Niðurlægingin fullkomnuð – lygarinn hafði betur. Eftir síðustu aðför íhaldsins að mannorði mínu og mannsins míns, get ég ekki lengur orða bundist. Mig langar til að segja ykkur söguna eins og hún er.
Og takist mér ekki að hreinsa mannorð mitt, þá hef ég lifað til einskis – og get látið mig hverfa.
Ég er satt að segja búin að fá mig fullsadda af viðbjóðslegum lygasögum um manninn minn, Jón Baldvin Hannibalsson – alltaf ljótari og hatursfyllri með hverju árinu. Ég hef verið gift þessum manni í 64 ár og veit, hvern mann hann hefur að geyma. Sá maður á ekkert skylt við þá lýsingu, sem dregin er upp af honum af hatursfullu fólki á samfélagsmiðlum.
Þess vegna geri ég orð dóttur okkar, Aldísar, að mínum, en hún sagði í viðtali einhvern tíma: “ ….má hann aldrei njóta sannmælis?“
Og áður en lengra er haldið, langar mig til að segja við ykkur, lesendur góðir, að ég hef heldur aldrei – ég endurtek, aldrei – heyrt manninn minn, tala af slíkri óvirðingu, heift og hatri um nokkra manneskju, eins og ég hef orðið vitni að í íslenskum fjölmiðlum um hann.
Og þegar jafnvel Ingibjörg Sólrún Gísladóttir lýsir manninum mínum sem „rándýri, sem situr um ungar stúlkur eins og villidýr um bráð“, þá var mér allri lokið. Þessi orð lýsa botnlausu hatri og hefndarhug. Hvað hefur maðurinn gert á hennar hlut? Hann dró sig í hlé út úr íslenskri pólitík til þess að draumurinn um sameiningu jafnaðarmanna sem valkost við fjármálaöflin, gæti rætst.
Hún er konan sem öðrum fremur ber ábyrgð á því, að draumurinn rættist ekki – að tilraunin mistókst. Og hefur síðan hlaupist frá allri ábyrgð á þeim óförum. Þar á hatrið sínar rætur. Þess vegna er þessi hefndarhugur. Íslensk pólitík getur að sönnu verið illvíg og óvægin. En er þetta ekki Íslandsmet í rætni?
Gott orðspor
Þegar Jón Baldvin kom heim frá námi með hagfræðipróf upp á vasann, 25 ára að aldri, fékk hann hvergi vinnu á því sviði, verandi sonur Hannibals, sem var trúlega rægðasti maður í íslensku samfélagi á þeim tíma – og sonurinn hlaut að gjalda þess. (Já, það virðist vera stutt í rógberann hjá sumum landa okkar.)
Jón Baldvin gerðist þess vegna kennari í gagnfræðaskóla. Það fór fljótlega af honum gott orð, og hann naut mikilla vinsælda. Kenndi íslensku, ensku, sögu og hélt námskeið um íslenskt þjóðfélag, sem þá var nýmæli. Honum var falið það verkefni að kenna í kvennabekk á fjórða ári og tók þá upp nýjar kennsluaðferðir. Hann leyfði þessum ungu stúlkum að hafa með sér prjónles, á meðan hann messaði yfir þeim,. Sú ákvörðun féll í góðan jarðveg. Að þeirra eigin sögn, síðar meir, voru þessar stelpur víst sumar hverjar skotnar í honum og reyndu hvað þær gátu, að ganga í augun á kennaranum unga. Þetta var mér allt sagt seinna, þegar ég kynntist sumum þessara stelpna á vinnumarkaðnum.
Ég kynntist þó aldrei nemandanum, Þóru Hreinsdóttur, en ég þekkti listakonuna, móður hennar nokkuð vel, af því að hún var vinkona frænku minnar, sem líka var að norðan. Sú kona átti við alvarleg heilsuvandamál að stríða og gat af þeim sökum lítið sinnt dóttur sinni á unglings aldri. Gott ef það var ekki einmitt ég, sem bað Jón Baldvin um að líta sérstaklega til með þessari stúlku, sem væri hjálparþurfi. Móðir hennar hafði talað við mig einslega um það leyti, sem skólastarf hófst um haustið.
Mig óraði auðvitað ekki fyrir því, að sá vinargreiði yrði notaður gegn honum hálfri öld seinna.
Af manni mínum, Jóni Baldvini, fór svo gott orð sem kennara í Hagaskóla, að vorið 1970 var þriggja manna nefnd komin heim í stofu á Vesturgötunni til að freista þess að fá hann vestur á Ísafjörð til að taka að sér að stofna og stýra nýjum menntaskóla þar. Og þetta sama haust vorum við flutt vestur með börn og buru. Er það nú hugsanlegt, að þessi virðulega nefnd úrvalsmanna að vestan hefði verið send suður þetta vor, ef það hefðu farið af honum „ljótar sögur“ um kynferðislegt ofbeldi gagnvart nemendum sínum í Hagaskóla? Útilokað. Jón Baldvin naut slíkra vinsældar meðal nemenda sinna, að landsprófsbekkur – gáfnaljósin – hótuðu að elta hann vestur á firði til að geta notið kennslu hans ögn lengur. Og tveir af öflugustu kennurum Hagaskóla slógust í för með okkur og kenndu nokkur ár við MÍ. Hvað segir það okkur?
