Bryndis Schram hefur skrifað merkilega bók, “Brosað gegnum tárin”. Kemur víða við: æskuminningar, Ísafjarðarár, margvísleg störf, pólitík, langdvalir í útlöndum. Dásamlegar frásagnir, skemmtilegar, litríkar, fullar af húmor og hlýju …
Skarpar svipmyndir af samferðafólki, ma. eftirminnilegar lýsingar á tengdaforeldrunum, Hannibal og Sólveigu. Líka mörgum listamönnum og stjórnmálamönnum, íslenskum og útlenskum.
Bryndís er merkileg og sterk kona, sem hefur unnið mikil afrek í lífinu. Maður hennar, Jón Baldvin Hannibalsson
er einn merkasti stjórnmálamaður Íslendinga. Í bókinni er listilega fjallað um samferð þeirra í rúma sex áratugi. Þar margt áhugavert, fagurt og skemmtilegt – og Bryndís skrifar léttan, skýran og lipran texta.
En þau hafa líka lent í mótvindi.
Snæfríður heitin dóttir þeirra eignaðist mann og barn. Maðurinn reyndist ofbeldismaður á heimili. Reyndi að halda konu og barni nauðugu á heimili þeirra í Mexíkó. Jóni Baldvin og Bryndísi tókst að frelsa dóttur sína og dótturdóttur úr nauðungarvistinni – með hjálp íslenska ræðismannsins.
Ofbeldismaðurinn kærði þau fyrir “barnsrán”. Sumir íslenskir fjölmiðlar tóku málstað hans af miklum krafti. En Jón og Bryndís höfðu betur fyrir dómstólum, með dyggri aðstoð lögmannsins Reimars Péturssonar. Dómskerfið virkaði …
Í bókarlok er fjallað um mikinn fjölskylduharmleik: ásakanir elstu dóttur þeirra hjóna gegn föður sínum. Það er dapurleg lesning.
Bryndís gerir glögga grein fyrir sjónarmiðum þeirra hjóna. Greinir líka frá stuðningi Kolfinnu, Glúms og Snæfríðar heitinnar við málstað föður þeirra.
#meetoo hreyfingin hefur skipt miklu máli undanfarin ár fyrir réttindabaráttu kvenna. Og dómskerfið hefur vissulega oft brugðist konum. En viljum við þess vegna taka upp “aftökur” án dóms og laga? Er ekki réttarkerfið enn meðal merkilegustu uppgötvana mannkyns?
Ps. Las svo aftur eldri bók Bryndísar, “Í sól og skugga” frá 2008. Það er líka fróðleg, skemmtileg og góð bók …