Máttur rógsins (2023)

Mér finnst einhvern veginn, að ég geti ekki sagt skilið við land mitt og þjóð án þess að reyna að gera hreint fyrir mínum dyrum  –  segja sannleikann.

Auðmýkingin, niðurlægingin er slík, að okkur er ekki vært hér lengur.

Ég trúði því staðfastlega, að réttlætið mundi sigra –  að við byggjum við heilbrigt réttarkerfi.

En svo er ekki.

Skólabróðir minn og mikill vinur, Styrmir Gunnarsson, sagði einhvern tíma, að „Ísland væri ógeðslegt þjóðfélag“. Ég skildi ekki alveg þá , hvað hann var að fara.

En núna liggur það ljóst fyrir –  og við erum sjálf fórnarlömb spillingarinnar.

————————————-

Innan nokkurra vikna eru liðin fimm ár frá því að skipulögð aðför að mannorði mínu og eiginmanns míns hófst  á Íslandi. Það var sumarið sem ég varð áttræð, 2018. Þetta sama sumar vildi svo til, að fyrrverandi nemendur mínir í MÍ, vinkonur og samstarfsmenn, fóru að hringja í mig og vara mig við. Sögðu, að MeToo konur væru að leita að „ljótum sögum“ um manninn minn. Ég gat ekki ímyndað mér, að til væru „ljótar sögur“ af manni mínum og tók ekki mikið mark á þessu.

En það var einmitt þetta sama sumar, sem Laufey Ósk, sem ég hafði þekkt frá því hún var barn á Ísafirði,  notaði sömu orð, þegar ég bauð hana velkomna á heimili mitt í Andalúsíu, ásamt tveimur dætrum sínum. „Ég hef heyrt svo margar ljótar sögur um þig, Jón Baldvin“ – ég sá, að þú káfaðir á dóttur minni, og nú skaltu biðjast afsökunar“.

Og það voru fleiri sem höfðu safnað –  að eigin sögn –  „ljótum sögum“ af Jóni Baldvini. Einn af þeim var sjálfur almannatengill formanns Sjálfstæðisflokksins, maður að nafni Friðjón Friðjónsson.  Allir skráðir félagar í Sjálfstæðisflokknum fengu í pósti  þetta sama haust frásagnir  Friðjóns af ósæmilegri hegðan Jóns Baldvins þau ár, sem við dvöldumst í  Washington (frá 1998-2003).

Ég get aðeins svarað þessum ósvífna  áróðri og lygum með því að vitna í The Washington Times (Oktober, 1999), sem segir um manninn minn:  „Icelandic Ambassador, Jón Baldvin Hannibalsson, a man of wit and intelligence, has become a popular diplomat on Embassy Row“…..

Stærsta áfallið varð svo þann 11. janúar, 2019, tíu dögum áður en maðurinn minn ætlaði að halda upp á 80 ára afmæli sitt með útgáfu bókar og umræðum.

Þann dag fórnaði Stundin, blað allra landsmanna, tugum blaðsíðna í illa þefjandi rógssögur um Jón Baldvin og Bryndísi (þó að mitt hlutverk hafi aðallega falist í því  að standa hjá og flissa, meðan maðurinn minn þuklaði brjóst kvenna). Þetta er einhver hræðilegasti dagur lífs mins – jafnvel vinir okkar voru skelfingu lostnir – og skíthræddir. Hver var næstur? Líf okkar beggja var í rúst, fortíðin forsmáð með ógeðslegum lygasögum kvenna um mig og minn mann. Ég kannaðist ekkert við þessar vesalings konur, utan nokkrar, sem höfðu mikið smjaðrað fyrir manni mínum á sinum yngri árum og hötuðu mig fyrst og fremst.

Þetta var hatursherferð, sem margir komu að og áttu djúpar rætur í okkar samfélagi.

Og því spyr ég núna: Getur verið, að áhrifamáttur rógsagnanna hafi að lokum náð alla leið inn í réttarsalinn  – og við goldið þess?

Flestar þessar sögur um manninn minn voru hundgamlar, og það dró úr áhrifamætti þeirra. Það var til dæmis of seint að höfða mál gegn geranda. Voru engar nýlegar sögur til?

