Karlmannslaus í kulda og trekki. Bryndís Schram skrifar um Lóaboratoríum

Höfundur: Lóa Hlín Hjálmtýsdóttir.
Leikstjóri: Kolfinna Nikulásdóttir.
Leikarar: Arndís Hrönn Egilsdóttir, Elma Lísa Gunnarsdóttir, Friðrika Sæmundsdóttir og María Heba Þorkelsdóttir.
Leikmynd og búningar: Sigríður Sunna Reynisdóttir.
Lýsing: Valdimar Jóhannsson.
Tónlist: Árni Rúnar Hlöðversson.
Sviðshreyfingar: Ásrún Magnúsdóttir.
Teikningar: Lóa Hlín Hjálmtýsdóttir.
Ljósmyndun: Þorbjörn Þorgeirsson.

Frumsýnt í Borgarleikhúsinu þann 26. febrúar.

Ég hef það sterklega á tilfinningunni, að ný kynslóð kvenna sé endanlega að leggja undir sig þjóðfélagið (kannski heiminn?). Að Me-too byltingin sé eins konar lokahnykkur stríðs, sem staðið hefur yfir frá örófi alda. Frjálsar konur. Og nú látum við loks til skarar skríða. Tökum völdin.

Tíðarandinn er breyttur. Ungar konur í dag njóta meira frelsis en áður tíðkaðist. Og þær hafa meiri kjark og meira sjálfstraust en mæður þeirra og ömmur. Ungar konur klæða sig djarflega, þær tjá sig af krafti, þær þora, eru skapandi og gerandi. Það er ekki bara í listageiranum, heldur líka á sviði vísinda og stjórnmála. Hver konan af annarri stígur fram og vill láta gott af sér leiða. Karlmenn hafa hins vegar látið undan síga, dregið sig í hlé – án þess kannski að átta sig fullkomlega á því, hvað er í gangi.

Mikið held ég, að það sé gaman að vera ung kona í dag, eiga framtíðina fyrir sér. En sú kona verður að vera til í slaginn, því samkeppnin er hörð. Ég hef til dæmis ekki tölu á öllum þeim frábæru listakonum, sem halda upp leiklistarstarfsemi í landinu um þessar mundir. Ný andlit, nýir sigrar daglega, svo til. Og tækifærin eru of fá fyrir allan þennan kvennaskara.

Leiklistarskólar eru góðir til síns brúks, en endanlega er það brjóstvitið, meðfæddir hæfileikar, sem skera úr um árangur á leiksviði. Og því verður ekki neitað, að við höfum úr miklu að moða, eigum óvenju stóran hóp hæfileikafólks, sem jafnast á við bestu leikara stórborganna.

Bersögli og særandi miskunnarleysi

Til dæmis um allt þetta er Lóaboratoríum, sem síðastliðið föstudagskvöld var frumsýnt í Borgarleikhúsinu – nýtt verk eftir unga konu, Lóu Hlín Hjalmtýsdóttur. Að þessu verki koma minnst tíu konur en bara þrír karlmenn, þannig að hlutverkin hafa snúist við. Að vísu standa karlarnir þrír sig með prýði, sjá um tónlist, lýsingu og ljósmyndir í sýningunni. Þeir eru góðir til síns brúks, þessar elskur!

Að öðru leyti er þetta er kvennaverk, skrifað fyrir konur og um konur. Lóa byggir verkið á samnefndum myndasögum, sem hún er einnig höfundur að. Leikritið er samið í samstarfi við leikhópinn Sokkabandið – og í Sokkabandinu eru bara konur, auðvitað.

Leikritið spannar eina langa helgi í lífi fjögurra kvenna, sem hafa búið árum saman í sömu blokkinni í úthverfi Reykjavíkur. Þær tengjast fjölskylduböndum, annars vegar mæðgur og svo systur. Líf þeirra allra er heldur mislukkað, og þær farnar að örvænta. Eiga erfitt með að umgangast fólk, sérstaklega nákomna ættingja. Allt er í rauninni ömurlegt, en samt svo fáránlega fyndið í meðförum Lóu. Samtölin eru létt og leikandi. Hver og ein þeirra gengur fram af okkur með óþægilegri bersögli og særandi miskunnarleysi gagnvart hinum. Sýna subbuskap, sem jaðrar við klám og karlfyrirlitningu, sem hindrar eðlilegt samlíf. Þær láta allt gossa. „Til hvers er þetta líf?“ er spurt á einum stað. Kannski er þetta bara spegilmynd af raunveruleikanum (reality show). Því fer samt fjarri, að höfundurinn dragi upp helgimynd af hinum vammlausu konum, sem sæta stöðugu áreiti karlpeningsins, en hafa nú sagt: nú er nóg komið – hingað en ekki lengra,

Mikið hlegið

Allar eru þessar fjórar konur í leikritinu ýmist einsamlar eða fráskildar. Þær ungu snúa heim í hreiðrið, eftir að hafa beðið skipbrot úti í hinum harða heimi – skilið við kallinn eða fallið á prófum. Og þetta er ekkert sældarlíf. Þær eru einmana og ófullnægðar. Ein leitar á náðir flöskunnar. Hinar freistast til að leita út í djammið, þar sem kynlífsreynsla veldur sárum vonbrigðum. Hvað með ástina? Þurfum við ekki hvert á öðru að halda? Það er ekki bara me too – líka you too? Ein þeirra (Inga) er varla lengur þessa heims. Hún er horfin
inn í annan félagsskap í netheimum. Þar vonast hún til að finna þá aðdáun og eftirtekt, sem hún hefur farið á mis við í veruleikanum. Einsemdin í blokkinni er ekki beinlínis draumur í dós.

Þær fara allar á kostum. Það mæðir mest á Arndísi Hrönn Egilsdóttur – sem var þar að auki ógleymanleg í söngatriðinu – og Elmu Dís Gunnarsdóttur – sem komst á flug í hinum villta dansi. En ekki eru þær síðri, Jóhanna Friðrika Sæmundsdóttir og María Heba Þorkelsdóttir. Allar fjórar fæddar gamanleikkonur. Og ég sé ekki betur en að þarna sé á ferðinni ærslafenginn farsi, sem gæti hugsanlega haldið lífi á sviðinu fram á vordaga. Það var mikið hlegið á frumsýningu og leikkonum og hjálparkokkum fagnað innilega í lokin.