AÐ FALLA Á SJÁLFS SÍN BRAGÐI. SVAR VIÐ GREIN BJÖRNS BJARNASONAR SEM BIRTIST Í MORGUNBLAÐINU 9. FEBRÚAR 2009

Björn Bjarnason, alþm., sendir mér tóninn í Mbl. (10.02.09). Björn virðist hafa fengið síðbúna hugljómun. Allt í einu hefur það runnið upp fyrir honum að EES – samningurinn, sem samþykktur var á alþingi 13. jan. 1993, fyrir sextán árum, sé orsök bankahrunsins í október árið 2008.

Björn virðist hafa gleymt því að hann samþykkti sjálfur þennan þjóðarvoðasamning á alþingi með atkvæði sínu.Og ekki nóg með það. Í tímaritsgrein í Þjóðmálum, málgagni nýfrjálshyggjumanna í mars 2007, segist hann sjálfur hafa borið alla ábyrgð á því, sem formaður utanríkismálanefndar, að hafa keyrt EES samninginn í gegnum þingið. Þar fór í verra. Hrun bankakerfisins árið 2008 er sumsé Birni Bjarnasyni að kenna, að hans eigin sögn!

Vilji Björn með þessum málflutningi skýra raunverulegar orsakir bankahrunsins út frá staðreyndum, verður því miður að taka viljann fyrir verkið. EES-samningurinn er eins og bögglað roð fyrir brjósti hans. Reyndar hefur afstaða Björns og þeirra sjálfstæðismanna til Evrópumála einkennst langa hríð af hringlandahætti og stefnuvingli svo að með ólíkindum er. Lítum á nokkrar staðreyndir:

Flokkur á flótta

  • Sjálfstæðisflokkurinn var á móti EES samningnum þegar hann var í stjórnarandstöðu (1988-91). Í staðinn boðuðu þeir tvíhliða samning við Evrópusambandið um fisk. Eftir á viðurkenndu þeir að það hefði verið skrum, enda slíkur samningur ekki í boði.
  • Árið 1991 vildu sjálfstæðismenn það til vinna að kúvenda afstöðu sinni til EES-samningsins til þess að komast í ríkisstjórn. Flokkurinn forðaðist að vísu að láta brjóta á sér í málinu fyrir kosningar 1991 og klofnaði svo í atkvæðagreiðslu um málið á þingi 1993, undir verkstjórn Björns.
  • Helstu rök sjálfstæðismanna gegn aðild Íslands að Evrópusambandinu (ESB) hafa hingað til verið þau að EES-samingurinn hafi reynst svo vel, að við þyrftum ekki að ganga í ESB. Nú er þessi mjög svo loflegi samningur allt í einu orðinn upphaf ógæfunnar. Skilur nokkur systemið í þessum galskap?
  • Í fjórtán ár héldu sjálfstæðismenn því fram að Íslendingar þyrftu ekki að ganga í ESB af því að þeir hefðu náð miklu betri árangri upp á eigin spýtur en bandalagið. Eftir að í ljós kom að þessi rómaði árangur var á sandi byggður (lífskjör fengin að láni) neyddist flokksforystan til að hrekjast frá fyrir stefnu. Það var boðað til aukalandsfundar í skyndi til þess að endurskoða stefnuna. Nú er búið að fresta þeim fundi.
  • Í fjórtán ár hefur þessi sjálfskipaði forystuflokkur þjóðarinnar ekki getað gert upp hug sinn til stærsta viðfangsefnis samtímans. Og getur ekki enn. Það er þetta langvarandi pólitíska getuleysi sem skýrir augljósa ákvarðanafælni flokksforystunnar. Hún er lömuð af ótta við klofning. Flokkur sem svona illa er fyrir komið er ófær um að veita öðrum forystu.

Það er mannlegt en ekki stórmannlegt að reyna að varpa sök af sér yfir á aðra. Það á við um þá kenningu Björns Bjarnasonar að EES-samingurinn sé undirrót bankahrunsins sextán árum síðar. Sú kenning verður seint sönnuð fyrir dómi eins og leiða má í ljós með einföldu dæmi.

Krosstré og önnur tré

Það er haft fyrir satt að Halldór E. Sigurðsson, fv. Samgöngumálaráðherra, hafi á sínum tíma beitt sér fyrir byggingu Borgarfjarðarbrúarinnar. Brúin þótti hin besta samgöngubót í héraði. Samt hafa því miður orðið þar alvarleg slys. Hefur það hvarflað að nokkrum manni að draga Halldór E. Sigurðsson, brúarsmið, til ábyrgðar fyrir það?Auðvitað ekki.

Myndlíkingin skýrir sig sjálf. Það er hlutverk stjórnvalda (stjórnmálamanna) að byggja veginn (EES-samninginn í þessari samlíkingu). Það er hlutverk lögreglunnar (seðlabanka og fjármálaeftirlits) að annast umferðareftirlit. Það er á ábyrgð einstaklinganna (bankastjóra útrásarinnar) að fara að umferðarreglum og forðast ofsa- og ölvunarakstur, sem stofnar lífi og limum annarra í hættu.

Það er svo hlutverk lögreglunnar að stuðla að umferðaröryggi, t.d. Með hraðatakmörkunum, og þegar allt um þrýtur að hafa hendur í hári þeirra , sem brjóta af sér.Lögreglan aflar síðan sannana fyrir umferðarlagabrotum og kærir til dómstóla, sem beita refsingum lögum samkvæmt, þar með talið sviftingu ökuleyfis (bankaleyfis).

Þetta ætti ekki að vefjast fyrir lögfræðingnum og dómsmálaráðherranum að skilja. Eitt er að veita einstaklingum réttindi með ábyrgð. Annað mál er það þegar einstaklingar svíkjast undan ábyrgð. En þá fer í verra þegar þeir sem eiga að framfylgja hinum almennu leikreglum og sjá til þess að eftir þeim verði farið, bregðast líka. Þá bregðast krosstré sem önnur tré. Það er þetta krosstré sem kallar sig Sjálfstæðisflokk sem í þessu dæmi hefur brugðist þjóðinni, neitar að viðurkenna sök sína og kennir svo öðrum um í þokkabót. Það er ekki stórmannlegt, Björn minn, a tarna.