Í MINNINGU ÁRNA ÁRNASONAR

Árni, vinur minn, Árnason naut þess heiðurs að vera ræðismaður Íslands í þeirri borg á jarðarkringlunni, þar sem Íslendingar eru í mestum hávegum hafðir, Vilníus, höfuðborg Litháens. Ekki sakaði, að Árni var höfði hærri en annar lýður – nánast tveggja metra maður – en það þykir kjörstærð fyrir þjóðaríþrótt Litháa, sem er körfuknattleikur. Þegar saman fer að hafa alla burði til að ná landsliðinu í körfubolta og að vera íslenskur í þokkabót, verður ekki lengra komist í þessu lífi í þvísa landi. Árni ræðismaður var því í hávegum hafður, og honum stóðu allar dyr opnar í Vilníus.

Að loknum prófum í viðskipta- og rekstrarfræðum hér heima og frá Verslunarháskólanum í Kaupmannahöfn gerðist Árni útrásarmaður, eins og það heitir nú til dags. Hann var Hafskipsmaður og var alla ævi stoltur af því. Því næst vann hann að útflutningi og markaðsöflun fyrir lagmetisiðnaðinn, Álafoss og Útflutningsráð. Þegar kjarkmiklir menn tóku höndum saman um að stofna hátæknilyfjaverksmiðju í Litháen, fáeinum árum eftir að Litháar endurheimtu sjálfstæði sitt, varð Árni fyrir valinu til að veita henni forstöðu. Þetta var brautryðjendastarf, en eins og oft á við um brautryðjendur, voru þeir þarna of snemma á ferðinni til þess að þetta mætti takast. Hálfum áratug síðar, eða svo, hefði þetta getað orðið blómlegur bissniss, en eigendur Ilsanta hafði þrotið örendið, áður en á það reyndi. Þessi dæmi sýna, að Árni var nokkrum skrefum á undan sinni samtíð; hann var í útrásarsveitinni áður en rásbrautin var orðin bein og breið. Þeir sem síðar fetuðu í þessi fótspor, gátu ýmislegt lært af reynslunni.

En fyrir Árna varð ekki aftur snúið. Hann hafði bundist ástfóstri við Vilníus og undi hvergi betur sínum hag. Og satt er það: Vilníus er perla meðal miðaldaborga Mið-Evrópu. Hún er hógvær og látlaus, en leynir á sér við nánast hvert fótmál. Andi menningar og mennta svífur þar enn yfir vötnum, og þungur ómur ótal kirkjuklukkna minnir íbúana á, að það eru hin andlegu verðmæti, sem gefa lífinu gildi, fremur en hinn veraldlegi auður, sem mölur og ryð fá grandað. Ekki svo að skilja, að Vilnubúar hafi snúið baki við veröldinni, eða hafi gengið í klaustur (þótt þau séu mörg). Miðaldaborgin fagra blómstrar sem aldrei fyrr og skartar sínu fegursta með brosi á vör, en allt er það gert af smekkvísi og hógværð, sem heldur einhvern veginn aftur af æðibunugangi þeirra, sem fara offari í eftirsókn eftir vindi. Mig undraði ekki, að útlaginn íslenski undi vel sínum hag í faðmi Vilnu.

Árni haslaði sér völl í viðskiptalífi borgarinnar. Hann átti hlut að uppbyggingu nýrra íbúðahverfa, sem áttu að leysa af hólmi kumbaldana frá Kruschev og Brésnev tímanum, sem voru lýti á landslaginu. Hann var farinn að ná árangri í útflutningi á litháiskri framleiðslu til þeirra svæða í Bandaríkjunum, þar sem líháiskir útlagar eru fjölmennir. Bragðlaukar þessa fólks muna enn, að litháiskur mjöður á ekki sinn líka, og ostarnir bera keim ættlandsins góða. Þetta fór hægt af stað, en fór smám saman vaxandi, sérstaklega í borg vindanna, Chicago, sem telst vera næststærsta borg Litháens. Í þessum viðskiptum var Árni í samstarfi við Þorstein Þorsteinsson í Boston, sem var tengiliður milli Eystrasaltsins og vatnanna miklu í Mið-Vestrinu.

Þessi þrjú ár, sem ég gegndi embætti sendiherra Íslands í Litháen var okkur Bryndísi tíðförult á fornar slóðir, ýmist til að reka þar erindi fyrir íslensk stjórnvöld eða til fyrirlestra- og ráðstefnuhalds. Það brást ekki, að ævinlega var ræðismaður vor mættur á flugvellinum og til þjónustu reiðubúinn. Við áttum saman margar góðar stundir. Hann lagði sig fram um sýna okkur helstu breytingar á byggingum og borgarlífi, sem orðið höfðu milli ferða. Sérstaklega er mér minnisstæð þjóðhátíðarstemningin 1. maí, 2004, þegar litháiska þjóðin fagnaði því með söng og dansi á strætum gömlu Vilnu, að Litháar voru orðnir fullgildir aðilar að Evrópusambandinu; að þeir höfðu á ný sameinast fjölskyldu evrópskra lýðræðisríkja eftir langa og harða útlegð. Æska borgarinnar vafði sig Evrópufánanum og gekk í fríðum fylkingum um stræti og torg með Evrópulofsöng Beethovens á vörum. Það var ekki leiðinlegt að vera Íslendingur í Vilníus á þeim degi.

Fregnin um, að Árni vinur minn hefði orðið bráðkvaddur að heimili sínu hinn 12. janúar síðastliðinn, kom yfir mig eins og reiðarslag. Á dauða mínum átti ég von en ekki hans, sem stóð í blóma lífs. Á andlátsdægri Árna, 12. janúar 2006, eru 15 ár liðin, því sem næst upp á dag, frá því að píslarvottar litháiskrar sjálfstæðisbaráttu létu lífið í átökum við sovéska hernámsliðið við sjónvarpsturninn í borginni árið 1991. Alla vikuna var Vilníus í svörtum sorgarklæðum og þjóðfáninn blakti við hún í hálfa stöng. Það verður ekki annað sagt en að stjúpborg Árna hafi kvatt fósturson sinn með viðhöfn og eftirsjá.