Gísli Marteinn: Brosað gegnum tárin, umfjöllun

Einhver hringdi í mig snemma í morgun, og tjáði mér, að Gísli Marteinn (heitir hann það ekki?) hefði farið nokkrum háðulegum orðum um nýju bókina mína í sjónvarpssal í gærkvöldi.
Sá sem hringdi sagði, að það hefði verið góð auglýsing – virkaði vel.

Takk fyrir það – það sparar.

Svo var mér líka sagt, að einhver ömurlegasta klámbrella íslenska ríkissjónvarpsins, ever, hefði verið sýnd í afmælisþætti vinar míns, Ómars Ragnarssonar kvöldið áður – bæði ógeðsleg og persónuleg – og þar hefði ég líka komið við sögu.

Klámbrellan hét „Stundin okkar fyrir fullorðna.“ Þetta var brot úr áramótaskaupi RÚV frá árinu 1982. Á þessum árum var ég með Stundina okkar. Ég veigra mér ekki við að segja það hér og nú, að ég lagði mig alla fram um að gera þættina áhugaverða og menntandi, leit á þá sem kennslustundir fyrir upprennandi kynslóð um lífið og tilveruna, en ekki bara innantóma afþreyingu. Mér fannst ég vera að gera eitthvað sem skipti máli. Og ég hafði aldrei leitt að því hugann, að framkoma mín væri óviðeigandi, eða jafnvel ögrandi gagnvart áhorfendum. Ég klæddist þægilegum fatnaði, var frjálsleg, án þess að vera uppstríluð.

„Stundin okkar fyrir fullorðna“ frá árinu 1982 var stutt innslag, kannski fimm eða tíu mínútur. Sú mynd, sem var dregin upp af mér í þessari „Stund fyrir fullorðna“ var hatursfull og hreint út sagt kvenfjandsamleg – hreinn viðbjóður. Svívirðileg árás á mína persónu. Eins og hver önnur glyðra ota ég mínum gervibrjóstum að Þórði húsverði, sem stenst ekki mátið og hvolfist yfir glyðruna slefandi af losta. Konan sem sá um barnatímann í sjónvarpi allra landsmanna hafði sumsé fyrst og fremst í frammi kynferðislega áreitni við karlþjóðina – undir yfirskyni barngæsku.
Þetta var kveðjan, sem ég fékk frá fyrrverandi samstarfsfólki mínu í sjónvarpinu – og ég þakka fyrir það.