Á TÍMAMÓTUM: STYRMIR GUNNARSSON SJÖTUGUR. UM HÖFUÐVITNI ALDARFARSINS

Eins og alþjóð veit ekki, varð fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins 80 ára þann 27. mars, s.l. Fjölmiðlar – allavega Mogginn – hefðu einhvern tíma gert sér dagamun af minna tilefni. En Styrmir er hlédrægur maður og hefur sennilega bannað allt umstang. Spurning, hvort hann eigi að komast upp með það. Ég held ekki. Þess vegna birti ég hér fyrri part afmælisgreinar, sem ég skrifaði um Styrmi sjötugan. Umræðuefnið er verðugt.

Grein skrifuð 27.3.2017
Styrmir er sagður sjötugur í dag. Það þýðir að einn góðan veðurdag, áður en árið kveður, mun hann standa upp úr ritstjórastólnum, sem hann hefur setið 36 ár, taka hnakk sinn og hest og ríða inn í sólarlagið. Þetta munu þykja góðar fréttir á Wall Street. Verst, að ástandið á fjármálamörkuðunum leyfir varla, að þeir geri sér almennilega dagamun í tilefni dagsins. Nema hlutabréfaverðið taki upp á því að ranka við sér úr rotinu, svo að menn geti tekið gleði sína á ný.

En hvort sem mönnum þykir brottför Styrmis frá Hádegismóum góðar fréttir eða slæmar, þá táknar hún tímamót. Þegar þar að kemur. Maðurinn er búinn að vera 43 ár á Mogganum, þar af ritstjóri í 36 ár. Reyndar er liðin meira en hálf öld frá því að þeir Hörður Einarsson voru að bögga Bjarna Ben. með einhverri æskulýðssíðu í nafni SUS. Bjarna fannst þeir víst bara nokkuð efnilegir.

Ef þetta væri allt og sumt, þætti flestum það meira en nóg. En í raun og veru á að reikna ritstjóratíð Styrmis og Matthíasar saman. Saman hafa þeir staðið vaktina á ritstjórn Morgunblaðsins í heil 92 mannár – þar af 77 ár sem ritstjórar. Geri aðrir betur. Ég hef það fyrir satt, að þetta sé einsdæmi í mannkynssögunni. Til dæmis entist rússneska byltingin ekki nema í 70 ár, og urðu þó margir að skipta með sér verkum, þótt Stalín hafi reynst afkastamestur, þegar upp var staðið.

Ef meta á valdatíð Styrmis og Matthíasar, er helst að leita samanburðar við Fidel Castro á Kúbu. Hann var að segja af sér um daginn eftir tæpa hálfa öld á valdastóli. En þótt við reiknum sjálfan Fidel og Che Guevara saman, þá ná þeir ekki upp í Matthías og Styrmi. Svo eru sumir að monta sig af því að hafa lifað af þrjú kjörtímabil og ári betur í stjórnarráðinu. Það er greinilega misjafnt, hvernig menn upplifa stöðugleikann í tilverunni.

Og rifjast þá upp fyrir mér útfararræða Séra Björns O. Björnssonar um Jónas frá Hriflu. Hann fór mörgum orðum, og lofsamlegum, um uppeldisfrömuðinn, kennarann, skólastjórnandann, rithöfundinn og listunnandann, Jónas; en lét þess svo getið, eins og í aukasetningu, að Jónas hefði að vísu haft nokkur afskipti af pólitík um skeið. Prestinum hefur sennilega ekki þótt við hæfi að leggja nafn guðs við hégóma, þ.e.a.s. að nefna pólitík á nafn í guðshúsi.

Hjá góðu fólki.

Nú er ekki laust við, að þeir Matthías og Styrmir hafi haft nokkur afskipti af pólitík þessa tæpu öld, sem þeir hafa setið á ritstjórastóli þjóðarblaðsins. En þeir þurftu aldrei að skipta um vinnustað til þess að halda uppi málstaðnum. Voru þetta þó bara fáein skref úr Aðalstræti að Austurvelli, og þaðan niður á Lækjartorg og inn í stjórnarráðið. Sjálfum finnst mér athyglisvert, að í knöppu æviágripi Styrmis í Samtíðarmönnum, þar sem þessa eina vinnustaðar er getið, er að því vikið undir liðnum ritstörf, að eftir hann liggi ein ritsmíð: “Hjá góðu fólki” (sem mun vera bókarkafli með endurminningum sveitadrengs frá Hæli í Flókadal). 43 árgangar af Morgunblaðinu flokkast þar með greinilega ekki undir ritstörf, eða hvað?

