Örninn, hinn tígulegi fugl, er einfari, fer eigin leiðir, flýgur hátt, fjarri mannabyggð, er sjálfum sér nægur. Og þannig var Arna – eins og nafnið ber með sér. Alveg frá barnsaldri var hún mjög sjálfstæð, vissi hvað hún vildi. Ekki allra, að vísu, en íhugul og seinþreytt til vandræða.
Ég kynntist þessari bróðurdóttur minni, þegar hún var smábarn og kom í heimsókn til okkar að sumarlagi vestur á firði. Arna og Snæfríður, dóttir mín, voru jafnaldrar og urðu fljótt nánar vinkonur. Báðar með ljósan hadd og himinblá augu. Önnur feimin og hlédræg, hin á heimavelli á Ísafirði, og líklega ögn heimarík.
Nokkrum árum seinna, þegar við fluttumst suður, öll fjölskyldan, og settumst að á Vesturgötunni, varð Arna fljótlega ein af okkur – daglegur gestur. Þarna sátu þær skólasysturnar, hún og Snæfríður, iðulega við eldhúsborðið að hlýða hvor annarri yfir, þegar ég kom heim úr vinnunni síðla dags. Þær sváfu í sama rúminu – og gott ef þær ekki gengu í fötum hvor af annarri.
Þetta voru yndisleg ár, og fjölskyldan náði að sameinast á Vesturgötunni. Húsið stóð alltaf opið, og allir voru velkomnir, þar á meðal systkinabörn mín – allt Vesturbæingar. Arna hafði svolitla sérstöðu, af því að hún var besta vinkona Snæfríðar og brosti svo fallega.
Þegar Snæfríður var borin til grafar fyrir níu árum, skrifaði Arna eftirfarandi, og læt ég hennar fallegu orð vera lokaorðin í þessari kveðju minni:
„Ég sakna vinkonu minnar og frænku, og sorgin rífur í hjartað, en á sama tíma gleðst ég yfir góðum minningum um hana, sem ég mun varðveita og hlúa að, þar til minn tími kemur. Ég ætla að trúa því, að þá munum við hittast að nýju.“
Verði henni að ósk sinni, því að þá verða þar fagnaðarfundir.
Bryndís Schram