Sighvatur Björgvinsson: Brosað gegnum tárin, ritdómur

Eitt líf – mörg æviskeið. Sagan hennar Bryndísar Schram.

Nýlega kom í bókaverslanir bókin „Brosað í gegn um tárin“.  Þar rekur Bryndís Schram lífssögu sína.  Sú lífssaga er löng og kemur víða við.  Þetta er saga eins lífs – en saga margra æviskeiða, sem hvert um sig eru hinum ólíkt.  Um margt heillandi lesning, fróðleg lesning en einnig dapurleg og nístandi. Saga einnar mannssálar, sem á að baki sér svo ólíka ævidaga, um margt svo ólíka lífsreynslu, í svo síbreytilegu og gerólíku umhverfi og við svo ólíkan aðbúnað.  Eitt líf – mörg æviskeið.

Ástríkt uppeldi.

Bryndís ólst upp í borgaralegu umhverfi í höfuðstaðnum, Reykjavík. „Í borgaralegu umhverfi“ er ekki sagt í niðrandi merkingu heldur í ljósi þeirra viðhorfa, að fjölskylduna skorti hvorki fæði né klæði, foreldrarnir nutu þess að geta veitt börnum sínum öruggt og gott skjól þar sem hver og einn fékk öll tækifæri til þess að njóta sín og foreldrarnir voru hvarvetna og einætt nærri til þess að geta veitt þann stuðning og þá hlýju, sem þeir veita vildu og þörf væri á.  Þannig var ekki umhverfi allra barna í Reykjavík – síður en svo.  En þannig umhverfi vildum við jafnaðarmenn fá skapað fyrir hverja og eina fjölskyldu.  Öryggi, samheldni, samúð og traust.  Auðvitað naut Bryndís þessara aðstæðna.  Hún dregur enga dul á það í frásögn sinni.  Maðfæddir hæfileikar hennar til náms og til starfa  fengu að njóta sín og til þess að svo mætti verða til fullnustu naut hún stuðnings sinna foreldra og  fjölskyldu.  Ekki í fjármunum heldur í nánd, í orði og í verki.  Fjölskyldunándin var hennar öflugi bakhjarl á öllu hennar fyrsta æviskeiði.

Hæfileikar nýttir

Við þessar aðstæður naut Bryndís þess að geta nýtt til fullnustu hæfileika sína.  Hún nýtti þá vel og náði góðum árangri hvort heldur sem er hvað varðar gáfur, listfengi og greind ellegar líkamlegt atgervi og gjörvileika.  Þannig skapaði hún sér sína sjálfstæðu tilveru þar sem framtíðin beið björt og brosandi – þangað til hún þurfti að velja á milli tveggja kosta.  Sinna eigin framtíðardrauma, sem hún var komin vel á veg með – og hins, að fylgja á vegferð þeim maka, sem hún hafði valið sér sem lífsförunaut.   Um það val segir hún sjálf í lífssögu sinni að hún: „Hefði verið hrifin úr sinni sjálfstæðu tilveru“.  Það gerðist, þegar hún kaus að fylgja eiginmanni sínum, Jóni Baldvin Hannibalssyni, frá höfuðborgarumhverfinu, þar sem hún hafði skapað sér sína „sjálfstæðu tilveru“ og til Ísafjarðar þar sem allt umhverfi var gerbreytt frá Því, sem hún átti að venjast.

Ísafjörður, umhverfi mitt.  Ég trúi því vel, sem Bryndís segir, að það umhverfi hafi komið henni öðru vísi fyrir sjónir en hitt, sem hún hafði dvalið og starfað í.  Hún telur sig hafa verið afskipta á Ísafirði.  Þar hafi verið litið svo á, að hún og þau hjón bæði væru aðkomnir broddborgarar, sem lítið ættu sameiginlegt með íbúunum.  Hún vinni ekki í fiski.  Ekki var það mín upplifun af veru þeirra hjóna þar vestra.   Ég man fátt af Því, að nokkur Ísfirðingur hefði talað um þau hjónin sem utanaðkomandi broddborgara, sem ekkert erindi ættu þar á staðnum.  Man ekki betur, en að Jón Baldvin hafi verið kjörinn sem bæjarfulltrúi að mestu leyti fyrir eigin tilverknað og hafi stýrt bæjarfélaginu um skeið.  Það getur enginn gert sem ekki hefur haft stuðning almennings á Ísafirði.  Og Bryndís tók við starfi skólameistara á Ísafirði í fráföllum Jóns örfáum árum eftir að hún fluttist vestur.  Gegndi því með sóma og við góðan orðstír. Mikil breyting hafði orðið á hennar „sjálfstæðu tilveru“.  Ný tilvera risin.  Nýtt æviskeið framundan.