Það verða sumsé tímamót. Ófáar kynslóðir Íslendinga hafa alist upp við það, að það sem þeir Matthías og Styrmir létu sem boð út ganga, bærist þeim að morgni dags inn um bréfalúguna. Þetta var óbrigðult. Það var varla til svo umkomulaust heimili í landinu, að Mogginn þætti þar ekki ómissandi – þótt ekki væri nú nema vegna minningargreinanna.

Morgunblaðið undir ritstjórn Matthíasar og Styrmis var með öðrum orðum ekkert venjulegt blað. Það var ekkert svona New York Times eða Le Monde eða Frankfurter Allgemeine sem stórpólitíkusar, kauphallarklíentar, menntaspírur og bókmenntakellingar lesa út af fyrir sig með morgunkaffinu. Nei – Morgunblaðið var þjóðarstofnun, rétt eins og Þjóðminjasafnið, Þjóðleikhúsið og Þjóðarbókhlaðan. Morgunblaðið var með öðrum orðum útbreiddasta blað í heimi, miðað við höfðatölu. Langsamlega svo. Þessi svokölluðu stórblöð í útlöndum þola þar engan samanburð. Meira að segja Pravda – sjálfur sannleikurinn – komst aldrei í hálfkvisti við Moggann, og voru þó bæði flokksblöð.

Morgunblaðið hafði með öðrum orðum miklu meira fylgi en Sjálfstæðisflokkurinn. Meðan fylgi Sjálfstæðisflokksins flökti þetta milli 35 og 40% +, var fylgi Moggans yfir 90%. Það slagaði hátt upp í sjálfan Stalín á velmektardögum hans. Var Mogginn kannski ekki flokksblað rétt eins og Pravda? Studdi hann ekki Sjálfstæðisflokkinn? Jú, víst gerði hann það með oddi og egg. Stundum var það Mogginn einn, sem hélt uppi málstaðnum, þegar allt fór í handaskolum hjá flokknum.

Þegar Bjarni Ben. var ekki að vinna í stjórnarráðinu, var hann ritstjóri Moggans. Þegar Geir hafði ekki vinnu í stjórnarráðinu, var hann altént stjórnarformaður Árvakurs, sem gefur út Blaðið. Og voru þeir ekki allir aldir upp á Mogganum hjá þeim Matthíasi og Styrmi, þessi drengir: Geir Haarde, Davíð Oddsson, Þorsteinn Pálsson, Björn Bjarnason og meira að segja Engeyingurinn, Halldór Blöndal? Það stendur vottað hjá framleiðslueftirlitinu, að öllum þessum eggjum var klakið út við rétt hitastig á ritstjórnarskrifstofum Moggans. Styrmi minnir meira að segja, að í einhverri ríkisstjórninni hafi allir ráðherrar Sjálfstæðisflokksins komið úr Morgunblaðsklakinu.

“Glasnost og perestroika”.

Nú má enginn skilja orð mín svo, að Sjálfstæðisflokkurinn sé mislukkaður sem slíkur. Ef tilgangurinn með því að reka stjórnmálaflokk er sá að ná völdum og viðhalda þeim, þá verður það að segjast eins og er, að Sjálfstæðisflokkurinn hefur skilað eigendum sínum góðum arði. Hægri flokkar annars staðar á Norðurlöndum eru t.d. óttalega mislukkaðar fjárfestingar í samanburði við þjóðarflokkinn íslenska. Þeir komast varla til valda nema nokkrum sinnum á öld og þá iðulega fyrir slysni.

Valdaferli Sjálfstæðisflokksins er helst að líkja við Kommúnistaflokk Ráðstjórnarríkjanna – meðan hann var og hét, – , Íhaldsflokkinn breska eða hinn Byltingarsinnaða Þjóðræknisflokk Mexíkana. Samt hefur Sjálfstæðisflokkurinn aldrei fengið hreinan meirihluta atkvæða á alþingi, eins og Mogginn hefur fengið með þjóðinni. Þetta sýnir bara, að þótt þeir Ólafur og Bjarni og epigónar þeirra hafi ekki verið neinir aukvisar, þá stóðust þeir samt ekki Matthíasi og Styrmi snúning.
Það hafa engir toppað þá til þessa.

Blað skilur bakka og egg, en anda sem unnast fær aldregi eilífð að skilið, sagði Jónas og var reyndar að hugsa um allt annað. En hvernig hefur girndarráði flokks og blaðs verið háttað í gegnum tíðina? Ég held, að Mogginn hafi verið flokknum mikilvægari en flokkurinn blaðinu. Hvernig hefði flokknum reitt af án blaðsins? Kannski þeir ættu að rannsaka það ofan í kjölinn í skorinni hans Ólafs Ragnars uppi í Háskóla.