Það hefur svo sem verið reynt að sverta níu ára dvöl okkar á Ísafirði líka með „ljótum sögum“. Seinasta vorið sem Jón Baldvin útskrifaði stúdenta átti hann, að sögn eins nemanda (kvenkyns), að hafa káfað á ungum stúlkum í sundlaug Bolungarvíkur. Seinna kom á daginn, að hann var hafður fyrir rangri sök. Sá sem káfaði, var ekki skólameistarinn , heldur ungur maður sem var stundakennari við skólann þennan vetur. Enda hefur Sighvatur Björgvinsson, f.v. þingmaður Vestfirðinga, ítrekað staðfest það við mig, að aldrei hafi hann heyrt „ljótar sögur“ af manni mínum fyrir vestan.Og bætti við: „Pólitískir andstæðingar hefðu áreiðanlega fært sér það í nyt, ef svo hefði verið.“
Ég gleymi því aldrei, þegar innvígður allaballi á Vesturgötuárum okkar, sagði við mig: „Maður verður að gera fleira en gott þykir í pólitíkinni, Bryndís mín“. Þá hafði hann látið það berast út, að JónBaldvin væri“ drykkjusjúklingur á framfæri tengdaföður síns“. Já, fátæk vorum við, en hamingjusöm – og við skulduðum engum neitt.
Ég segi líka frá því í bók minni „Brosað gegnum tárin“, þegar ég fékk pabba til að aka mér alla leið upp í Breiðholt, þar sem ég ruddist inn á heimili iðnaðarmanns og húðskammaði hann fyrir að rakka niður manninn minn á matstað í miðbæ Reykjavíkur, þar sem Kolfinna, dóttir okkar, var að vinna og var áheyrandi að „ Jón Baldvin væri óreiðumaður, sem skuldaði út um allan bæ og sviki öll loforð“. Ég var svo reið, og hann var svo hræddur við mig, að hann bað mig grátandi afsökunar og lofaði bót og betrun. „Aldrei framar, aldrei framar“, sagði hann bara! Ég var bókstaflega hamslaus af reiði.
Og svo get ég bætt því við, að konur hafa svo sem ekki látið manninn minn í friði heldur, svo ég vitni í bréf, sem Árni heitinn Gunnarsson, góður vinur, sendi okkur nokkru áður en hann kvadddi þennan heim. Þar segir á einum stað:
„Við sem höfum flækst með Jóni Baldvini á framboðsfundi, verið með í veislum og hvers konar samkomum, höfum oft orðið þess varir og séð, hvernig konur hafa leitað á hann og viljað eiga með honum góðar stundir. Þær hafa stundum orðið svo ágengar, að jafnvel gömlum kvennamönnum hefur blöskrað! Þær hafa ekki allar verið kátar, þegar hann hefur vikist undan eða ýtt þeim frá sér. Kannski orðið reiðar og fundist þær niðurlægðar, og viðbrögðin orðið með ýmsum hætti. Um þetta gætum við, nokkrir félagar, borið fyrir rétti.“
Jón Baldvin var formaður Alþýðuflokksins í tólf ár. Á þeim árum voru konur mjög öflugar í flokksstarfinu, sóttu fundi og létu verulega til sín taka. Aldrei hefur nein þessara kvenna stigið fram og kvartað undan kynferðislegri áreitni formannsins.
Að nærast á hatri
Þið takið kannski líka eftir því, að í allri þessari rógsherferð og lygum um JBH er mitt nafn sjaldan nefnt. Í augum hataranna er ég bara skaplaus „drusla“, sem stend til hliðar og læt mig engu skipta, þegar maðurinn minn er með kynferðislega áreitni við börn og ungar konur. Horfi bara á „sljóum augum, oftast fordrukkin, meðvirk og subbuleg“. Mér er sýnd alger fyrirlitning – eða hvernig lýst ykkur á þessa mannlýsingu á mér, sem er höfð eftir einu Metoo-vitninu?:„Hún er alveg eins og hann. Grípur utan um kinfæri (sic) ungra manna á filliríum“( sic). Kona, sem bullar svona um aðra konu, sem hún þekkir ekki neitt, er augljóslega ekki þungt haldin af sómakennd. Samt telst hún vera stjörnuvitni hjá MeToo.Trúir einhver svona vitnisburði?
Sannleikurinn er nefnilega sá, að þessar konur, sem hafa látið gamminn geysa og ata manninn auri, hata mig miklu meira en hann. Það er ég, sem er skotmark þeirra. Það er ég , sem þær þola ekki.