Kynnin.

Jóni Baldvin og Bryndísi kynntist ég fljótlega eftir að þau hjónin settust að í heimabæ mínum – og okkar Jóns Baldvins beggja.  Árið 1974 heimsóttum við Vilmundur heitinn Gylfason þau hjónin í íbúð þeirra í Sundstrætinu og ræddum að sjálfsögðu pólitík.  Fyrsti sameiginlegi framboðsfundur, sem ég sótti vestra í kosningunum 1974, var haldinn í félagsheimilinu á Norðurfirði á Ströndum.  Þar mættum við báðir – ég og Jón Baldvin – í framboð hvor fyrir sinn flokk.  Þangað hafði ég aldrei áður komið.  Veitti því hins vegar athygli, að þegar annar hvor okkar Jóns Baldvins hófum máls þá kom fundarfólk allt aftur inn í salinn, settist niður og hlustaði.  Þegar frambjóðendur Sjálfstæðisflokks og Framsóknar fóru í ræðustól þá fóru sumir karlarnir út til þess að fá sér í nefið – en sumar konurnar fóru að ræða búskapinn.  Aðeins einn fundargesta þekkti ég með nafni.  Guðmund í Bæ.  Góðan og gegnan Framsóknarmann. Ég spurði hann hvort verið gæti að við kratar ættum einhvern stuðng í Árneshreppi.  „Af hverju heldur þú það?“ spurði Guðmundur.  „Af því að allir koma inn þegar við Jón Baldvin förum að tala en margir fara burtu og út þegar þið eða íhaldið fáið orðið“.  „Nei“, sagði Guðmundur í Bæ.  „ Hér eigið þið kratarnir engan stuðning.  Það er bara ekki oft á ári, sem fólk hérna í sveitinni fær að sjá krata.  Það er forvitið – ekki um það sem þið segið, heldur hvernig þið eiginlega lítið út.“

Æviskeið tvö

Tilvera þeirra hjónanna sem skólameistarahjóna vestur á Ísafirði – tilvera, sem flestum nægir í heilt æviskeið – varð ekki langæ.  Þau hurfu bæði þaðan en hvorugt þó til algerlega nýrrar tilveru.  Jón Baldvin til þess að helga sig alfarið stjórnmálaþátttöku; fyrst sem ritstjóri og svo sem þingmaður, flokksformaður og ráðherra.  Bryndís tók upp aftur þráð sinnar fyrri tilveru sem sviðslistamaður auk þess sem hún fetaði nýjar brautir sem virkur þátttakandi í borgarmálum.  Nýtt æviskeið framundan.  Æviskeið sem ég þekki vel til.  Æviskeið, þar sem ég og þau hjónin, vorum samferða.  Á því tilveruskeiði kynntist ég þeim hjónum persónulega, einkum þó Jóni Baldvin.  Við, sem höfðum hildi háð á síðustu árum hans vestra, gerðumst fyrst samherjar, svo samstarfsmenn og loks vinir.