Alla vega er ljóst, að til þess að lifa af, þurfti blaðið, kurteislega og smám saman, að losa sig úr faðmlagi flokksins. Sjálfstæðisbarátta Morgunblaðsins gagnvart Sjálfstæðisflokknum er reyndar annað rannsóknarefni fyrir þá uppi í Háskóla. Hvernig lýsti hún sér? Allt í einu fórum við, áskrifendur blaðsins, (sem vorum ekki endilega áhangendur flokksins) að lesa aðsendar greinar með morgunkaffinu eftir höfunda, sem voru jafnvel ekki krafðir um að framvísa flokkskírteininu. Og voru meira að segja gagnrýnir á flokksforystuna. Þeir einir, sem stunduðu nám í Austur-Evrópu á tímum Kalda stríðsins hafa forsendur til að skilja, hversu þýðingarmikil þessi breyting var. Mér skilst, að þetta hafi gerst upp úr 1978, eftir að flokkurinn galt afhroð í kosningum.

Þetta sýnir blátt á bleiku, hvað þeir Matthías og Styrmir voru framsýnir. Þetta var þeirra “glasnost” og “perestroika” – opnun og kerfisbreyting. Og við verðum að viðurkenna, að þeir voru þó nokkuð á undan Kommúnistaflokki Ráðstjórnarríkjanna í þessu. Gorbachev tók þetta svo upp eftir þeim upp úr 1985, vegna þess að vinur þeirra Styrmis og Matthíasar, Juri Reshetov, lautinant KGB við legasjónina við Túngötu, hafði sagt Mikhael Sergeivich frá þessu. Svona ruddu þeir brautina, fóstbræður.

Og svo byrjaði kvótastríðið, sem stendur enn – en með stuttum hléum. Þegar allra handa framsóknarmenn, innan og utan Sjálfstæðisflokksins, tóku upp á því að afhenda fáeinum útgerðarmönnum einkaleyfi til veiða á Íslandsmiðum, þá sögðu Matthías og Styrmir stopp. Þeim ofbauð. Þeir voru sannfærðir um, að þetta hefði Bjarni aldrei boðið upp á. Þeir beittu blaðinu af alefli gegn einni öflugustu klíku flokksins, LÍÚ- klíkunni. Hingað til án teljandi árangurs.

En þetta boðaði samt nýja tíma. Með málflutningi sínum sýndi blaðið, að í stórmáli, sem varðaði almannahag, stóð blaðið með þjóðinni og gegn flokknum. Þetta verður seint fyrirgefið. Og þeir létu ekki þar við sitja. Þeir sem höfðu fylgt Einari Ben. í stóriðjumálunum í nafni flokks og framfara, fóru að sjá viðvörunarorð á síðum Morgunblaðsins í anda Þorsteins Erlingssonar. Sólskríkjan fékk að syngja á síðum blaðsins, rétt eins og ránfuglinn, sem vokti yfir dyrum Valhallar, væri kominn undir lás og slá.

Pólitískt banahögg.

Sjaldan er ein báran stök. Gott ef það kom ekki hafsjór í kjölfarið. Þetta var orðið að spurningu um lýðræði. Við jafnaðarmenn – Eurókratar – höfum alltaf verið á varðbergi gagnvart ásókn auðkýfinga í að ráða fjölmiðlum og kaupa sér þannig hliðhollt almenningsálit í eiginhagsmunaskyni. Mogginn var nú ekki barnanna bestur í þessu. Var hann ekki stofnaður í upphafi sem málgagn kaupmanna, og hét jafnvel danski Moggi í munni alþýðu?

Þetta var allt í lagi, meðan Mogginn ríkit einn. Og svo sem ekkert umkvörtunarefni, þegar hin flokksblöðin týndu tölunni hvert á fætur öðru út af blankheitum. Mogginn breiddi bara út faðminn og bauðst til að vera vettvangur þjóðarumræðunnar – undir ráðstjórn. En þegar við Kratar höfðum kollvarpað gamla flokksræðislénsveldinu með EES, runnu upp breyttir tímar. Meiningin var, að bissness stæði á eigin fótum og þyrfti ekki að þiggja umboð sitt frá Flokknum. En þegar hinir nýríku ættarlaukar frjálsra viðskipta fóru að færa sig upp á skaftið og sölsuðu undir sig, í krafti auðsins, bæði prent- og ljósvakamiðla, og þar með talið auglýsingamarkaðinn, þá tók gamli Moggi upp málstað okkar jafnaðarmanna gegn ásókn auðvaldsins.

