Jæja elsku besta sætust, nú er komið að minni gagnrýni á bókina “Brosað í gegnum tárin”. Fyrir mann eins og mig sem aldrei hefur lesið annað en nauðsynlegar skólabækur – og telur bóklestur tímaþjóf og þar að auki líklega hrjáður af lesblindu – er þessi bók þannig gerð, að það er nánast ómögulegt að leggja hana frá sér fyrr en hún hefur verið lesin til enda.
Bókin lýsir lífi manneskju sem hefur lifað ótrúlega fjölbreyttu og ástríðufullu lífi. Ástríða sem hún hefur til dans, menningar, frama, eiginmanns og fjölskyldu er með eindæmum. Fullt af fólki fær mikinn áhuga á einhverju og telur það vera ástríða. Það fólk verður að lesa um Bryndísi Schram til að fá skilning í hverju ástríða er fólgin.
Það er aðdáunarvert hversu fjölbreyttu lífi hún hefur lifað og hversu mörg áföll og mótlæti hefur staðið í veginum. Bæði Bryndís og Jón Baldvin standa þétt saman og styðja hvort annað í gegnum lífið, þótt haf og álfur hafi skilið þau að.
Bókin ætti að vera skólabók í mannlegum samskiptum og lífsviðleitni.
Í bókinni er komið víða við og segir ekki eingöngu frá lífsreynslu Bryndísar, heldur þeirra hjónabeggja, sem bera mikla virðingu og aðdáun gagnvart hvort öðru – svo ekki sé talað um traust. Bókin er faglega skrifuð og heldur manni við efnið allan tíman. Ég tók sérstaklega eftir,
að þótt að þau hjónin hafi barist við marga drauga og óvildarmenn í gegnum lífið þá er ekki talað niður til neins eða dómur lagður á einn né neinn, eitthvað sem fólk má taka sér til fyrirmyndar.
Það sem ég sakna úr bókinni eru myndir af þessari fallegu konu sem hefur reyndar verið bætt upp með myndasyrpu á síðu útgefandans, en samt sem áður vantar mynd af fegurðardrottningunni og skólastýrunni í vegavinnu á Eyrarhlíð Bókin fær 12 af 10 mögulegum frá mér.