Að gefnu tilefni

Tengdafaðir minn, Hannibal Valdimarsson, var einhver umdeildasti stjórnmálamaður Íslands, meðan hann lifði. Vestfirðingur í húð og hár, eins og flestir vita. Þegar ég var unglingur í Vesturbæ Reykjavíkur, sá ég oft myndir af honum í Morgunblaðinu. Þessum myndum fylgdi yfirleitt einhver skætingur og níð um persónu hans – en aldrei þó, að hann væri barnaníðingur, merkilegt nokk!

Ég man það ekki núna, hvort ég lagði einhvern trúnað á það sem ég las eða hvort það snerti mig yfirleitt nokkuð. Þó leyni ég því ekki, að mér stóð hálfgerður stuggur af honum, þegar við hittumst í fyrsta sinn. Danasleikja, landráðamaður, laumukommi, uppreisnarseggur, lýðskrumari, kvennabósi, lygari, óþverri – eflaust hafa öll þessi orð komið upp í huga mér. Ég hafði lesið þau í Blaðinu – blaði allra landsmanna – svo oft, svo oft.

Lesa meira

Árin okkar í Ameríku – fáein vel valin orð af gefnu tilefni.

Æran
félagi Orðrómur
félagi Orðrómur
margur hefur það heyrt
sem hefur verið fleygt að…
(Þröstur J. Karlsson í ljóðabókinni: Einn apaköttur sagði þá, afskaplega er gaman)

Í áranna rás höfum við Jón Baldvin vanist því að lesa um okkur – annað hvort eða bæði – allra handa óhróður, oftast nær nafnlaust. Mest af þessu flokkast undir pólitískt skítkast og fylgir starfslýsingu stjórnmálamannsins. Menn læra smám saman að taka því eins og hverju öðru hundsbiti. Stundum er þetta runnið undan rifjum fólks, sem á af einhverjum ástæðum bágt og finnur hjá sér þörf að kenna öðrum um eigin ófarir.

Það er hins vegar nýtt fyrir mér að sjá níðið klætt í viðhafnarbúning fræðimannsins, eins og reynt er að gera í nýlegri bók eftir Björn Jón Bragason. Þar eru gróusögurnar bornar á borð með vísan í ónafngreinda heimildamenn (sjá skrá yfir heimildamenn aftast í bókinni). Með öðrum orðum: rógberarnir þora ekki að standa við orð sín undir nafni. Einstaklingar, sem þannig koma fram gagnvart öðrum, dæma sig sjálfir. Þeir eru ekki svaraverðir. Samt neyðist maður til að leiðrétta gróusögurnar, svo að saklaust fólk glepjist ekki til að trúa þeim.

Lesa meira

KOMIN HEIM Í HEIÐARDALINN

Það er sunnudagur síðdegis þegar þau koma til fundar við mig, sparibúin og glæsileg, enda að fara út að borða og síðan í leikhús. Bryndís Schram lítur út eins og ung fegurðardís og Jón Baldvin Hannibalsson brosir, líka með augunum, nokkuð sem mér finnst hann ekki gera nógu oft í viðtölum. Brosið þá er svona meira út í annað munnvikið og mér hefur stundum sýnst að hann finni jafnvel til með þeim fréttamanni sem hefur hann í viðtali. Við setjumst við lítið fundarborð. Sitjum í þríhyrning, þau hvort á móti öðru og skiptast á augnaráði sem fyllir mig öfund. Þegar þau hafa horfst í augu dágóða stund líta þau bæði á mig spyrjandi.