Í múgæsingum, sem af hlutust, var sá ljóður á ráði formanns Flokksins, að hann hafði ekki, svo vitað væri, haft teljandi áhyggjur af tjáningarfrelsinu, meðan Mogginn ríkti einn. Fjölmiðlafrumvarpið fræga snerist um það í fyrstu gerð, að tilteknar persónur, sem ekki voru í náðinni, mættu ekki eiga miðla. Krossferðin fyrir tjáningarfrelsinu fékk því svolítið holan hljóm. Hver hefur efni á að kosta lýðræðið? Á að reka lýðræðið fyrir eyri ekkjunnar?

En vinstrið – með forseta lýðveldisins í broddi fylkingar – sló skjaldborg um rétt auðvaldsins til að eignast og ráða hinum skoðanamyndandi miðlum lýðræðisins – gegn Mogganum. Þegar fyrrverandi formaður Alþýðubandalagsins og eiginmaður milljarðamæringsins á forsetastóli neitaði að undirrita gjörninginn, hafði öllu verið snúið á haus. Flokkurinn sá ofsjónum yfir uppgangi hinna nýríku, en vinstrið varði ólígarkana til seinasta manns. Synjun forsetans reyndist vera tæknilegt “knock-out” á flokksformanninn, sem þar með var búinn að vera í pólitík. Sturlungaöld hin nýja bíður síns sagnaritara.

Hlutverkavíxlin eru enn eitt rannsóknarefnið fyrir þá uppi í háskóla. En mér segir svo hugur um, að þetta hafi verið fyrsta lota í öðrum og stærri slag, sem bíður framundan. Það er slagurinn gegn hinum sívaxandi ójöfnuði, sem setur mark sitt á hið nýríka borgríki markaðshyggjunnar á Íslandi. Matthíasi hugnast það ekki. Styrmi ekki heldur.Og þaðan af síður mér. Það stríð er framundan. Hlutverk Morgunblaðsins í því stríði mun ráðast af því, hverjir verða arftakar Styrmis á ritstjórarstólnum úti í Móum.

Líka þess vegna eru tímamót framundan. Það skiptir ekki litlu máli, hverjir veljast til að taka við arfleifð Styrmis og Matthíasar. Verða það menn handgengnir flokkseigendafélaginu? Eða verða það fulltrúar eignarhaldsfélags hinna nýríku, sem þar með munu innsigla yfirráð sín yfir miðlum lýðræðisins. Við sjáum, hvað setur.

Næsta stríð?

Næsta stríð verður um Evrópu. Íslenska þjóðin er nú að súpa seyðið af því, að stjórnmálaforystan s.l. þrjú kjörtímabil (arftakar Ólafs Thors og Hriflu Jónasar) hafði hvorki vit né kjark til að horfast í augu við staðreyndir. Nefnilega að íslenska krónan er ekki lengur gjaldgeng, hvorki í viðskiptum okkar innbyrðis né erlendis; og þar af leiðandi eins og hver önnur tímasprengja undir afkomu atvinnuvega og lífskjörum þjóðarinnar. Tilraunin sem fyrrverandi formaður Flokksins tók að sér að gera með “sjálfstæða peningastefnu” kringum krónuna árið 2001 hefur mistekist svo gersamlega, að ekki þarf um að binda. Langminnugir menn í pólitík muna ekki eftir áfalli, sem er jafn þungbært fyrir jafnmarga og það sem nú blasir við: Óðaverðbólga, okurvextir og eldsneytissprengja.

Matarreikningurinn, afborganirnar af lánunum (hvort heldur sem er af hinum erlendu eða af hinum verðtryggðu) og verðsprengjan við bensíndæluna hafa rústað fjárhag heimilanna. Kjarasamningarnir, sem gerðir voru í góðri trú, eru nú þegar fyrir bí. Hverjir bera ábyrgðina? Þeir sem skrökvuðu því að þjóðinni, að Evrópusambands- aðild væri ekki á dagskrá. Þeir sem neita því, upp í opið geðið á staðreyndunum, að heilbrigt atvinnulíf og batnandi lífskjör byggja að lokum á traustum gjaldmiðli. Og skipta svo um umræðuefni, þegar kemur að kjarna málsins. Þetta verður næsta stríð. Flest annað er sem hismi og hjóm og hvellandi bjalla hjá því. Hverjir þora að takast á við þennan tilvistarvanda? Það er spurningin. Það eru margir kallaðir en fáir útvaldir. Hinir útvöldu verða vegnir á þennan kvarða: Þora þeir að segja sannleikann og bera honum vitni?

