Að leika ljóð

Bryndís Schram fjallar um leiksýninguna Ahhh… í Tjarnarleikhúsinu,
sem frumsýnt var þann 9. febrúar s.l. byggt er á textum og ljóðum Elísabetar Jökulsdóttur.

Leikstjóri: Charlotte Böving
Leikmynda- og búningahönnun:Þórunn María Jónsdóttir
Tónlistarstjórn: Helgi Svavar Helgason
Ljósahönnun: Arnar Ingvarsson
Hreyfingar: Hildur Magnúsdóttir
Tæknileg aðstoð: Stefán Ingvar Vigfússon
Leikendur: Albert Halldórsson Guðmundur, Ingi Þorvaldsson, Halldóra Rut Baldursdóttir og Laufey Elíasdóttir

Hvað það er nú þægilegt og upplífgandi að geta öðru hverju skroppið út úr veruleikarammanum, þar sem allt virðist vera á heljarþröm (þrátt fyrir góðærið rómaða). Það er ekki nóg með að myrkrið grúfi yfir, hver lægðin á fætur annarri leggi okkur í einelti, slíti í sundur skýin og hreyti í okkur snjó á snjó ofan – heldur er eins og sjálft kerfið, þetta samansúrraða klíkusamfélag, sem við búum í, sé endanlega að kikna undan sínum eigin þunga – ráðþrota og úrræðalaust. Er það nema von, að það sverfi að sálartötrinu!

Þá er svo gott að eiga athvarf í leikhúsinu – þar sem allt er leyfilegt og við horfumst í augu við okkur sjálf í samtímaspegli. Maður gleymir stund og stað og tekst á flug í ferð með spunameisturum og glöðum konum. „Cabaret is life“ var sungið fyrir löngu. Ógleymanlegt! Var það Marlene Dietrich eða Liza Minelli?

Weimar lýðveldið stóð stutt – árin milli stríða í Þýskalandi, fram að valdatöku Hitlers. Þjóðfélag á heljarþröm, örvænting og vonleysi, allt í upplausn – en menningin blómstraði sem aldrei fyrr. Kabarettinn – revían – festi rætur, kom til að vera. Þar er öllu snúið á hvolf, háðskur undirtónn, hálfkveðnar vísur, engum hlíft. En öllu gamni fylgir grálynd alvara. Við sjáum raunveruleikann í nýju ljósi – þessa tragi-kómisku tilveru.

Elísabet Jökulsdóttir er óvenjulegt ljóðskáld – sækir ljóðrænuna til föður síns og tilgerðarleysið til móður sinnar – enda voru bæði skáld. Hún er óvenjuleg að því leyti, að hún er einlæg, opinská og bersögul. Hún þorir að segja hluti, sem aðrir mundu ekki þora fyrir sitt litla líf að láta út úr sér. Líklega af blygðunarsemi. „Komum að ríða. Ekki að elskast eða neitt. Við getum gert það í leiðinni.“ Eða „Aðeins þú og ég, engin helvítis fullnæging en unaðsdauði.“ Svona yrkir enginn annar. Svona þorir enginn að yrkja. Bókin hennar Enginn dans við Ufsaklett er heil saga –saga konu – í örfáum ögrandi orðum, en samt svo lýsandi – og svo ráðvillt og raunaleg.

Kvæðið fremst í leikskránni um ástfangna konu – sem fattar allt í einu, að hún er betlari – er eins konar þema eða undirtónn sýningarinnar. Þessi þrá konunnar eftir að tilheyra einhverjum – vera elskuð og fá að elska – verður svo sterk, að hún missir stjórn á sér, hleypur í gönur. Hún er reiðubúin að kasta sér í fang hvers sem er – bara til að fá þrá sinni fullnægt . Hún er betlari.

En hvernig þeim í RaTaTaM leikflokknum datt í huga að klæða ljóðin hennar Elísabetar í búning kabarettsins er undravert – reyndar frábær hugmynd. Og hvernig henni Charlottu Böving hefur tekist að útfæra þessa frumlegu hugmynd á sviði Tjarnarbíós er ómetanlegt bæði fyrir okkur, sem unnum leiklist og hina, sem nú munu (væntanlega) flykkjast í Tjarnarbíó.

Það fer ekki hjá því, að Charlotta, sem er alin upp í annars konar umhverfi og annars konar leikhúsi, komi með eitthvað nýtt og ferskt í farteskinu inn í okkar heim. Hvernig hún spinnur saman ljóð og liti, gaman og alvöru, tilbrigði ástarinnar og fangbrögð greddunnar, heillar okkur upp úr skónum og blæs okkur lífsanda á ný – eftir allt þunglyndið og drungann.

Það er erfitt að gera upp á milli leikaranna. Öll fjögur, þau Albert, Guðmundur Ingi, Halldóra Rut og Laufey eru veisla fyrir augað, hvert á sinn máta. Þau geisla af orku og gleði. Það er ekki heiglum hent að gera allt í senn: koma til skila ljóðrænum texta, spila á hljóðfæri og svífa í lausu lofti eins og fuglar himinsins og dansa á ærlsafenginn og kómiskan hátt. Trúðsdansinn á hnjánum var til dæmis óborganlegur. Hildur Magnúsdóttir á aldeilis hrós skilið – en hún er skráð fyrir hreyfingum leikaranna.

Tónlist Helga Svavars Helgasonar heillaði okkur fyrirhafnarlaust strax í byrjun. Strákarnir gefa réttan tón á strengjahljóðfærin, og öðru hverju bregður fyrir gamalkunnum stefjum í einföldum lágværum útfærslum.

Þórunn María Jónsdóttir, leikmynda- og búningahönnuður hefur unnið kraftaverk. Hvort erum við stödd á súlustað eða í sirkus? Ekki er allt sýnist. Súlurnar eru ýmist leiktjöld, glæfrastrengir loftfimleikamannsins, ástarhreiður í álfaskógi eða lostfagrir kjólar á bordello. Eða þetta allt í senn. Ótrúleg hugkvæmni, einföld umgerð fyrir endalausar uppakomur. (Fyrir utan hvað þessi hugkvæmni sparar í kostnaði við sviðsbúnað fyrir fátæks leikhóps RaTaTaM.!)

Brilliant!

Ég tók eftir því, að fólk var fremur grámyglulegt og þungbrýnt, þegar það tíndist inn í Tjarnarbíó fyrir upphaf sýningar. En ég lýg því ekki, að flest voru skrafhreifin og með bros á vör, þegar þau héldu á brott – aftur út í myrkrið og slydduna. Það segir sína sögu.

P.s. Ég gleymdi að geta ljósameistarans, Arnars Ingvasonar, sem af kostgæfni og sínu listræna innsæi, tókst að gefa leikmyndinni meiri dýpt – og að beina athygli okkar að því , sem mestu máli skiptir – lit ástarinnar, rauða litnum.