaf draumurinn. Pabbi ætlaði að senda mig til Spánar þegar ég varð stúdent. Þá réði Franco þar ríkjum og landið var eiginlega lokað svo það varð ekkert úr að ég færi. Sem betur fer eiginlega, því þarna var ég svo skotin í strák og vildi helst ekki fara langt í burtu frá honum,” segir Bryndís og á þar að sjálfsögðu við Jón Baldvin, sem vék ekki úr huga hennar. “Ég hefði örugglega endað sem eiginkona einhvers appelsínuræktanda á Spáni og aldrei komið aftur heim.”

Hún viðurkennir að oft hafi þetta allt togast á í henni, dansinn, leiklistin og tungumálin. “Það er svolítið erfitt þegar maður hefur áhuga á mörgu, þá er hætt við, að það dreifi kröftunum, dragi úr einbeitingunni. Örlögin tóku fram yfir hendurnar á mér og sögðu að lífið væri best svona – eins og það varð. Ástin er svo voldugt náttúruafl, að það er þýðingarlaust að streitast á móti.
Ástin er guðs gjöf.”

Bryndís hefur töluverðar áhyggjur af því að verða of væmin þegar hún ræðir ástina, en viðurkennir þó að hún Jón Baldvin séu alltaf jafn ástfangin, sama hvað á dynji. “Afbrýðisemin er meira að segja enn til staðar – en með öfugum formerkjum. Nú á hann til að vera ögn afbrýðisamur, þótt hann fari kannski vel með það.” segir Bryndís, meira í gríni en alvöru. “í gamla daga átti ég stundum erfitt með að sætta mig við, að Jón Baldvin var alltaf umsetinn konum. Nú hef ég meira sjálfstraust. Ég hafði ekki mikið sjálfstraust þegar var yngri. Afbrýðisemin spratt af því ég hafði ekki trú á sjálfri mér. Þegar við fórum í partý þá lét hann gamminn geysa meðan ég sat og fannst ég vera utangátta. Hann talaði við konur sem voru á kafi í pólitíkinni eins og hann. Ég átti voða bágt á tímabili.”

Blaðamaður á erfitt með að trúa að þessi hreinskipta kona sem situr fyrir framan hann, tignarleg og bein í baki, uppfull af sjálfstrausti, að því virðist, hafi einhvern tíma verið óörugg með sjálfa sig. En þannig var það.

Bryndís segir þetta hafa breyst hægt og rólega enda hafi þau Jón Baldvin alltaf verið gott teymi, og bætt hvort annað upp. Það hafi komið mjög skýrt í ljós þegar hann tók við sem formaður Alþýðuflokksins. “Ég þurfti að vera með honum í öllu. Við vorum eiginlega bæði tvö í þessu og fólk segir mér það núna eftirá, að það hafi skipt miklu máli að ég var við hlið hans.” En Bryndís tók að sér að sjá um mýkri hliðar formannsstarfsins, sýndi fólki í kringum þau að það skipti máli með hlýlegri nærveru, notalegu spjalli og faðmlögum þegar það átti við.

“Þessi þráður á milli okkar Jóns Baldvins hefur alltaf haldið og það hefur verið okkar lán. Lífið er svo sannarlega ekki alltaf dans á rósum. Það skiptast á skin og skúrir og þegar upp koma erfið augnablik í lífinu þá er svo gott að vera ekki einn,” segir hún hreinskilin, en það er óhætt að segja að fjölskyldan hafi fengið sinn skerf af mótbyr á síðustu árum. Bryndís segir það frekar hafa styrkt samband þeirra en nokkuð annað.
Stóra höggið kom í janúar 2013, þegar Snæfríður, dóttir þeirra, lést skyndilega. Bryndís hefur unnið úr sorginni með eiginmann sinn sér við hlið og segir það hafa skipt öllu máli að hafa styrk af honum. Engin áfallahjálp, engin sálfræðiviðtöl, engin lyfjagjöf, ekkert pillufargan – bara einlægar samverustundir í minningu Snæfríðar með fjölskyldu og vinum.
“Ég er farin að reyna að lítum björtum augum á framtíðina núna. Þetta er svo mikið óréttlæti, því börnin eru framlenging af manni sjálfum og þau eiga að lifa lengur”. Það tekur á Bryndísi að ræða fráfall dóttur sinnar og augu hennar fyllast af tárum. Hún lítur undan og gefur sér smá tíma áður en hún heldur áfram.

