Það er auðfundið, að sem fyrrverandi leikari þekkir Macmillan leikhúsið út og inn. Hann skynjar meira að segja, að hutverkið getur verið leikaranum eins konar vímugjafi. Til vitnis um það nefnir hann þekkta norska leikkonu, sem þurfti sinn skammt af amfetamíni, þegar hún lifði sig inn í aðalhlutverk grísku harmleikjanna, eins og Antígónu, Medeu og Elektru. Þetta er ekkert einsdæmi. Eru það ekki viðtekin sannindi nú til dags, að snilligáfan sé á mörkum geðbilunar, og að afburðalistamenn leiti á náðir vímuefna til að örva sköpunarkraftinn?
Lúxusvandamál á fyrsta farrými
Bryndís Schram fjallar um Fólk, staði, hluti, eftir Duncan Macmillan, sem frumsýnt var í Borgarleikhúsinu þann 13. apríl
Leikstjóri: Gísli Örn Garðarsson
Leikmynd Börkur Jónsson
Búningar: Katja Ebbel Fredriksen
Lýsing: Þórður Orri Pétursson
Tónlist: Gaute Tönder og Frode Jacobsen
Hljóð: Garðar Borgþórsson
Leikgervi: Árdís Bjarnþórsdóttir,
Sýningarstjórn: Þórey Selma Sverrisdóttir
Leikendur: Nína Dögg Filippusdóttir, Sigrún Edda Björnsdóttir, Jóhann Sigurðsson, Björn Thors, Hannes Óli Ágústsson, Edda Björg Eyjólfsdóttir, Maríanna Clara Lúthersdóttir
Höfundurinn, Duncan Macmillan (skoskara verður það varla) er nýjasta stjarnan á evrópska leikhúshimninum. Það sem er óvenjulegt við eyjaskeggjann er, að hann hefur líka náð fótfestu í leikhúsinu í Berlín og Vín. Verk hans, bæði eigin höfundarverk og leikgerð annarra höfunda, hafa farið sigurför um leiksvið Evrópu. Hann var (að eigin sögn) misheppnaður leikari, en áttaði sig á því sjálfur í tæka tíð. Þar með hófst frægðarferill hans sem höfundar, leikgerðarhönnuðar og leikstjóra.