-Hvernig var að koma heim?
Bryndís lítur af mér og horfir litla stund þögul á hann Jón sinn, kannski eins og hún sé að bíða eftir því að hann svari fyrst, en hann brosir bara út í annað og þegir. Kannski er þögnin merki til Bryndísar um að tala, samsæri þagnarinnar er óþarft núna. Þau eru ekki lengur sendiherrahjón með þagnarskyldu.
Bryndís hallar sér fram og krossleggur langa píanistafingur, stór hringur áberandi vottur um dýran smekk. Um háls hennar er eins konar skrautkeðja sem fer vel við dökkan kjólinn, andlitið eitt varlegt bros sem síðan hverfur vegna alvöruþunga orðanna. Hér talar fyrrverandi sendiherrafrú Íslands í Bandaríkjunum og Finnlandi.
“Það var mikið áfall að koma heim!”

Lesa meira

SAGAN EINS OG HÚN BLASIR VIÐ ÚT UM GLUGGA SÍBERÍUHRAÐLESTARINNAR

Ferðasaga Bryndísar og Jóns Baldvins. Þessi ferðasaga er tileinkuð gestgjöfum okkar,
Gunnari Snorra Gunnarssyni í Beijing og Mörtu Snæfríðardóttur Brancaccia í Berlín.

I.

Jón Baldvin:

Það eru 22 ár frá því við vorum seinast i Kína. Það var árið 1996. Við heimsóttum ellefu borgir á þremur vikum, fórum þvers og kruss um þetta meginland, sem Kína er. Þegar Mao skildi við, árið 1976, eftir rúman aldarfjórðung við stjórnvölinn, voru lífskjör í Kína svipuð og í Bangladesh, ca. 160 dollarar á mann á ári, segir Alþjóðabankinn.
Þegar við vorum hér þá, hafði Deng Xiaoping verið við völd í hálfan annan áratug. Umskiptin voru þá þegar sýnileg í helstu borgum og sveitahéruðum, sem brauðfæddu borgirnar. Opnun Dengs – virkjun markaðsafla undir styrkri stjórn – er stórtækasta og hraðskreiðasta þjóðfélagsbylting, sem sagan kann frá að greina. U.þ.b. 700 milljónum manna (af þessum 1.3 milljarði) hafði verið lyft upp úr miðaldaörbirgð til mannsæmandi lífskjara á undraskömmum tíma. Á liðnum árum hef ég reynt að lesa mér til um þessa super-byltingu af öllum tiltækum gögnum, en vissi þó, að þekking mín var gloppótt.
Vissi varla á hverju ég átti von.

Bryndís

Heimsmeistarakeppnin í fótbolta stóð sem hæst. Jafnvel í Máraþorpinu okkar, efst á þessum hvíta kletti við hafið í Andalúsíu, var allt á öðrum endanum. Karlar á öllum aldri, sem annars virðast aldrei eiga erindi út fyrir hússins dyr – jafnvel konur og börn – þyrptust inn á torgið, þegar leið á kvöldið. Það var búið að koma fyrir stórum sjónvarpsskjá framan við nýja barinn, sem heitir reyndar Boteka, af því að þarna stóð einu sinni apótek. Það var á þeim tíma, sem þorpið á klettinum var og hét.

Þetta var kvöldið sem Ísland datt út úr keppni. Og líka kvöldið, sem nágranni minn gaf mér blómstrandi kaktusafleggjara í sárabætur. Ég hafði aldrei séð blómstrandi kaktus fyrr. Stakk eins og naðra við minnstu snertingu, en í toppinn bar hann rauð blóm, ofurmjúk viðkomu. Nágranninn sagði við mig: Íslendingar eru eins og kaktusinn – harðgerðir, ódrepandi – en blómstra samt. Það síðasta sem ég gerði, áður en við kvöddum húsið okkar að þessu sinni, var að setja afleggjarann í moldarpott á þakinu. Nú er að vita, hvort hann lifir sumarið af.

Lesa meira

Vestfjarðagöng sálarlífsins

Bryndís Schram skrifar um leikritið Svartalogn sem frumsýnt var í Þjóðleikhúsinu 27. apríl síðastliðinn.