Þessi grein, sem er skrifuð í tilefni af 70 ára afmæli Styrmis Gunnarssonar, er þegar orðin svona löng, án þess ég hafi minnst á kalda stríðið nema einu sinni. Fundum okkar Styrmis bar fyrst saman á leikvellinum fyrir framan Laugarnesskólann, þremur árum eftir inngöngu Íslands í NATO og ári eftir komu varnarliðsins. Ég kom að vestan og frá vinstri. Hann kom að sunnan og frá hægri.

Við vorum svo sem ekki einir í heiminum. Þarna var líka Ragnar Arnalds, stórættað rithöfundarefni og verðandi formaður Alþýðubandalagsins. Og fulltrúi Engeyjarættarinnar, Halldór Blöndal, þjóðvarnarmaður í æsku og þjóðrækið íhald til efsta dags. Útgefandi Dagblaðsins, hins frjálsa og óháða, sem síðar varð, Sveinn Eyjólfsson gerði öðru hverju grín að því, að við hinir hvikuðum hvergi frá hinni dregnu víglínu. Skáldið og kvikmyndagerðarmaðurinn, sem seinna nam fræði sín í Moskvu, Magnús Jónsson, lyfti okkar prósaiska riflrildi öðru hverju í skáldlegar hæðir eða hafði okkur að háði og spotti fyrir einsýni og óðapólitík.

Spurningum ósvarað.

Hver og einn sem brá brandi á þessu pataldri, hafði sína torfu að verja: Rómantík þjóðrækninnar, allsnægtadraum kapitalismans, fyrirheit jafnaðarstefnunnar og nirvana listnautnarinnar. Þessi rökræða hófst á fyrsta degi og stendur enn, án niðurstöðu. Reyndar grunar mig, að þegar að því kemur að draga réttar ályktanir af reynslu hins liðna um framtíð þjóðarinnar, þá verði ég í minnihluta í þessum félagsskap – en að lokum í meirihluta með þjóðinni. En þetta verður ekkert áhlaupaverk. Og hvar verður vettvangur þjóðarumræðunnar þá? Verður henni úthýst úr Mogganum og niður í netheima?

Það fer ekki fram hjá mér, að menn eru að reyna að koma Styrmi , vini mínum, fyrir pólitískt kattarnef, með slúðurburði og gróusögum. Til dæmis er komið út herðibreitt tímarit til andsvars við þjóðmælgi þeirra Gissurarsona. Þetta er fínt. Þarna er kominn vettvangur til að halda áfram rökræðunni um, hvert skal halda. Eina greinin í Herðubreið, sem nær ekki máli, er slúðrið um Morgunblaðsritstjórann. Við, sem höfum rifist og rökrætt við hann í meira en hálfa öld, vitum að hann er rökfastur og fylginn sér; en hann hlustar og tekur rökum. Það eina sem hann þolir ekki er yfirborðsmennska, hégómaskapur, látalæti og uppskafningur. Þetta er gagnlegt að vita fyrir þá, sem vilja reyna sig við hann.

Það fer að styttast í það, að ritstjórinn kveðji vettvang dagsins. Þessir 43 árgangar af Morgunblaðinu eru eins konar dagbók ritstjórans. Þar segir frá atburðarás hins kalda stríðs; þar segir frá því, hvernig fátæk smáþjóð braust frá örbirgð til bjargálna. Þar segir frá hólmgöngu hugmynda um, hvernig mannlegu samfélagi er best háttað. Og þar segir frá því, hvernig blaðið lagði sig fram við fjórtán stjórnarmyndunarviðræður á vakt ritstjórans um að halda flokknum við völd.

En þar segir fátt af mannlegum samskiptum, sem eru salt jarðar og krydd tilverunnar. Það bíður þess, að ritstjórinn segi söguna, sem gerðist að tjaldabaki byggt á dagbókum mannsins, sem var ævinlega viðstaddur þar sem dró til tíðinda. Það verður forvitnileg lesning, eftir eitt helsta höfuðvitni samtímans. En einni spurningu verður samt ekki svarað þar, þykist ég vita: Hvers vegna maðurinn á bak við tjöldin tók aldrei skrefið fram á sviðið, þar sem fáir hefðu staðið honum á sporði. Þeirri spurningu verður varla svarað úr þessu – eða hvað?