“Það dó eitthvað inni í mér þegar ég missti Snæfríði, en ég dæmd til að lifa – þótt ekki væri nema fyrir hana Mörtu okkar, einkadóttur Snæfríðar. Þetta er alveg óskiljanlegt og breytti öllu mínu lífsviðhorfi. Ég missti trúna að miklu leyti, mér finnst ég hafa verið svikin í tryggðum.” Bryndís reynir hvað hún getur að sjá tilgang með dótturmissinum, að finna einhverja réttlætingu á því að Snæfríður hafi þurft að deyja svona ung. “Ég fór fyrst að gröfinni um daginn, þegar það voru liðin tvö ár, enda trúi ég ekki að hún sé þar. En legsteinninn er fallegur og við áttum ljúfa stund með vinkonum hennar.”

Það skipti miklu máli fyrir Bryndísi þegar hún var að takast á við sorgina í upphafi, að komast í annað umhverfi. Fara burt frá Íslandi. En þau hjónin voru í útlöndum næstum allt árið eftir að Snæfríður lést, meðal annars í Vilníus, höfuðborg Litháen, þar sem Jón Baldvin er reyndar heiðursborgari. “Hann gantast stundum með það , hvaða forréttindi fylgi vegsemdinni, engir skattar, frítt í strætó og ókeypis grafreitur, þegar þar að kemur. Hann kenndi þar við háskólann og síðar við háskólann í Tartu, Eistlandi”.

Svo eiga þau sér athvarf í Andalúsíu – í ltlu þorpi uppi á kletti við hafið. Húsið keyptu þau fyrir lok ársins 2007. Fyrst Bryndís var loksins búin að ná tökum á spænskunni þá vildi hún ólm eignast afdrep á Spáni. Og eftir að hafa fylgt eiginmanni sínum í utanríkisþjónustunni á annan áratug, þá þótti henni það ekki beinlínis heillandi tilhugsun að loka sig af í afdal á Íslandi.

“Við vissum að það var allt að fara til fjandans hérna heima og áttum smá pening í banka sem dugði fyrir þessu húsi,” segir Bryndís og hlær. “Þetta er svipað og að búa í Mosó, eins og við gerum á Íslandi, í nábýli við menningarborgina Reykjavík, sem óneitanlega hefur upp á margt að bjóða, en samt utan við hana í friðsæld Reykjadalsins. Eins er það með Salobrena. Þetta er lítið þorp í námunda við þrjár sögufrægar borgir, sem líka hafa upp á margt að bjóða – Granada, Malaga, Córdova” bætir hún við, en þau dvelja um helming af árinu á Spáni.

Bryndís áttaði sig ekki á því fyrr hún varð sendiherrafrú í Washington, hve hún var í raun ófrjáls á Íslandi. “Í pólitíkinni fær maður ekki um frjálst höfuð strokið og er stöðugt undir smásjá fjölmiðla og almenningsálits, en ég áttaði mig ekki á þessu til fulls fyrr en ég var komin út. Ég mátti ekki hreyfa mig án þess að um það væri rætt og þegar strætó keyrði framhjá húsinu okkar á Vesturgötu þá hægði hann alltaf á sér til að fólk gæti kíkt inn um eldhúsgluggana hjá okkur. Einhvern tíma varð mér það á að biðja ráðherrabílstjóra Jóns Baldvins að koma við í Fiskbúð Hafliða, þar sem ég átti pantaðan fisk í kvöldmatinn. Þetta kallaði á fyrirsagnir í blöðum um forréttindafrú og pólitíska spillingu. Stundum átti rætnin sér engin takmörk.”

Áreitið hafði þróast hægt og rólega og var orðið eðlilegur hluti af lífi þeirra hjóna. “Mig grunaði þó aldrei að fólk væri illgjarnt eða vildi eyðileggja mig. Ég fann i raun aldrei fyrir áreitinu fyrr en það allt í einu hætti þegar við komum út. Hvílíkur léttir.”

Í Ameríku vissi enginn hver Bryndís var og hún gat farið óáreitt inn í verslun og keypt sér kjól án þess að það væri á allra vörum. “Mér fannst ég allt í einu svo frjáls og gat farið að klæða mig og hegða mér, eins og ég vildi. Á Íslandi var ég iðulega valin verst klædda konan, af því ég gekk ekki í fötum frá Boss, Armani, eða hvað þetta nú heitir allt saman.”

Í Washington datt Bryndís þó fljótlega inn í iðandi menningarlíf í tengslum við sendiráðið og fljótlega varð sendiráð Íslands orðið það þriðja vinsælasta í Washington, samkvæmt skoðanakönnunum. “Ég þurfti sjálf að sjá um að elda í veislunum, en ég hafði ekki einu sinni svuntu með mér út. Ég hélt að þetta væri svo fínt starf að vera sendiherrafrú, að það hvarflaði ekki að mér að ég þyrfti að elda. En svo reyndist ég bara vera listakokkur – að annarra sögn – og fékk mikið hrós fyrir. Má ég ekki bara monta mig af þessu núna?, spyr hún kankvíslega.