Byggt á skáldsögu Kristínar Marju Baldursdóttur
Leikgerð: Melkora Tekla Ólafsdóttir
Leikstjórn: Hilmir Snær Guðnason
Leikmynd: Gretar Reynisson
Búningar: María Th. Ólafsdóttir
Tónlist: Markéta Irglova og Sturla Mio Þórinsson
Lýsing: Halldór Örn Óskarsson
Hljóðmynd: Elvar Geir Sævarsson og Aron Þór Arnarsson

Þar sem ég virti fyrir mér þessa hógværu og lítillátu konu, Kristínu Marju Baldursdóttur, höfund Svartalogns, þar sem hún stóð brosandi fremst á sviðinu, umkringd leikurum og handverksmönnum í lok sýningar, fór ég ósjálfrátt að velta því fyrir mér, hvernig henni liði á þessari stundu. Var hún ánægð? Fannst henni bókin sín, það er að segja skilaboð bókarinnar, komast til skila í leikgerð Melkorku Teklu Ólafsdóttur?

Svartalogn – „himnesk kyrrð, þegar fjöllin þegjandalegu spegla sig í haffletinum, svo hann verður svartur“, segir á einum stað í bók Kristínar Marju. Einmitt þannig upplifði ég sjálf endur fyrir löngu margar stundir í djúpum firði, þar sem fjöllin eru svo há, að enginn kemst yfir þau nema fuglinn fljúgandi.

Lesa meira

FLÓTTALEIÐ – SÝNDARVERULEIKI

Bryndís Schram fjallar um Innfædd í Iðnó, 16.apríl, s.l.
Höfundur: Glenn Waldron
Þýðing: Hrafnhildur Hafberg
Leikstjóri: Brynhildur Karlsdóttir
Lýsing: Aron Martin Ágústsson
Leikarar: Urður Bergsdóttir, Ísak Emanúel Róbertsson, Davíð Þór Katrínarson, Karl Ágúst Úlfsson – lesari

Um daginn var mér alveg óvænt boðið á sýningu í Iðnó, einu höfuðdjásni gömlu Reykjavíkur, byggðu árið 1896 í nýklassiskum stíl – og friðað fyrir löngu. Þetta sviphreina hús var á sínum tíma Mekka leiklistar á Íslandi og hefur svo lengi, sem ég man, verið iðandi af lífi, gestrisni og spennandi gjörningum.

„En nú er hún Snorrabúð stekkur“, sagði skáldið Jónas. Það er af sem áður var. Og þar sem ég geng inn um gamalkunnar dyr, lýstur þeirri hugsun niður í kollinn á mér, að líklega sé Iðnó í einhvers konar tómarúmi um þessar mundir, hafi glatað tilgangi sínum, og að framtíðin sé fullkomlega óráðin. Þess vegna allt þetta rú og stú – allt þetta miskunnarlausa stílbrot og virðingarleysi fyrir sköpunarverki forfeðranna.

Strax í anddyrinu gengur maður á vegg og fær smásjokk – risastórt barborð með groddalegu skyndigróðayfirbragði sprengir í loft upp hina ljúfu 19. aldar stemningu. Það yfirtekur anddyrið eins og heimaríkur hundur, sem enginn þorir að ganga framhjá án þess að biðja um bjór á uppsprengdu verði.

Lesa meira

Lúxusvandamál á fyrsta farrými

Bryndís Schram fjallar um Fólk, staði, hluti, eftir Duncan Macmillan, sem frumsýnt var í Borgarleikhúsinu þann 13. apríl

Leikstjóri: Gísli Örn Garðarsson
Leikmynd Börkur Jónsson
Búningar: Katja Ebbel Fredriksen
Lýsing: Þórður Orri Pétursson
Tónlist: Gaute Tönder og Frode Jacobsen
Hljóð: Garðar Borgþórsson
Leikgervi: Árdís Bjarnþórsdóttir,
Sýningarstjórn: Þórey Selma Sverrisdóttir
Leikendur: Nína Dögg Filippusdóttir, Sigrún Edda Björnsdóttir, Jóhann Sigurðsson, Björn Thors, Hannes Óli Ágústsson, Edda Björg Eyjólfsdóttir, Maríanna Clara Lúthersdóttir

