Að loknu stúdentsprófi skildi leiðir með bekkjarfélögum. Atli Heimir hélt til tónlistarnáms til Kölnar þar sem hann nam ekki aðeins handverk tónskáldsins og hljómsveitarstjórans heldur gerðist handgenginn þýskum kúltúr. Mínar leiðir lágu til Bretlandseyja og Skandinavíu. Það gátu liðið mörg ár milli þess að við hittumst. En það var ævinlega eins og við hefðum kvaðst í gær. Svona reynast þau vináttubönd sem menn bindast á unglingsárum. Ætli ég hafi lært jafnmikið af öðrum mönnum, mér vandalausum?
Þetta var rúmum áratug eftir stríð. Þjóðverjar voru að skríða upp úr rústunum og að reyna að koma sálartötrinu í samt lag eftir að hafa tapað glórunni í sjálfstortímingaræði nasismans. Stundum hef ég heyrt spurningar eins og þessar: af hverju semur hann Atli ekki músík eins og Beethoven, Schubert og Schumann? Svarið er: Af því að hann var uppi á annarri öld. Öld öfga, ofbeldis og tortímingar. Schubert og Schumann hefðu ekki samið sömu músíkina ef þeir hefðu verið samtímamenn Atla Heimis. Músík Atla byggir að vísu á því besta sem þýsk músíkhefð býður upp á; og það er ekki smátt. En hann er einskis manns attaníossi eða hermikráka. Hann er skapandi hugsuður undir aga tónlistarformsins sem kemur til skila sálarháska og tilfinningaflæði tvíræðrar tilveru, sem einkennist af ofsa og hraða (í bland við angist) en leitar engu að síður að hjálpræði í hinu fagra og friðsæla. Atli Heimir er tónskáld “í anda tímans.” Punktur.
Ég held að það sé nauðsynlegt að skilja þetta til þess að skilja Atla. Meistari hans, Günther Raphael,