Þráinn Hallgrímsson: Brosað gegnum tárin, ritdómur

Bryndís Schram, umsögn um bókina hennar 070920lokaskj

Óður til lífsins

Bréf til Bryndísar Schram um Brosað gegnum tárin

 -eftir Þráin Hallgrímsson

Ég ætla að hafa þann háttinn á að senda þér lítið letters bréf í tilefni bókar þinnar sem nú er að koma út. Mér finnst það við hæfi. Sendibréf hafa gegnt sérstöku hlutverki allt þitt líf. Frásögn þín byggir oftar en ekki á efni bréfanna.  Það að eiga þessi gömlu samskipti „skjalfest“ í gamaldags sendibréfum er eimitt öryggið fyrir því að það eru þínar tilfinningar og þinn veruleiki sem er dreginn fram og endurspeglar síðan atburðarás og samskipti þín við þína nánustu.

Þetta leiðir mig að öðrum sannindum.  Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að þeir sem ætla segja sögu sína, eigi fyrir alla muni að gera það sjálf/ir. Ekki fá öðrum efnið eða handritið í hendur. Gera þetta sjálf.Brosað gegnum táriner góð bók. Ég hef ýmislegt lesið frá þér á lífsleiðinni en fullyrði nú að þérhefur aldrei tekist betur upp.

En fyrst af öllu langar mig að hrósa þér fyrir kjark þinn og einlægni sem skín í gegnum textann á hverri einustu síðu bókarinnar. Ég veit af langri reynslu að þér verður ekki þakkað fyrir hreinlyndi eða þor. Áhrifarík er lýsing þín á móður þinni og föður, ástríki þeirra, hvernig mamma var alltaf heima og tók á móti þér úr skólanum, aðstoðaðiþig á dýrmætu mótunarskeiði. Heimavinnandi elskandi móðir margra barna sem sá um allt sem snéri að heimilinu, á líklega ekki upp á pallborðið hjá feministum nútímans.En hún talar sterkt til okkar sem þekkjum nákvæmlega þennan tíma þegar ein laun voru látin duga til að sjá fyrir rekstri heimilis og „mamma var alltaf heima“ til að taka á móti svöngum börnum sem þurftu kærleika og aðstoð að loknum vinnudegi í skólanum.

Þér verður heldur ekki þakkað fyrir hreinskilna frásögn af framkomu framámanna í þinn garð. Það kemur að því hjá okkur öllum, sem þekkjum áhrif rógburðar á sálarlíf okkar, að einn daginn fáum við bara nóg. Segjum hingað og ekki lengra. Óhróður um okkur sjálf og okkar nánustu étur okkur smám saman að innan, hversu hörð sem við teljum okkur vera. En þú tókst af skarið í þessari bók og sagðir frá. Það er óvenjulegt ef ekki einstakt að þú sláir þannig frá þér. 

Það er vandasamt að draga fram fjölbreyttan lífsferil sem staðið hefur svo lengi sem þinn, Bryndís. Það er meistaralegt að takast að velja þá atburði og atriði sem skipta máli og mynda að lokum söguna þína. Ballettinn og dansinn í upphafi, leiklistarferilinn, kennarastarfið og skólameistarahlutverkið, listferill í sjónvarpi, svo bara nokkuð sé nefnt af hlutverkum þínum í lífinu. En þá er tvennt ótalið sem líður eins og rauður þráður í gegnum bókina. Annars vegar ástarsagan sem liggur í bakgrunni þessarar bókar þinnar og harmur fjölskyldunnar sem opinberast í lokakaflanum.

Þetta er ekki bók um afrek þín, dugnað þinnog hin vandasömu verkefni og störf sem þér hefur verið trúað fyrir á fjölbreyttri starfsævi. Viðfangsefnið er að lýsa lífinu og harminum sem þrúgaþig og fjölskylduna þegar ferðalokin nálgast.

Eitt afrek finnst mér þú vinna í þessari bók. Þú hefur aldrei skrifað jafn góðan texta. Hann er lipur og þægilegur, framvindan líður hægt og rólega fram og maður bíður eftir næstu síðum. Hún leiðir okkur smám saman að því meginatriði sem eflaust er tilefni skrifanna.

Hér ert þú leikstjórinn og aðalleikandinn, en aukaleikaranir eru um allt sviðið og koma inn þegar tími verksins kallar á þá. Minningarbrotin raðast saman úr langri ævi og starfsævi. Úr verður mynd af lífi þínu og tilveru sem er í senn heillandi en um leið tregablandin.

En þó að Brosað gegnum tárin sé öðrum þræði sprottin af djúpum harmi, listilega vel sögð flétta af lífi þínu, þá er hún að mínu mati fyrst og fremst óður til lífsins, óður til listanna, dansins, bókmenntanna, æskuástarinnar sem fylgir þér allt lífið og síðast en ekki síst er hún uppgjör við hin illu öfl sem hafa ásótt þig og fjölskyldu þína.

Von mín er sú að með þessu verki hafir þér tekist að reka vofurnar út í ystu myrkur þar sem þær eru best geymdar.

_________________________________________________________

Höfundur starfaði um árabil með Bryndísi Schram. Fyrst sem samkennari  í tungumálum við Menntaskólann á Ísafirði þar sem hann var kennari frá 1973-1980. Síðar sem blaðamaður á Alþýðublaðinu þar sem Bryndís var leiklistargagnrýnandi.