Ég þekki því báðar hliðarnar á Jóni Baldvin.  Bæði þá hlið, sem þeir þykjast sjá sem telja sig eiga í útistöðum við hann  sem og hina, sem snýr að vinum og samherjum.  Í öll þau ár, sem við áttum í samskiptum – þau ár þegar þau samskipti snerust um átök og snerrur og þann langa tíma, sem leiðir okkar lágu saman – heyrði ég aldrei svo mikið sem brot á hann borið af þeim ásökunum, sem síðar hefur orðið.  Jafnvel í hörðum átökum okkar á milli í Vestfjarðakjördæmi, þar sem hvorugur hlífði öðrum, heyrði ég aldrei svo mikið sem hvískur um það, sem hann áratugum síðar var borinn sökum um.  Í jafn hörðum slag og við þar áttum hefðu slíkar sögur, ef sannar væru, ekki verið lengi að berast mér og mínum stuðningsmönnum til eyrna.  Engan minnsta ávæning heyrði ég af slíku fyrr en áratugum seinna þegar fjölskylduharmleikur þeirra hjóna hafði verið vakinn af þeim, sem nánust var þeim hjónum en jafnframt eins fjarlæg þeim og mest getur orðið af völdum sjúkdóms, sem engum og engu eirir

Æviskeið þrjú.

Næsta ævikafla í frásögn Bryndísar ég vel þekki og minnist með hlýju og stolti.  Í skammvinnri fjármálaráðherratíð Jóns Baldvins þegar hann á örfáum misserum innleiddi staðgreiðslukerfi skatta og tilurð virðisaukaskatts, sem margir fyrirrennarar hans – og ég var einn þeirra – hefðu þurft a.m.k. heilt kjörtímabil til að ljúka við; ef þeir hefðu þá haft dug og kraft til þess.  Og farsælt starf hans sem utanríkisráðherra þar sem hann leiddi þjóð sína inn í EES samstarfið, sem allir eru nú sammála um að hafi fært íslensku þjóðinni mestu og stærstu tækifærin í viðskiptasögu hennar við aðrar þjóðir og tryggt sjálfsögð mannréttindi eins og neytendavernd, sem enginn áhugi var hjá íslenskum stjórnvöldum að tryggja, þótt við jafnaðarmenn hefðum margsinnis flutt um það frumvörp á Alþingi sem aldrei hlutu þar afgreiðslu.  Mikilsverðast frá utanríkisráðherratíð hans er þó þegar hann í óþökk stjórvalda margra bandalagsþjóða tók að sér það hlutverk að vera fyrsti evrópski stjórnmálaforinginn, sem ljáði frelsismálstað Eystrasaltsþjóðanna liðsinni.  Fyrir þá eindregnu og hugrökku afstöðu hefur Jón Baldvin hlotið meira lof á erlendri grundu en nokkur annar íslenskur stjórnmmálamaður hefur nokkru sinni hlotið – og líklega heldur enginn íslenskur stjórnmálamaður þegið jafn litla viðurkenningu meðal eigin þjóðar og hann þar sem illmælgin kæfir alla aðra umræðu.

Nýtt æviskeið.

Svo lauk þessu æviskeiði í lífshlaupi þeirra hjónanna og nýtt æviskeið tók við – í nýju umhverfi, við gerbreyttar aðstæður og meðal gerólíkra þjóða.  Dvöl þeirra hjóna sem sendiráðshjóna í Washington.  Þá sögu þekki ég lítt, enda víðs fjarri þeim vettvangi.  Hins vegar þótti mér og félögum mínum ýmislega vera með öðru sniði eftir þá sendiráðsævi en fyrrum.  Við tókum t.d. vel eftir því, að sósíaldemókratinn Jón Baldvin varð ennþá ákveðnari í þeirri afstöðu eftir Bandaríkjadvölina en áður var.  Norræna módelið, sem hann nefndi svo, var ekki bara æskilegast allra samfélagsgerða heldur margfaldlega langbest.  Og gamlir sósíaldemókratar eins og Olof Palme ekki lengur svona bæði-og heldur sannar fyrirmyndir.  Þetta er sagan um lífsreynslu þeirra hjóna á þessu æviskeiði.  Sagan um lífsreynslu sósíaldemókrata við gerólíkt umhverfi.

Og enn nýtt æviskeið.