Höfundurinn, Duncan Macmillan (skoskara verður það varla) er nýjasta stjarnan á evrópska leikhúshimninum. Það sem er óvenjulegt við eyjaskeggjann er, að hann hefur líka náð fótfestu í leikhúsinu í Berlín og Vín. Verk hans, bæði eigin höfundarverk og leikgerð annarra höfunda, hafa farið sigurför um leiksvið Evrópu. Hann var (að eigin sögn) misheppnaður leikari, en áttaði sig á því sjálfur í tæka tíð. Þar með hófst frægðarferill hans sem höfundar, leikgerðarhönnuðar og leikstjóra.

Það er auðfundið, að sem fyrrverandi leikari þekkir Macmillan leikhúsið út og inn. Hann skynjar meira að segja, að hutverkið getur verið leikaranum eins konar vímugjafi. Til vitnis um það nefnir hann þekkta norska leikkonu, sem þurfti sinn skammt af amfetamíni, þegar hún lifði sig inn í aðalhlutverk grísku harmleikjanna, eins og Antígónu, Medeu og Elektru. Þetta er ekkert einsdæmi. Eru það ekki viðtekin sannindi nú til dags, að snilligáfan sé á mörkum geðbilunar, og að afburðalistamenn leiti á náðir vímuefna til að örva sköpunarkraftinn?

Lesa meira

FRÆGÐARFRÍKIÐ OG HIÐ FORBOÐNA

Bryndís Schram skrifar um leikhús:
HANS BLÆR eftir Eirík Örn Norðdahl
Leikhópurinn Óskabörn ógæfunnar í Tjarnarbíói, miðvikudaginn 11. Apríl, 2018
Leikstjóri: Vignir Rafn Valþórsson
Leikmynd, búningar og gervi: Brynja Björnsdóttir
Hljóð: Áslákur Ingvarsson
Lýsing: Arnþór Þórsteinsson og Kjartan Darri Kristjánsson
Vídeó: Roland Hamilton
Búningar: Enóla Ríkey
Guðssending: Sveinn Óskar Ásbjörnsson
Leikarar: Sveinn Ólafur Gunnarsson, Sólveig Guðmundsdóttir, Jörundur Ragnarsson, Sara Marti Guðmundsdóttir, Kjartan Darri Kjartansson

Eiríkur Örn Norðdahl er sér á parti. Engum líkur. Hann hefur sýnt það í fyrri verkum sínum – jafnt í sögum sem ljóðum – að hann þorir, þegar aðrir þegja. Hann skirrist einskis, hlífir engu. Afhjúpar og ögrar með stæl. Ef þér er auðveldlega ofboðið, er kannski best að halda sig fjarri. Höfundinum er nefnilega ekkert heilagt. Venjuviska og vanahugsun eru fyrstu fórnarlömb háðfuglsins. Ef það er í lagi þín vegna, þá skaltu láta slag standa og hlusta á það sem frægðarfríkið (nýyrði fyrir „media celebrity“) Hans Blær, hefur að segja við áhorfendur í Tjarnarbíói. Þetta er ósvikin skemmtun.

Um hvað er þetta eiginlega? Háðsádeila – já, á síbylju rétttrúnaðarins, sem dynur á vitum okkar viðstöðulaust, daginn út og inn, ár eftir ár, á miðlunum og netinu. Án umhugsunar utan við gagnrýna hugsun. Þetta snýst allt um kyn. Kyngervi, kynvitund, kynskipti og annað kynlegt. En það er ekki allt sem sýnist bak við Blæ-vanginn. Hans Blær er hvorki hann né hún – eða er hann kannski bæði og? Úr þessu gervi getur hán – eins og það heitir – haft allt að háði og spotti. Bókstaflega allt. Meira að segja Me-too-hreyfinguna líka. Herskarar kvenna „stíga fram“ í hundrað þúsund fréttatímum og bera vitni sem brotaþolar og fórnarlömb karlkynsins. Þetta er svo yfirþyrmandi, að það sækir að manni efi um, að samskipti kynjanna geti nokkurn tíma orðið með eðlilegum hætti hér eftir.

