Guð hjálpar þeim, sem hjálpa sér sjálfir

Hann Jamshaid náði bílprófinu í fyrstu atrennu – og fór létt með það!

Þið munið kannski ekki eftir Jamshaid, en hann er landlausi og vinalausi strákurinn frá Pakistan, sem ég sagði ykkur frá löngu fyrir jól. Sá sem við skutum skjólshúsi yfir, á meðan við brugðum okkur af bæ – þ.e.a.s. heim til Íslands – yfir vetrarmánuðina. Hann hírðist hér aleinn í húsinu mánuðum saman, bíðandi eftir því, að hin spænska „útlendingastofa“ sæi aumur á honum og gæfi honum leyfi til landvistar.

Ég veit það hafa verið langir mánuðir og einmanalegir. En Jamshaid er svolítið sérstakur – líklega það sem maður kallar sjálfum sér nægur. Varla orðinn lögráða, eiginlega bara barn. En samt ótrúlega einbeittur, staðráðinn í að lifa allt af, einsemd, atvinnuleysi, jafnvel höfnun samfélagsins. Hann skipulagði líf sitt frá morgni til kvölds – á sama hátt og menn hljóta að gera, sem afplána langa fangavist og einangrun. Fór snemma á fætur, borðaði reglulega – aðallega soðin grjón, enda félaus – fór í langar göngur, stundaði líkamsrækt og synti í sjónum. Aldrei kvartaði hann.

Og svo gerðist undrið, loksins, undir lok febrúar – Jamshaid var veitt langþráð landvistarleyfi, orðinn frjáls maður með kennitölu og gat farið allra sinna ferða. Það var svona rétt um það leyti, sem vonin var að bresta og áhyggjurnar farnar að halda fyrir honum vöku. Þið munið það kannski ekki, en lögreglan var á eftir Jamshaid og hefði getað sent hann til baka eins og hvert annað kennitölulaust aðskotadýr á þann stað, sem hann kom frá, hvenær sem var. Þvílíkur léttir! Við fengum fréttirnar fyrst allra og fögnuðum innilega – þetta var lífsgjöf.

Með kennitöluna í brjóstvasanum fór Jamshaid strax að leita sér að vinnu. Við vorum ekki mjög bjartsýn. Hann fór bæði til Motril, Malaga og Granada. Gekk á milli fyrirtækja og falaðist eftir starfi. Hér í Andalúsíu er atvinnuleysið í tveggja stafa tölu, og mest meðal unga fólksins, sem getur ekki flutt að heiman, fær ekkert að gera og mun aldrei eignast þak yfir höfuðið.

En viti menn, það liðu ekki nema fimmtán dagar, þar til Jamshaid hrósaði sigri, kominn með vinnu hjá forríkum Kínverja, sem rekur stórmagasín í úthverfi Granada. Ég hugsa, að þessi Kínverji hafi einmitt verið að leita að svona manni eins og Jamshaid, samviskusömum, heiðarlegum, vinnusömum – og þakklátum, sem er auðvitað mikilvægast. Enda sagði Kínverjinn það. „Þú færð vinnuna, af því að þú skilur mikilvægi vinnunnar. Án hennar ert þú bjargarlaus. Það sama á ekki við um unglinga hér í landi, þeir geta alltaf flúið heim í hreiður foreldra sinna. Fyrir þeim er vinnan ekki lífsspursmál“.

Kínverjinn byrjaði á því að ráða Jamshaid til þriggja daga. Að þremur dögum liðnum sagði hann: „Gott, gott, nú ræð ég þig til þriggja mánaða, þú vinnur tíu tíma á dag, hefur frí á sunnudögum. Launin eru lág, en þú ert sjálfsagt ekki þurftafrekur. Ef þú stendur þína plikt, þá verður þú fastráðinn. Einu sinni stóð ég í sömu sporum og þú, einn og yfirgefinn í ókunnu landi. Svo að ég skil þig, og ég er ánægður með þig. Þú ert alveg á við besta Kínverja!

Og þá er nú mikið sagt, segir Jamshaid.

Að hans sögn setjast þeir kínversku aldrei niður í mötuneytinu í stórmagasíninu, borða standandi og eru horfnir aftur til vinnu, áður en seinasti bitinn er kominn oní maga. Jamshaid dáist mikið að sjálfsaga og elju þessa fólks – enda er það líkast til í sömu sporum og hann sjálfur – á líf sitt undir að hafa starf og eitthvert athvarf í einsemd sinni.

Jamshaid er fluttur frá okkur. Það er of langt að ferðast á milli í strætó daglega. Nú leigir hann sér herbergi inni í Granadaborg hjá stórri fjölskyldu, sem á líka ættir sínar að rekja til Pakistan. Svo er hann líka búinn að kaupa sér hjól og er ekki nema fjörutíu mínútur í vinnuna – strætósparnaður og fín líkamsrækt.

Honum líður vel og er strax farinn að hugsa til framtíðar. Ef kínverski búðareigandinn ræður hann til frambúðar, ætlar Jamshaid að leigja sér íbúð í hinni fögru borg og senda farmiða til pabba og mömmu í Pakistan – og litlu systkinanna þriggja. Honum er enn efst í huga að sjá þeim farborða, finna vinnu handa pabba og senda systkinin í skóla, gefa þeim þá menntun, sem hann fékk ekki.

Já, og Jamshaid náði bílprófinu í fyrstu atrennu, hugsið ykkur. Mér skilst, að það sé næstum óhugsandi hér á Spáni. Svo að þið sjáið, að þetta er töff nagli. Og hann á eftir að spjara sig. Við þurfum ekki að sjá eftir því að hafa skotið yfir hann skjólshúsi, meðan hann beið milli vonar og ótta. Guð hjálpar þeim, sem hjálpa sér sjálfir.