Og til þss að sýna fram á það læt ég fylgja brot úr bréfi Carmenar Jóhannsdóttur til mín:
Veistu það Bryndís, þú ert það versta eintak sem til er af konu og eiginlega verri en eiginmaður þinn! Kona sem horfir í hina áttina á meðan karlinn þinn níðist á eigin niðjum og börnum annarra, þ.m.t. nemendum sínum á barnsaldri! Hverskonar manneskja gerir slíkt?
Þið tvö hafið afhjúpað ykkur svo rækilega að flestir sem betur fer sjá það!
Ég efast um það nokkur manneskja sem er að óska ykkur til hamingju á þessum þræði myndu samt NOKKURN TÍMANN skilja eftir börnin sín ein með ykkur rándýrunum!
Reyndu að klóra í bakkann gamla, þið eruð ekkert nema útrunnið níðingspakk og flestum er drullusama nema þeim sem nú þurfa að líða fyrir illverk ykkar og lygar. Nú hafið þið smáborgarnir eitthvað að smjatta á næstu daga, verði ykkur að góðu. Don’t choke on it!!
Rógur og níð – nútildags kallað hatursorðræða – vellur upp úr skolpræsum sorpmiðlanna út um allt. Hvað segir það okkur um sálarástand samfélagsins?
Og hvað segir það okkur um réttarfarið í landinu okkar?
Ég leyfði mér að trúa því, að réttlætið myndi sigra í þessu svokallaða „rassstrokumáli“. Ég bar svo mikla virðingu fyrir réttarkerfinu, að ég trúði því, að sannleikurinn hlyti að skera úr um niðurstöðuna. Og þar að auki staðfestu ákærendur( Laufey og Carmen), að „þær hefðu látið sig hverfa úr veislunni strax í upphafi, án þess að snerta mat né vín – og án þess að vera snertar“.
En hvað þá? Þær sögðust hafa komið aftur!! – reyndar segja þær bara „seinna“. En hvenær seinna? Þær voru farnar og húsið læst, svo að þær hefðu ekki komist inn aftur, þó að þær hefðu grátbeðið mig. Hugrún,(vinkona okkar í þorpinu) kvaddi með þessum orðum: „Þú verður að vanda betur val á gestum þínum, Bryndís“. Ég var komin upp í rúm, algerlega niðurbrotin, en Jón Baldvin fór upp á þak, bar niður matföng, diska og glös – og var reyndar búinn að ganga frá öllu í eldhúsinu, þegar ég loks síðdegis drattaðist á lappir aftur.
Sem sagt, það var aldrei nein veisla. Þetta „seinna“ var aldrei. Það er bara skáldskapur – lygi – eitthvað sem þær mæðgur spunnu upp í örvæntingu sinni. Dóttirin viðurkenndi réttilega fyrir rétti, að hún hefði yfirgefið borðhaldið strax í upphafi , áður en máltíðin hófst. Engu að síður segist hún þá þegar hafa hringt í fyrrum sambýlismann (Daníel Ágúst) til þess að gera hann að vitni að glæp, sem – að hennar eigin sögn – var enn ekki búið að fremja. Algert rugl, uppspuni, lygi.
En það merkilega var, að dómarinn í málinu trúði lyginni betur en sannleikanum. Og það jafnvel þótt þær mæðgur hafi orðið tvísaga og ekki munað, hverju þær ætluðu að ljúga. Að mati ákæruvaldsins (kona) er framburður brotaþola „skýr og stöðugur um meint brot….. að hún hefði staðið hægra megin við ákærða og hefði hann þá byrjað að strjúka ákaft upp og niður eftir rassi hennar“. Og ákæruvaldið bætir við: að „eiginkona og vinkona hafi líklega bara verið að spjalla og ekki tekið eftir neinu óvenjulegu“!!
Það er greinilegt, að í augum ákæruvaldsins, erum við hjónin, ég og Jón Baldvin, algert pakk – ruddar og dónar, sem kunna enga mannasiði , hvað þá í umgengni við konur. Og það er eiginlega það, sem ég svo erfitt með að sætta mig við – að við séum fyrirlitin af þessu samfélagi okkar og niðurlægð og auðmýkt að ósekju. Eða var það kannski einmitt ætlunarverk dómaranna? Þeir höfðu heyrt svo margar „ljótar sögur“, trúðu róginum og létu fordómana ráða – dæmdu okkur sek.
En við erum saklaus..
Ég las einhvers staðar, að það væri refsivert að ljúga í fyrir rétti. Ég laug ekki að dómaranum – og til staðfestingar á því hafði ég bíblíuna meðferðis.‘Eg lagði hönd á hina helgu bók og sór við nafn hennar og foreldra minna, að ég segði sannleikann – og ekkert nema sannleikann. En það dugði ekki til. Dómarinn var augljóslega fyrirfram staðráðinn í að dæma okkur sek – sama hvað við segðum.
„Ljótar sögur“ hafa augljóslega skilað árangri, og við áttum aldrei möguleika á að vera sýknuð.