Örsaga

Við Jón Baldvin áttum erindi í bæinn einn laugardag í maí síðastliðnum. Sumarið var í stuttri heimsókn þennan dag og við vorum léttklædd. Ég klæddist hvítu síðu pilsi og stuttum jakka (hvort tveggja keypt hjá Maríu Lovísu fyrir 20 árum). Og Jón Baldvin var kominn í ljósgrá föt og bláa skyrtu, sem var fráhneppt í hálsinn. Nýrakaður.

Við vorum í sparifötunum, sem sagt. Nema hvað, að jafnvel hin fyrrum kaldranalega Tryggvagata var líka komin í sumarskap. Gamla Tollhúsið hafði fengið nýtt líf – Listaskóli framtíðarinnar. Og nú loksins, öllum þessum árum seinna, fékk hið stórbrotna listaverk Gerðar Helgadóttur notið sín. Enda var eins og ungir Reykvíkingar væru að sjá borgina sína í fyrsta sinn. Þeir stóðu dolfallnir í hópum undir blámanum, sem sprengdi sér leið út úr litrófi suðurhliðar hússins – voru jafnvel sestir til að draga djúpt andann og njóta lífsins – í núinu.

„Má ég fá mynd af mér með þér?“ er allt í einu kallað, þegar við nálgumst unga fólkið. Hún stóð þarna við hlið vinkvenna sinna, með flaksandi ljóst hár, í gallabxum og í hvítum strigaskóm. Kornung stúlka. Hún horfði beint í augun á Jóni Baldvini.

„Af hverju“?, spyr hann – eiginlega alveg furðu lostinn.

„Þú ert svo flottur!“, svarar stúlkan þá. (Ég var henni eiginlega alveg sammála, þó ég segi sjálf frá) En hvað kom til? Stúlkan nálgaðist okkur og horfði brosandi á Jón Baldvin.

„Viltu ekki standa á milli okkar hjónanna?“ spyr hann í sakleysi sínu.

„OK“, segir hún um leið og vinkona hennar mundar myndavélina og fangar augnablikið.

Jón Baldvin greip um hönd mína, og við leiddumst á brott.

Sögulok. Ég man ekki einu sinni, hvort hún sagði „takk“.