Það sem mig langar til að segja þér, Bryndís, er, að mér finnst bókin þín vera falleg.
Ég les venjulega ekki ævisögur. Ég vel mér frekar fantasíubækur um hluti sem ekki finnast í okkar heimi, eins og dreka, galdra, álfa – og réttlæti.
En bókin þín er svo falleg, að það tók mig smá tíma að komast í gegnum hana. Á sumum stöðum einfaldlega táraðist ég og varð að taka mér smá pásu. Stundum af því að allt var svo fallegt, eða svo sorglegt – og stundum bara svo satt.
Bókin er eitthvað svo… þú. Ég veit, að ég þekki þig náttúrulega bara af mömmu, sem var skólasystir þín og þótti vænt um þig – og þinni opinberu persónu. En það er málið: Sumt fólk er svo blátt áfram, að það kemur mér alltaf á óvart, þegar aðrir sjá það ekki. Af sumu fólki geislar.
Og bókin passaði svo við þá mynd sem ég hafði. Fallegt hvernig hver kafli er um eitt tímabil eða stað, en innan kaflans gefur þú þér rými til að dansa til og frá í tíma. Eins og hver kafli sé svið, ekki beint línulegt – og svo gerðist, og svo gerðist – heldur farið fram og til baka eins og tilfinningarnar og sögulistinn kallar eftir. Ljóðrænn dans orða og minninga í gegnum tímann.
Það var svo gaman að lesa hvað þú hefur mikla ástríðu fyrir tungumálum. Ég til dæmis vissi ekki að þú hefðir kennt, hvað þá mitt uppáhald… latínu.
Ég er svo glöð yfir, að þú skulir hafa komið þinni sögu út. Veistu, að ég held að það hafi bara verið nauðsyn, og ég veit að mamma, hefði verið sammála. Það að finnast enginn hlusta á mann eða taka mark á manni varðandi eigið líf, er sálardrepandi. Núna er bókin komin út og enginn getur nokkurn tímann tekið það af þér. Fólk getur verið ósammála (hversu furðulegt það er samt, að fólk geti verið ósammála um manns eigin upplifanir af eigin lífi?), en bókin er skrifuð, og þín saga er þarna á prenti. Og hana nú!
Það er stundum erfitt að finna réttu orðin… Mér finnst ég skilja þig miklu betur eftir bókina. Ég skil núna fólkið sem ræðst að þér. Ég veit að ég er að segja hlutina rangt…það sem ég meina er… Fólk sem alltaf er með grímu skilur ekki manneskju eins og þig. Það er ekki fært um það lengur. “Margur telur mig sig” segir máltækið, og fyrir þessu fólki er þetta svo bókstaflegt. Það er alltaf að reyna að sjá hvað er undir. Það skilur ekki manneskju sem bara er, stelpuna sem vildi dansa af ástríðu… og gerir það enn. Þú ert einlæg, og því er haldið gegn þér. Hver getur svo sem verið einlægur lengur? Nei, þá hlýtur eitthvað að liggja undir, eitthvað ljótt.
Illa er komið fyrir þessu samfélagi, þegar manneskja eins kaldhæðin og ég, er farin að sjá hversu lítils einlægnin er metin og hversu fáir þekkja hana lengur í raun. Kannski er það einmitt þetta sem er að – enginn trúir lengur á ástríður eða einlægni… frekar en dreka og réttlæti. Þú ert eins óskiljanleg því fólki og twitter er óskiljanlegt mér.
En mér fannst alla vega þessi bók vera dásamleg. Ég á eftir að lesa bókina hans Jóns, en ég verð að segja að mér finnst dálítið ósanngjarnt að hann þurfi að koma á eftir þinni bók í mínum lestri. Hann er flottur maður og manna gáfaðastur, en ég efast nú um, að hann geti vakið jafnmiklar tilfinningar eða verið alveg jafn ljóðrænn og þú.
Takk fyrir bókina Bryndís. Hún færði mig aftur í tíma, svona eins langt aftur og manneskja á mínum aldri getur farið sjálf. Og ég veit ekki hvort þetta voru verri eða betri tímar… en stundum finnst mér eins og þeir hafi verið aðeins meira mennskir en tímarnir í dag.
Vona að þetta raus mitt hafi ekki tekið of mikinn af þínum tíma, en það er ekki alltaf sem hægt er að senda tölvupóst á höfund bókar sem manni líkaði!