Lesa meira

Commedia dell Arte

Bryndís Schram fjallar um Sýninguna sem klikkarsem var frumsýnd í Borgarleikhúsinu þann 24. mars s.l.
Höfundar: Henry Lewis, Jonathan Sayer og Henry Shields
Þýðandi: Karl Ágúst Úlfsson
Leikstjóri: Halldóra Geirharðsdóttir
Leikmynd og búningar: Helga I.Stefánsdóttir
Lýsing: Páll Ragnarsson
Hljóð: Garðar Borgþórsson
Leikgervi: Helga I. Stefánsdóttir og Margrét Benediktsdóttir
Leikendur:
Bergur Þór Ingólfsson
Davíð Þór Katrínarson
Hilmar Guðjónsson
Kristín Þóra Haraldsdóttir
Birna Rún Eiríksdóttir
Hjörtur Jóhann Jónsson
Katrín Halldóra Sigurðardóttir

Ef þú ert einn af þeim, sem eru stöðugt að velta sér upp úr vandamálum heimsins, eru þungt haldnir af svokölluðum Weltschmerz og kvíða hverjum degi, þá er kannski kominn tími á það að fara í leikhús – ekki í þetta skipti til að harma örlög mannsins, heldur til að hlæja að óförum hans.

Manstu, hvað okkur þótti fyndið, þegar einhver steig á bananahýði og rann á rassinn með skelfilegum afleiðingum? – Hét það ekki Þórðargleði í gamla daga? (Hver var annars þessi Þórður? Það skilur það orð enginn nú til dags, en þetta snerist um að hlakka yfir óförum annarra!) – Eða manstu, hvað okkur þótti Charlie Chaplin fyndinn í þöglu myndunum? Ég tala nú ekki um Buster Keaton, Gög og Gokke eða Marxbræður! Allt voru þetta ódauðlegir snillingar, sem tókst að gera aulafyndni að tærri list – turn low humour into high art!

Lesa meira

Hefur eitthvað breyst?

Leiklestur Í Hannesarholti: Hvað er í blýhólknum?
Höfundur: Svava Jakobsdóttir
Stjórnandi: Þórhildur Þorleifsdóttir
Persónur og leikendur:
Guðbjörg Thoroddsen,
Anna Einarsdóttir,
Jón Magnús Arnarsson,
Ragnheiður Steindórsdóttir,
Arnar Jónsson,
Sigurður Skúlason,
Hanna María Karlsdóttir

Um þessar mundir eru nákvæmlega fimmtíu ár síðan stúdentar við Sorbonne háskóla gerðu byltingu og hættu ekki fyrr en París logaði í óeirðum og götubardögum – einhverjum þeim mestu í sögu borgarinnar. Verkamenn lögðu niður vinnu, flykktust út á götur til liðs við námsmennina og heimtuðu frelsi, jafnrétti og bræðralag. Konur fóru líka út á götu, steyttu hnefann og æptu: við erum líka manneskjur! Simone de Beauvoir var í fararbroddi, boðberi nýrra tíma hinnar frjálsu konu.

Nokkrum árum fyrr minnist ég þess, þegar stúdínur við Edinborgarháskóla fóru í kröfugöngu og heimtuðu pilluna – meira frelsi, jafnrétti og bræðralag. Sú krafa þótti slíkt hneyksli, að virðulegar og sómakærar húsfreyjur í höfuðstað Skotlands fóru huldu höfði og afneituðu kynsystrum sínum.

Lesa meira