Þrátt fyrir mörg ár að baki, þá segist Bryndís lítið finna fyrir aldrinum, enda er hún heilsuhraust.
Hver er galdurinn? Daglega í ræktinni? Á hlaupabrettum? Hefur hún lífsstílsformúlu að miðla öðrum? “Ekkert af þessu”, segir Bryndís og bandar frá sér hendinni. Gönguferðir í náttúrunni og sundið, já. Samt verð ég að viðurkenna, að ég stunda miklu meiri útivist og göngur í þorpinu mínu þarna suður frá en hér heima.

Það er þó einna helst á Íslandi sem hún áttar sig á hvað hún er orðin gömul. “Maður er eiginlega útskúfaður úr þjóðfélaginu, flokkaður sem óvinnufær stofnanamatur upp á náð og miskunn annarra. Maður má varla hafa skoðanir, má ekki einu sinni sækja um starf. Á þessum aldri hefur fólk mikla reynslu og þekkingu en má ekki miðla þessari þekkingu. Þvílíkir fordómar.” Bryndísi finnst þetta til skammar og segist finna mun minna fyrir þessum aldursfordómum annars staðar í heiminum.

Hún heldur sér ungri með ýmsum hætti, en þó aðallega með því að halda sínu striki. “Maður verður að hafa gaman af því að lifa og vera forvitinn. Ég má ekki missa af neinu,” segir hún hlæjandi. En það er svo sannarlega nóg að gera hjá Bryndísi. Þau hjón stunda menningarlífið af áhuga, sækja leikhús, tónleika og listsýningar, taka á móti gestum, halda miklar veislur og og kíkja á barina. “Ég ætla sko ekki að hætta að fara á barinn. Ef ég flytti til Reykjavíkur þá væri ég örugglega alltaf á börunum,” segir Bryndís og skellir upp úr. “Mér finnst það vera sjálfsagður hluti af hversdagslífinu, sérstaklega eftir að hafa vanist því sem ómissandi þætti daglegs lífs. Maður er manns gaman, er það ekki?”

Eins og komið hefur fram eru Bryndís og Jón Baldvin miklir vinir og hafa haldið neistanum í hjónabandi sínu í yfir fimmtíu ár. En hver er lykillinn að svo farsælu hjónabandi? “Við höfum löngum og löngum verið aðskilin, eins og öll þessi sumur sem ég var að vinna erlendis. Aðskilnaður vekur upp söknuðinn og skerpir ástina. Þá kviknar þessi neisti alltaf aftur. Svo er ekki gott fyrir konu að verða háð manni sínum, hvorki fjárhagslega né á annan hátt. Hún verður að vera sjálfstæð og hafa rými til að fara sínu fram. Karlmanninum finnst það alveg jafn óþægilegt og konunni ef hún hangir alltaf utan í honum.” Bryndís segir þó ýmislegt hafa breyst í samskiptum þeirra, frá því þau hættu að fara annað til vinnu á degi hverjum og fóru að verja tímanum saman á annan hátt. “Ég var til dæmis vön að stjórna öllu innan húss, smáu sem stóru, frá viðhaldi og viðgerðum að matseld og öðru þess háttar. En allt í einu finnst JB orðið gaman að elda og þá reyni ég að forða mér. Hann er svona maður sem fer nákvæmlega eftir uppskriftinni en ég er meira fyrir að spila af fingrum fram – og þannig er það líka með okkur í lífinu sjálfu.”

Þá er Bryndís sjálfskipaður einkaritari eiginmanns síns, enda kann hann, að hennar sögn, ekki á lyklaborðið á tölvunni. Hún segir hann ekki hafa vélritað sjálfur síðan hann fékk fyrst einkaritara þegar hann var skólameistari á Ísafirði. “Hann hafði einkaritara í öllum sínum störfum eftir það svo hann hefur alveg gleymt því hvernig á að vélrita. Hann getur því ekki komið frá sér svo mikið sem bréfi nema ég sé á staðnum.” Bryndísi leiðist fyrkomulagið þó ekki neitt. Þetta eru þeirra stundir saman og samvinnan endurspeglar hve vel þau virka saman sem ein heild. Hún viðurkennir að þau séu í raun enn sömu ástföngnu unglingarnir og þau voru fyrir tæpum 60 árum. “Á endanum er það ástin sem skiptir öllu máli, að lifa með og fyrir einhvern, það kemur ekkert í staðinn fyrir það,” segir Bryndís í einlægni að lokum.

Og við tekur myndataka, þar sem hún vill að hatturinn fái að njóta sín sem vísun í forsíðu Vikunnar árið 1956, fyrstu stóru myndina af henni á opinberum vettvangi.