Hann talaði non-stop – lá mikið á hjarta. Það var engu líkara en að hann hefði verið að bíða eftir okkur. – Fjölskyldan hafði flúið fátækt og basl stríðsáranna, þegar hann var örlítill hnokki. Hann hafði því lært sína ensku í Toronto – en með ítölskum hreim þó – það fór ekki fram hjá neinum. Nema hvað, að allt þetta var hann eiginlega búinn að segja okkur, áður en við vorum lögðum af stað út á flugvöll.
Við hugsum til áranna fyrir vestan – þegar verið var að skapa Menntaskólann á Ísafirði frá grunni – sem blómaskeiðs. Frá upphafi voru vonir bundnar við, að með stofnun skólans mundi Vestfjörðum haldast betur á ungu atgervisfólki. Þær vonir, einar og sér, voru kannski ekki raunhæfar. Meira þurfti að koma til. Engu að síður hefur skólinn átt sinn þátt í því að gera flóru mannlífsins, einkum í höfuðstað Vestfjarða, fjölbreyttari og lífvænlegri.
Það stóð yfir maraþonhlaup í borginni þennan sunnudagsmorgun, svo að helstu götur voru lokaðar bílaumferð. Þess vegna urðum við að fara ótal krókaleiðir og þræða úthverfin. Catalano sagðist þekkja borgina eins og lófann á sér, búinn að vera leigubílstjóri frá fimmtán ára. Að vísu löngu kominn á eftirlaun. Nú væri hann bara að skemmta sér – og vinna sér inn smávasapening í leiðinni.
Hann ók hægt til að byrja með, vildi fræða okkur um borgina. „Í þessu hverfi býr ríkasta fólkið“, sagð hann og benti út um gluggann. Ég sá bara fallegan gróður í haustlitunum og háa veggi á báðar hendur – svo háa, að ekki sáust hallirnar að baki. Við rammgerð hlið stóðu einkennisklæddir verðir, sem skotruðu til okkar augunum – eflasut búnir að vaka alla nóttina. „Húsin eru svo stór í þessu hverfi, að það þarf a.m.k. fimm manns bara til þess að þvo gólfin. Og það tekur svo langan tíma að þvo þau öll, að þegar einni umferð er lokið, er kominn tími á næstu. Haldiði að það sé líf! Sá allra ríkasti á heilt símafyrirtæki, tekur gjald í hverti skipti sem maður lyftir tóli. Sorry, en hann er reyndar nýdauður, svo að nú er hann orðinn ríkasti maðurinn í kirkjugarðinum! Joke!
Það er sagt, að konan hans sé búin að yngja upp, kominn með einn tuttugu og fimm ára! En ég sel það ekki dýrara en ég keypti!“
Ég sá, að hann teygði sig fram til að geta kíkt á okkur í speglinum – vildi eflaust kanna, hversu langt hann mætti ganga, án þess að móðga okkur. Við bara brostum og létum fara vel um okkur í baksætinu. Við vorum að reyna að gera okkur í hugarlund, hversu stór þessi hús eiginlega væru þarna handan við vegginn – fimm manns að þvo gólf alla vikuna!
Um leið og hann hægði á sér til að skipta um gír og beygja inn á hraðbrautina, tókst mér að skjóta inn: „Ert þú kannski búinn að yngja upp?“
Bíllinn var kominn á ógnarhraða, en engu að síður sleppti Catalano stýrinu og fórnaði höndum hátt yfir höfði sér – við ókum stjórnlaust, svei mér þá! „Það hefur aldrei í lífinu hvarflað að mér að eignast konu“, hrópaði hann. „Ég hefði aldrei verið svo vitlaus að fara sjálfviljugur í lífstíðarfangelsi! Líttu á vini mína, hina bílstjórana. Þeir geta aldrei um frjálst höfuð strokið. Konurnar láta þá aldrei í friði. Hringjandi alla daga. Hvað ertu kominn með mikið í vasann? Mig vantar þúsund fyrir kvöldið. Þarf að kaupa nýjan sófa, fara í andlitslyftingu, út að borða með stelpunum. Þeir, blessaðir, verða að sitja og standa, eins og kellingunum þóknast, afhenda þeim hýruna í dagslok og eiga ekki einu sinni fyrir bjórglasi, þegar upp er staðið. Ég prísa mig sælan fyrir að hafa aldrei orðið svo vitlaus að taka að mér að sjá fyrir konu – ég á nóg með sjálfan mig“.
Hann var orðinn svo ákafur og svo angistarfullur, að það var næstum eins og hann væri að reyna að sannfæra sjálfan sig – ekki bara okkur. Sá hann kannski – þrátt fyrir allt – eftir því að hafa aldrei haft félagsskap af konu? Hafa aldrei elskað, aldrei verið elskaður? Við þögðum bæði í aftursætinu. Fannst hann fyndinn. En var hann kannski svolítið einmana innst inni?
Loksins lagði hann hendurnar aftur á stýrið og gaf í – við vorum að verða of sein.
En þetta með lífstíðarfangelsi – það sat eftir í mér!