Að loknum sendiráðsstörfunum tók svo við gerólíkt umhverfi, gerólíkt æviskeið.  Ferðalög borga, landa og heimsálfa á milli þar sem Jon Baldvin fór um m.a. til þess að ræða stjórnmál og stjórnmálastefnur en Bryndís til þess að hitta fólk, mæta fólki, upplifa umhverfi og menningu og skoða gerólíkt mannlíf.  Í bókinni heldur Bryndís á pennanum.  Hún er þar ekki að lýsa viðfangsefnum bónda síns, sem höfðu markað sterkt alla þeirra tilveru, heldur til þess að segja frá því, sem hún sjálf hafði séð, heyrt, kynnst, skilið og skoðað í mörgum og miklum ferðalögum þeirra hjónanna.  Þessi frásögn hennar er ekki bara skemmtileg og fróðleg heldur einnig skilmerkileg og greinargóð frásögn af gerólíku umhverfi, gerólíkum samfélagsháttum – og gerólíku fólki.  Áhugaverð lesning og vel rituð.

Og svo harmleikur.

Lokafrásögn bókarinnar er harmleikur.  Aðstæður í samtímanum eru vissulega núna gerólíkar þeim aðstæðum sem tilheyrðu daglegu lífi okkar jafnaldra þeirra hjóna.  Ásakanir um framferð karls gegn konu, sem þá var ekki gert mikið úr, eru nú álitnar vera dauðasynd.  Grófar ásakanir um barnaníð gegn eigin afkvæmum eru ítrekaðar og endurteknar af ókunnugum eins og satt og sannað væri og notaðar sem rökstuðningur fyrir æruráni – þó ekkert slíkt hafi gerst, þrætt hafi verið fyrir það m.a. af þeim, sem fullyrt hefur verið að hlut eigi að máli. Látið er duga sem sönnunarfærsla, að einstaklingur í nánu fjölskldusambandi við sökunaut hafi borið fram þær ásakanir, þó öll önnur skyldmenni, sem sökunautur á að hafa níðst á, hafni því með öllu og lýsi hreina lygi og uppspuna.  Og ef nógu margir ítreka ásakanirnar þá er það álitið til merkis um sannleika – þó aldrei hafi neinar sannanir af neinu tagi verið fram færðar.

Geðsveiflur er sjúkdómur, sem ég hef reynslu af sem vinur sökunauta – annarra en fjölskyldu Jóns Baldvins Hannibalssonar.  Þegar sú var tíðin, að illa sjúkur einstaklingur, sem óttast væri að gæti skaðað sjálfan sig eða aðra, þurfti að áliti geðlæknis tafarlaust á líknandi meðferð að halda þá var slíkt ekki hægt nema náið skyldmenni – foreldri eða maki – féllist á að viðkomandi yrði lagður inn á geðdeild til meðferðar. Oftar en ekki urðu það viðbrögð sjúklingsins, að kenna  foreldri eða maka um ekki bara innlögnina heldur jafnframt um alla erfiðleika, sem sjúklingur hafði þurft að mæta – og hinn sjúki jafnvel búið til hrein ósannindi um hversu ámælisvert framferði makans eða foreldrisins hefðu verið gagnvart sér og sínum.  Stundum var þeim ásökunum trúað, jafnvel af nánum vinum, og ásakanir hins sjúka endurteknar til níðs og lasts yfir þeim, sem veitt hafði geðlækni heimild til þess að takast á við alvarlegan sjúkleika nákomins til þess að forða því, að sá hinn sami yrði sér sjálfum eða náunganum að skaða.

Ég hef sjálfur orðið fyrir því að þurfa að horfast í augu við slíka reynslu í mínum vinahópi og ég hef fundið mikið til með þeim vinum mínum, sem þurft hafa að mæta slíkum viðbrögum. Lokin á sögu Bryndísar um langt líf og margar ævistundir er einmitt saga af slíkri lifan.  Hörmuleg, sárgrætileg og skelfileg.  Merki um nýja tíma, sem engu og engum eirir.  Þar sem óttinn ræður för, sviptir sundur vináttu og væntumþykju og þar sem reglur réttarríkisins um sakleysi nema annað sé sannað eru smánaðar, að engu hafðar en ámælin endurtekin af þeim, sem ekki öðru þora.  Nákvæmlega eins og gert var af vinum, nágrönnum, samstarfsmönum og samferðamönnum í aðdraganda Kristalsnæturinnar og þeirra atburða, sem henni fylgdu.

Sighvatur Björgvinsson.