Það voru mín mistök að bjóða Laufeyju að koma með þessa Carmen Josefu, dóttur sína í heimsókn þetta sumar.  Ég hafði t.d. ekki hugmynd um, að hún væri talsmaður MeToo hreyfingarinnar, að hún ferðaðist með handbók Stígamóta  – og að hún væri komin til þess að finna höggstað á manninum mínum?

Eða var það svo?

Þegar við vorum sýknuð af Héraðsdómi haustið 2021, las ég af tilviljun eftirfarandi texta á fésbók nokkrum dögum seinna: „Veistu það, Bryndís,  að þú ert versta eintak, sem til er af konu – og eiginlega verri en eiginmaður þinn! Kona sem  horfir í hina áttina, á meðan eiginmaðurinn níðist á  eigin niðjum og börnum annarra, þ.m.t. nemendum sínum á barnsaldri…… Reyndu að klóra í bakkann, gamla, þið eruð ekkert nema útbrunnið níðingspakk, og flestum er drullusama, nema þeim sem nú þurfa að líða fyrir illverk ykkar og lygar…..“

Undir þetta skrifar Carmen Josefa Jóhannsdóttir.

Þá voru liðin þrjú ár frá því hún kom í heimsókn til okkar í Andalúsíu ásam  móður sinni og litlu systur. Var hún þá þegar farin að leggja á mig slíkt hatur, sem birtist þarna í orðum hennar? Getur það verið?

Ég man, að hún yrti varla á okkur Jón Baldvin við komuna til Salobrena. Þær systur hurfu inn í herbergi, sem ég hafði ætlað þeim, og létu ekki sjá sig fyrr en daginn eftir. Hvað bjó að baki? Ég spyr sjálfa mig núna þeirrar spurningar.

Við vorum ekki farin að bragða á víninu – hvað þá matnum  – þegar Laufey byrjar að öskra á okkur með svívirðingar og lygar, sem ætluðu engan endi að taka. Enda hvarf dóttirin frá borðinu undir ræðu móður sinnar og sást ekki eftir það. Og skammri stundu seinna voru þær allar, mæðgurnar þrjár,  horfnar – og sneru ekki aftur. Ég var komin upp í rúm í áfalli, fjórði gesturinn farinn með þeim orðum, að ég ætti að vanda betur valið á gestum mínum næst. Maðurinn minn var fór upp á þak, bar niður matföng, diska og glös, og var búinn að ganga frá í eldhúsinu, þegar ég drattaðist loks á fætur síðdegis.

Það var Styrmir Gunnarsson, vinur okkar og skólafélagi, sem sagði í dómsal árið 2008, að Ísland væri „ógeðslegt þjóðfélag“. Það var hhrollvekjandi fullyrðing, sem ég skildi kannski ekki alveg þá, en núna, þegar ég upplifi það á eigin skinni, þá fyllist ég ótta við tilhugsunina.

Ég hafði aldrei verið í dómsal áður, aðeins horft á vitnaleiðslur í sjónvarpi og séð hvernig menn studdu hönd á bíblíuna og sóru við hana, að þeir segðu sannleikann – og ekkert nema sannleikann. Þegar ég sjálf mætti til yfirheyrslu í dómsal, sá ég enga bíblíu, en einhvers staðar var ég minnt á, að mér bæri að segja sannleikann, og  „ að refsivert væri að ljúga í vitnastúku“.

Það var líklega þess vegna, sem ég hafði biblíuna meðferðis, þegar ég var kölluð í annað sinn til að bera vitni í „rassstrokumálinu“ svokallaða. Og það var þess vegna, sem ég lagði hönd á hina helgu bók, þegar ég hafði lokið máli mínu og sór við nafn föður míns og móður, að ég hefði sagt sannleikann – og ekkert nema sannleikann – og horfði beint í augun á dómurunum þremur, sem sátu í hinum enda salarins og voru greinilega ekki að hlusta á það, sem ég var að segja.

Að vera „heppinn með dómara“ var okkur sagt, að skipti mestu máli. Við vorum ekki heppin með dómara. Mál okkar fór tvisvar sinnum fyrir rétt. Í fyrra skiptið vorum við sýknuð (nóv. 2022). en í það síðara var maðurinn minn dæmdur skilorðsbundið í tveggja mánaða fangelsi og greiðslu sektar upp á nokkrar milljónir.