Kirkjan er ægifögur. Hún er svo stór, að líkneski postulanna tólf í fullri líkamsstærð rúmast öll inni við altarið. Ég er leidd inn kirkjugólfið og vísað til sætis á fremsta bekk, hægra megin. Þar sit ég alein. Annars er hver bekkur í kirkjunni setinn. Hægra megin þrófessorar í fullum skrúða, en vinstra megin venjulegir borgarar, þar á meðal sendiherrar Norðurlanda, og margra Evrópulanda – nema Íslands. Þegar ég leyfi mér að skyggnast yfir ganginn, kem ég auga á nokkra góða vini í hópnum. Ég brosi í laumi og veifa feimnislega. Með tímanum höfum við eignast hér marga vini, ekki bara úr pólitíkinni, heldur líka úr lista- og menningarlífi borgarinnar. Það er gott að vera meðal vina.
í vitnastúku sögunnar
Ég klæðist svörtum, skósíðum kjól þennan dag. Mér finnst það einhvern veginn við hæfi. Athöfnin fer fram í Kirkju hins heilaga Jóhannesar skírara, sem byggð var 200 árum áður en seinasti kaþólski biskupinn var hálshöggvinn á Íslandi. En hér í Litáen eru þeir enn kaþólskir.